| Grétar Magnússon

Rafa treystir á Keane

Rafa Benítez setur traust sitt á Robbie Keane nú þegar ljóst er að Fernando Torres missir af næstu leikjum liðsins.  Það er ljóst að Keane mun nú leiða sóknina í næstu leikjum.

Keane er búinn að opna markareikning sinn hjá félaginu en hann á þó enn eftir að skora í deildinni.  Hann skoraði svo með írska landsliðinu gegn Kýpur á miðvikudaginn var.

Benítez sagði þetta í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins:  ,,Þegar við keyptum Robbie vorum við að leita að sóknarmanni með reynslu af Úrvalsdeildinni, gæðaleikmann sem gæti skorað mörk."

,,Þess vegna keyptum við hann, og nú þar sem hann er að skora fyrir landslið sitt þá er þetta tækifæri fyrir hann.  Það er mikilvægt fyrir leikmenn að spila vel þegar þeir fara í burtu, að skora mörk er mjög gott fyrir sjálfstraust þeirra.  Það er mjög gott."

Benítez var einnig ánægður með þá ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu að leyfa Atletico Madrid að spila á sínum eigin heimavelli í Meistaradeildinni.

,,Það var skynsamleg ákvörðun.  Það var of seint að fara að skipta um völl," sagði stjórinn.  ,,Það eru margir stuðningsmenn okkar að fara á leikinn, þetta hefði því verið mikið vandamál fyrir okkur og þá.  Þetta hefði líka verið stórt vandamál fyrir Atletico og þeirra stuðningsmenn."

Það er ljóst að Fernando Torres missir af leiknum gegn sínu gamla liði en honum hefur engu að síður verið boðið að sitja í VIP stúku félagsins og mun Benítez ekki standa í vegi fyrir endurkomu hans á sinn gamla heimavöll.

,,Þetta fer nú eftir læknunum og sjúkraþjálfurunum en ég hef ekkert á móti því að hann fari með okkur því þetta er frábært tækifæri fyrir hann að segja halló við stuðningsmenn Atletico.  Hann er virkilega vonsvikinn yfir því að geta ekki spilað.  Hann vildi ólmur spila í Madrid í Meistaradeildinni, þetta er því mikil synd."

Talið er að Torres missi af næstu fjórum leikjum, Wigan heima, Atletico úti, Chelsea úti og Portsmouth heima.  Benítez bætti hinsvegar við:  ,,Það er líklegt að hann nái Portsmouth leiknum en þetta veltur auðvitað allt á leikmanninum sjálfum.  Þetta er bara spurning um tíma."

Um meiðsli Babel sagði Benítez:  ,,Ég held að hann verði ekki með um helgina en vonandi mun hann æfa með liðinu í næstu viku."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan