| Sf. Gutt

Söguleg mörk í öruggum sigri!

Söguleg mörk tryggðu Liverpool öruggan 3:1 sigur á PSV Eindhoven í Meistaradeildinni á Anfield Road í kvöld. Robbie opnaði markareikning sinn og Steven Gerrard skoraði sitt hundraðasta mark!

Liverpool byrjaði af krafti gegn hollensku meisturunum og á 4. mínútu kom fyrsta hornspyrnan. Steven Gerrard tók hornspyrnuna frá hægri. Fernando Torres fékk boltann og náði skoti á markið. Sænski landsliðsmarkvörðurinn Andreas Isaksson verði en hélt ekki boltanum sem barst út í teig á Dirk Kuyt. Hollendingurinn lagði boltann fyrir sig og náði föstu skoti sem fór í Andreas og skrúfaðist upp í þaknetið. Fullkomin byrjun í rigningunni í Liverpool. Þetta var 100 Evrópumarkið sem Liverpool skorar í valdatíð Rafael Benítez. Liverpool tók hér og nú öll völd á vellinum. Leikmenn liðsins léku boltanum á milli sín langtímum saman og PSV komst varla fram fyrir miðju. Það fór þó lítið fyrir færum en víti hefði Liverpool átt að fá á 19. mínútu þegar Carlos Salcido krækti í fót Robbie Keane og skellti honum. Ekkert var dæmt en Robbie kættist heldur betur á 34. mínútu. Dirk náði þá að komast framhjá þremur leikmönnum og senda boltann út til hægri á Fernando. Spánverjinn sendi frábæra sendingu fyrir markið á Robbie Keane sem stýrði boltanum út í vinstra hornið úr miðjum teig. Mikill fögnuður greip um sig og Írinn tók á rás út að hornfána og fagnaði fyrsta marki sínum fyrir Liverpool með gamalkunnum hætti! Robbie var greinilega létt og félagar hans glöddust með honum. Frábært að Robbie sé nú búinn að komast á marklista Liverpoool! Fleira markvert gerðist ekki í hálfleiknum en yfirburðir Liverpool voru algjörir.

Yfirburðir Liverpool héldust í síðari hálfleik en leikmenn PSV reyndu nú heldur að færa sig upp á skaftið. Fátt var lengst af um færi en Nordin Amrabat, sem var mjög duglegur, átti gott skot eftir klukkutíma sem fór rétt framhjá. Á 65. mínútu fékk Fernando fullkomna sendingu fram frá Jan Kromkamp en hann skaut rétt framhjá. Líklega hefur Jan fundist eitt andartak að hann væri ennþá leikmaður Liverpool og það var leiðinlegt að þessi góða sending hans skyldi ekki gefa af sér mark! Á 75. mínútu stóðu stuðningsmenn Liverpool, þeir sem sátu, upp allir sem einn og klöppuðu fyrir Robbie Keane sem skipti við Lucas Leiva. Mínútu síðar fékk Liverpool aukaspyrnu um 25 metra frá markinu fyrir framan The Kop. Það var algjörlega ljóst frá því augnabliki sem spyrnan var dæmd að Steven Gerrard ætlaði sér að skjóta að marki enda vantaði hann ennþá eitt mark upp á að ná hundraðinu. Fabio Aurelio tók spyrnuna og rúllaði boltanum stutt á Steven sem hamraði boltann í markið án þess að varnarmenn eða markmaður hollensku meistaranna gætu rönd við reist. Í hundraðasta sinn lá boltinn í marki andstæðinga Liverpool eftir að Steven Gerrard hafði skilað boltanum þangað! Magnað augnablik og Steven og allir viðstaddir á Anfield Road, svo og allir stuðningsmenn Liverpool um allar grundir þessarar veraldar, trylltust af fögnuði. Það verður engu logið á þennan frábæra leikmann og afrek hans er mikið! Gestirnir kom heldur betur á óvart tveimur mínútum síðar þegar Danny Koevermans skoraði laglega úr teignum eftir fyrirgjöf frá hægri. Þetta var eina skot þeirra sem hitti á rammann í leiknum. Sigri Liverpool var aldrei ógnað og stuðningsmenn Liverpol gátu farið kátir heim eftir að hafa séð söguleg mörk og sætan sigur!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Aurelio, Kuyt, Gerrard (Babel 81. mín.), Alonso, Riera (Benayoun 68. mín.), Torres og Keane (Leiva 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Mascherano.

Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (5. mín.), Robbie Keane (34. mín.) og Steven Gerrard (76. mín.).

PSV Eindhoven: Isaksson, Kromkamp, Simons, Marcellis, Salcido, Brechet (Pieters 46. mín.), Mendez (Dzsudzsak 76. mín.), Culina, Bakkal, Amrabat og Wuytens (Koevermans 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Cassio, Rodriguez, Zonneveld og Nijland.

Mark PSV: Danny Koevermans (78. mín.)

Gult spjald: Dirk Marcellis.

Áhorfendur á Anfield Road: 41.097.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn var ekki endilega besti leikmaður Liverpool en hann lék reyndar mjög vel á miðjunni. Hann er á hinn bóginn valinn vegna þess að hann skoraði hundraðasta mark sitt fyrir Liverpool! Frábært afrek hjá þessum magnaða miðjumanni. Markið var líka dæmigert fyrir kappann. Þrumuskot sem þandi netmöskvana og auðvitað gerðist það fyrir framan The Kop!

Rafael Benítez: Það var margt jákvætt í leiknum. Liðið er á sigurbraut, leikur þess var traustur og það var gott jafnvægi í því. Þetta er uppskrift að sigri. Þetta var næstum því fullkomin kvöldstund. Það hefði verið enn betra ef við hefðum haldið hreinu en ég er mjög ánægður. 

Fróðleiksmolar: Robbie Keane skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool. - Steven Gerrard skoraði sitt 100. mark fyrir Liverpool. - Liverpool hefur aldrei áður unnið fyrstu tvo leiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Í hinum leiknum í  D riðli vann Atletico Madrid 2:1 sigur á Marseille í Madríd.

Staðan í D riðli er nú svona:

Atletico Madrid 2. 2. 0. 0. 5:1. 6
Liverpool 2. 2. 0. 0. 5: 2. 6
Marseille 2. 0. 0. 2. 2:4. 0
PSV Eindhoven 2. 0. 0. 2. 1:6. 0

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Mirror

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu UEFA

Mark númer 100:-)

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan