| Grétar Magnússon

Alonso vill byrja vel gegn Marseille

Xabi Alonso segir að leikmenn liðsins vilji ólmir byrja vel í Meistaradeildinni og segir Spánverjinn að sigur sé það eina sem komi til greina í hugum þeirra.

Eftir 4-0 sigur á Stade Velodrome á síðasta tímabili eru margir að búast við því að Liverpool vinni sigur í kvöld en Alonso veit þó sem er að Marseille eru firnasterkir á heimavelli.  Franska liðið er, líkt og Liverpool, ósigrað á þessu tímabili og býst hann við erfiðari leik að þessu sinni.

,,Við vitum að þetta verður erfiður leikur vegna þess að Marseille eru með gott lið og þeir eru að spila vel um þessar mundir," sagði Alonso.

,,Á síðasta tímabili náðum við góðum úrslitum á þeirra heimavelli.  En þeir náðu einnig góðum úrslitum á Anfield.  Við munum fara í leikinn með þá trú að við getum náð góðum úrslitum þarna aftur.  Við munum reyna að vinna leikinn því við vitum hversu mikilvægt það er að ná þremur stigum í fyrsta leik."

,,Ef við vinnum þá gerum við hlutina auðveldari fyrir okkur vegna þess að það eykur sjálfstraustið."

Þeir félagar, Fernando Torres og Steven Gerrard eru búnir að jafna sig af meiðslum og er búist við því að þeir verði í byrjunarliðinu í kvöld.  Javier Mascherano er einnig búinn að ná sér að fullu eftir smávægileg kálfameiðsli í leiknum gegn United en Fabio Aurelio er hinsvegar ekki með.  Það er því búist við að Andrea Dossena byrji í vinstri bakvarðastöðunni.

Ryan Babel mun einnig gera tilkall um sæti í byrjunarliðinu eftir sigurmarkið gegn United.  Babel veit, líkt og Alonso, að frönsku liðin eru gríðarsterk á sínum heimavelli:  ,,Frönsku liðin eru alltaf sterk, við verðum að vera vel undirbúnir og það er mikilvægt að við byggjum á sjálfstraustið."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan