| Sf. Gutt

Anthony Le Tallec yfirgefur Liverpool

Tilkynnt var í gær að Anthony Le Tallec hefði yfirgefið Liverpool. Samkvæmt tilkynningu á Liverpoolfc.tv þá hefur hann gert fjögra ára samning við Le Mans en hann var í láni hjá því félagi á síðustu leiktíð.

Þessi efnilegi leikmaður náði aldrei að festa sig í sessi hjá Liverpool. Hann gerði samning við Liverpool árið 2001 ásamt frænda sínum Florent Sinama Pongolle. Þá þóttu þeir meðal efnilegustu leikmanna í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Gerard Houllier var sannfærður um að þeir frændur yrðu lykilmenn í liði Liverpool og kallaði þá "Gimsteinana" en þeir náðu aldrei að standa undir væntingum.

Þeir frændur voru í láni hjá Le Havre þar sem þeir hófu ferilinn en komu svo loks til Liverpool sumarið 2003. Þessi fimm ár sem Anthony hefur verið á mála með Liverpool hefur hann verið miklu meira á láni hjá öðrum félögum. Hann var hjá St Etienne (2004/05), Sunderland (2005/06), Sochaux (2006/07) og svo Le Mans (2007/08). Hann varð franskur bikarmeistari með Sochaux vorið 2007. Anthony var fullæstur í að komast annað á lán og Rafael Benítez var ekki ánægður með það viðhorf hans. Franski strákurinn viðurkenndi síðar að hann hefði átt að sýna meiri staðfestu í að reyna vinna sér sæti í liði Liverpool. Anthony lék alls 32 leiki með Liverpool og skoraði eitt mark. Hann lék sína síðustu tvo leiki með Liverpool í byrjun leiktíðarinnar 2005/06. Á síðustu leiktíð lék hann aðeins æfingaleiki með varaliðinu áður en hann fór í lán til Le Mans. 

Antony Le Tallec er þó enn ungur að árum og hver veit nema hann eigi eftir að ná sér á strik í heimalandi sínu. Þess má til gamans geta að yngri bróðir hans Damien þykir mjög efnilegur og hefur leikið með unglingalandsliðum Frakklands.

Florent Simana Pongolle yfirgaf Liverpool endanlega 2007 og samdi við spænska Recreativo de Huelva. Hann hefur staðið sig vel þar og í sumar keypti Atletico Madrid hann. Það má því segja að hann hafi náð lengra en frændi hans þegar hér er komið við sögu. Hann lék 66 leiki með Liverpool og skoraði níu mörk.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan