| Sf. Gutt

Gullmark Dirk Kuyt kom Liverpool áfram!

Dirk Kuyt skoraði sannkallað gullmark sem kom Liverpool áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Markið mun færa Liverpool stórfé en liðið slapp vel frá rimmu sinni við belgísku meistarana. Liverpool þurfti framlengingu á Anfield Road í kvöld og var ekki sannfærandi.

Bæði lið byrjuðu af krafti og það var mikill hraði í leiknum frá byrjun. Belgarnir ógnuðu fyrst þegar Dieumerci Mbokani átti hörkuskot utan teigs sem Jose Reina varð að taka sig á til að verja. Rétt á eftir fékk Liverpool aukaspyrnu við hægri vítateigshornið. Fabio Aurelio tók spyrnuna og sendi bogaskot að fjærhorninu en markmaður Standard var vel á verði og sló boltann frá. Belgarnir sýndu strax að þeir ætluðu ekki að gefa tommu eftir og á 18. mínútu slapp Liverpool vel. Sending kom inn á vítateig Liverpool frá hægri. Tveir leikmenn Standard voru óvaldaðir inni á teig en rugluðu hvorn annan og boltinn sveif yfir alla. Ekki var allt búið enn og Marouane Fellaini fékk boltann í teignum þaðan sem hann skaut að marki. Jose var vandanum vaxinn og varði naumlega. Eftir þetta gerðist lítið fram að leikhléi. Dirk Kuyt fékk þó gott færi á undir lok hálfleiksins en hann skallaði framhjá eftir hornspyrnu frá Fabio.

Belgarnir drógu sig heldur aftar á völlinn í síðari hálfleik. Vörn liðsins var þétt og leikmönnum Liverpool gekk ekkert að koma sér í opin færi. Rafael sendi Ryan Babel inn á fyrir Yossi Benaypun sem ekki náði sér á strik en Hollendingnum gekk heldur betur að setja mark sitt á leikinn. Líklega var besta færi Liverpool skot sem Xabi Alonso átti en markmaðurinn varði á 68. mínútu. Robbie Keane hitti svo ekki boltann vel eftir að Dirk hafði sent á hann. Robbie lék ekki vel frekar en það sem af er leiktíðar og Nabil El Zhar leysti hann af undir lokin. Standard ógnaði ekki fyrr en á lokamínútu leiksins en þá skallaði Igor De Camargo rétt framhjá.  ekki mikið betur. Framlenging varð því ekki umflúin og belgísku meistararnir verðskulduðu að komast í hana.

Framlengingin var tíðindalaus framan af og ekkert hættulegt færi skpaðist í fyrri hluta hennar. Spennan jókst og liðsmenn beggja liða gerðu sér grein fyrir því að nú máttu engin mistök eiga sér stað. Sóknir Liverpool þyngdust en ekki voru þær ýkja hættulegar. Alvaro Arbeloa tók sig þó til og hamraði boltann að marki lengst utan af velli en Aragon Espinoza varði vel. Nabil var sprækur eftir að hann kom inn á og á 112. mínútu braust hann inn á vítateig framhjá þremur leikmönnum. Þar var hann felldur en dómarinn, sem sá atvikið vel, dæmdi ekkert. Ótrúlegt! Nú var allt útlit á framlengingu en það var ekki allt búið enn. Ryan Babel fékk þá boltann úti á vinstri kantinum. Hann virtist ætla að senda fyrir með vinstri en hætti við og lék til baka. Hann sendi svo loks fyrir með hægri. Boltinn sveif yfir að fjærstönginni þar sem Dirk Kuyt náði að stýra boltanum í markið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega en vissu um leið að Liverpool slapp vel frá þessari rimmu gegn belgísku meisturunum. Aðalatriðið var þó að komast áfram og Liverpool tókst það þó með naumindum væri!

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Kuyt, Gerrard, Alonso, Benayoun (Babel 61. mín.), Keane (El Zhar 83. mín.) og Torres (Plessis 120. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Spearing.

Mark Liverpool: Dirk Kuyt (118. mín.).

Standard Liege: Aragon, Camozzato, Onyewu, Sarr, Dante, Dalmat (Jovanovic 86. mín.), Fellaini, Defour (Nicaise 118. mín.), Witsel, De Camargo (Toama 101. mín.) og Mbokani. Ónotaðir varamenn: Devriendt, Goreux, Mikulic og Ingrao.

Gul spjöld: Mohamed Sarr, Igor De Camargo og Dante Bonfim Costa.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.889.

Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn sýndi sama viðhorfið í þessum leik og fyrstu 99 leikjum sínum með Liverpool. Hann barðist eins og ljón og var alltaf að reyna. Markið gullvæga var uppskera hans í kvöld og það átti hann sannarlega skilið.

Rafael Benítez: Við vissum að þetta gæti orðið erfiður leikur. Þeir léku vel frá fyrstu mínútu og við vissum að þeir gætu beitt hættulegum skyndisóknum. Við þurftum sannarlega að hafa fyrir hlutunum allt til enda leiksins. Það jákvæðasta frá mínum sjónarhóli var að við lékum aðeins betur gegn spræku liði og við náðum að skora undir lokin. Það sýnir að liðið er að leggja hart að sér.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan