| Sf. Gutt

Mögnuð endurkoma í Manchester!

Liverpool sýndi mikinn sigurvilja með því að snúa tapstöðu í 3:2 útisigur gegn Manchester City. Heimamenn voru tveimur mörkum yfir í leikhléi en sigurmark á lokamínútu innsiglaði magnaða endurkomu Liverpool.

Bæði lið lögðu upp með sóknarleik og sóknir gengu marka á milli. Albert Reiera ógnaði fyrst gegn sínu gamla liði en Joe Hart varði viðstöðulaust skot hans úr þröngu færi. Albert, sem var mjög ógnandi á vinstri kantinum lagði svo upp færi fyrir Dirk Kuyt en hann mokaði boltanum yfir úr góða færi. Það voru á hinn bóginn heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. Shaun Wright-Phillips braust upp að endamörkum vinstra megin og kom boltanum út í teiginn. Alvaro Arbeloa hefðu getað hreinsað en Stephen Ireland var snöggur að átta sig og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Leikmenn Liverpool reyndu að jafna og sóttu nokkuð án þess að skapa sér opin færi. Heimamenn bættu svo við öðru marki upp úr þurru á 41. mínútu. City fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan vinstra vítateigshornið. Javier Garrido tók aukaspyrnuna og hamraði boltann upp í nærhornið án þess að Jose Reina næði að koma nokkrum vörnum við. Það var nú varla hægt að segja að þessi staða gæfi rétta mynd af gangi leiksins en hún var engu að síður staðreynd. Útlitið var því ekki gæfulegt fyrir Liverpool þegar leikhléið hófst.

Liverpool hóf síðari hálfleik af krafti og Dirk náði að brjótast inn á vítateig á fyrstu mínútu þar sem hann féll eftir samstuð við Richard Dunne. Dómarinn dæmdi ekkert en Dirk hafði nú eitthvað til síns máls. Liverpool komst svo inn í leikinn á 55. mínútu. Alvaro sendi út til hægri á Steven Gerrard sem gaf aftur á bakvörðinn sem var þá kominn inn í teig. Hann renndi boltanum fyrir markið á Fernando Torres sem skoraði af markteig. Frábær sókn og glæsilegur samleikur. Nú átti Liverpool möguleika aftur. Heimamenn hresstust heldur í kjölfarið á markinu og á 65. mínútu fengu þeir gott færi til að gera svo gott sem út um leikinn. Shaun lék upp að endamörkum hægra megin og sendi fyrir markið. Tveir leikmenn City voru dauðafríir og Robinho var fyrstur að boltanum en skaut hátt yfir af örstuttu færi. leikmenn Liverpool vildu fá rangstöðu en hún var ekki dæmd. En í stað þess að City gerði út um leikinn þá snerist nú allt þeim í mót. Tveimur mínútum seinna sparkaði Pablo Zabaleta Xabi Alonso niður og var umsvifalaust rekinn af leikvelli.

Leikmenn Liverpool gengu nú fyrst almennilega á lagið. Rafael skipti þeim Robbie Keane og Andrea Dossena inn á og sóknin þyngdist. Á 73. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Steven tók hana og sendi boltann beint á höfuðið á Fernando sem skallaði í markið sem var óvarið eftir gönuhlaup hjá Joe Hart. Stuðningsmenn Liverpool fyrir aftan markið fögnuðu nú kröftuglega! Liverpool réði nú lögum og lofum. Á 82. mínútu fékk Fernando dauðafæri. Steven sendi inn á Robbie vinstra megin. Hann gaf fyrir markið en Fernando náði ekki að stýra boltanum í autt markið við fjærstöngina. Flestir tölu markið víst en það kom ekki þarna. Fimm mínútum seinna varð Liverpool fyrir miklu áfalli. Martin Skrtel féll þá og meiddist illa á hægra hné eftir að hafa verið í miklu kapphlaupi við sóknarmann City. Martin var borinn sárþjáður af velli og ekki er útlit á að hann spili knattspyrnu á næstunni. Það verður mikill missir af Martin sem er búinn að leika frábærlega á leiktíðinni. Það tók drjúgan tíma að huga að Martin og dómarinn bætti sex mínútum við venjulegan leiktíma. Nú var jafnt í liðum eftir að Martin meiddist því Yossi Benayoun kom inn litlu áður en hann var þriðji varamaður Liverpool til að koma til leiks. Það voru aðeins tvær mínútur af viðbótarmínútum sex liðnar þegar sigurmarkið kom. Liverpool náði laglegu spili upp vinstri kantinn. Andrea sendi inn á teiginn á Yossi sem lék upp að endamörkum og renndi boltanum út á Fernando. Skot hans komst ekki tilætlaða leið en boltinn hrökk yfir að fjærstönginni á Dirk Kuyt sem gerði engin mistök og smellti boltanum upp í þaknetið. Allt gekk af göflunum hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Liverpool fyrir aftan markið. Þvílík endurkoma sem Dik fullkomnaði þarna með sínu fyrsta deildarmarki í árinu! Sigur Liverpool þýðir að liðið er enn með jafn mörg stig og Chelsea í efsta sæti. Nú verður hlé vegna landsleikja og vonandi heldur Liverpool áfram á sömu braut eftir það!

Manchester City: Hart, Zabaleta, Dunne, Richards, Garrido, Wright-Phillips, Ireland, Kompany, Elano (Petrov 85. mín.), Robinho (Evans 80. mín.) og Jo (Fernandes 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Schmeichel, Hamann, Ben-Haim og Sturridge.

Mörk Manchester City: Stephen Ireland (19. mín.) og Javier Garrido (41. mín.).

Rautt spjald: Pablo Zabaleta.

Gult spjald: Richard Dunne.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio (Dossena 70. mín.), Mascherano (Keane 71. mín.), Kuyt, Gerrard, Alonso, Riera (Benayoun 81. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Babel og Leiva.

Mörk Liverpool: Fernando Torres (55. og 73. mín.) og Dirk Kuyt (90. mín.).

Gul spjöld: Alvaro Arbeloa.

Áhorfendur á Manchester leikvanginum: 47.280.

Maður leiksins: Fernando Torres. Hann skoraði mörkin sem jöfnuðu leikinn og lögðu grunninn að sigri Liverpool. Bæði mörkin afgreiddi hann mjög vel. En fyrir utan að skora tvö mörk þá var hann ógnandi allan leikinn og mjög duglegur.

Rafael Benítez: Það jákvæða við leikinn var hvernig leikmennirnir brugðust við eftir að hafa átt slæman fyrri hálfleik. Við gerðum mistök í bæði skiptin sem þeir skoruðu en lykilinn að sigrinum var hvernig við brugðumst við eftir leikhlé með mikilli skapfestu. Ég sagði leikmönnunum í leikhléinu að reyna að skora eitt mark og þá myndum við vera komnir aftur inn í leikinn. Við höfðum undirtökin í síðari hálfleik og leikmennirnir höfðu trú á sigri allt til loka leiksins.

Fróðleiksmolar: Dirk Kuyt skoraði sitt fyrsta deildarmark í ellefu mánuði. - Þetta var í fjórða sinn á leiktíðinni sem Liverpool vinnur leik eftir að hafa lent undir.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv. 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan