| Sf. Gutt

Steven gleðst yfir hundraðinu!

Steven Gerrard náði þeim merka áfanga gegn PSV Eindhoven í gærkvöldi að skora sitt hundraðasta mark fyrir Liverpool.

Það var ljóst um leið og Liverpool fékk aukaspyrnu fyrir utan vítateig PSV að Steven Gerrard ætlaði sér að skjóta að marki. Það gerði hann eftir að Fabio Aurelio sendi boltann stutt til hans og augnabliki síðar lá boltinn í markinu fyrir framan The Kop! Steven fagnaði markinu innilega og hann var að sjálfsögðu ánægður með þennan merka áfanga eftir leikinn.

"Ég vissi það fljótlega að skotið myndi takast vel því ég hitti boltann nokkuð vel og það var frábært að sjá boltann hafna í netinu. Það fylgir því alltaf frábær tilfinning að skora fyrir framan The Kop. Markið var líka nokkurs konar þakklætisvottur til áhorfenda þar fyrir stuðninginn í gegnum árin."

Nú er Steven Gerrard kominn í hóp útvaldra markaskorara í sögu Liverpool sem hafa skorað fleiri en 100 mörk og í þeim flokki eru engir aukvisar.

"Það fer um mann sæluhrollur þegar maður er nefndur í sömu andrá og leikmenn á borð við Kenny Dalglish, Ian Rush og Robbie Fowler því allir vita hvaða sess þessir leikmenn hafa hjá þessu knattspyrnufélagi. Ég held nú að ég eigi ekki eftir að ógna markametum þeirra svo þeir þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur hvað það varðar."

Rafael Benítez, framkvæmdastjóri Liverpool hrósaði Steven eftir leikinn og Rafa telur að Stevie geti skorað miklu fleiri mörk fyrir Liverpool.

"Að skora 100 mörk er mikið afrek og sérstaklega þegar haft er í huga að það er miðjumaður sem í hlut á. Hann er einn af bestu sóknarmiðjumönnum í heiminum og vonandi á hann eftir að skora mörg mörk fyrir okkur í viðbót. Hann er enn ungur að árum og hver veit nema hann eigi eftir að skora 200 mörk! Það er ekki útilokað að hann geti það!”

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan