| Sf. Gutt

Jack Hobbs er í óvissu

Miðvörðurinn efnilegi Jack Hobbs veit ekki hvað bíður hans í sumar. Hann er ennþá leikmaður Liverpool og vonast eftir að verða það áfram. Hann fór í lán til Scunthorpe United á miðri leiktíð en hann verður ekki til frambúðar þar. Jack bíður nú eftir því sem verða vill.

"Það á eitthvað eftir að gerast í sumar en ég veit ekki hvað. Annað hvort mun ég fá framlengingu á samninginn eða ég verð seldur. Ég vil vera hérna áfram en þegar allt er skoðað þá snýst þetta um að spila knattspyrnu. Ég er kominn á þann aldur að ég vil láta að mér kveða. Helst vil ég að það verði hjá Liverpool en það kemur í ljós."

Jack Hobbs er þó ánægður með þá reynslu sem hann fékk hjá Liverpool á fyrstu leiktíð sinni með aðalliðinu en hann lék fimm leiki með liðinu.

"Í heild hefur þetta verið góð leiktíð hjá mér. Ég spilaði minn fyrsta leik með aðalliðinu og lék í Úrvalsdeildinni og þar með rættist draumur sem ég átti. Ég fékk það hlutverk að passa leikmenn á borð við Andriy Shevchenko, Nicolas Anelka og Robbie Fowler og það var ótrúleg reynsla. Ég fékk líka að spila fyrir framan The Kop og eins spilaði ég á Stamford Bridge. Ég var svo varamaður í útileikjum í Meistaradeildinni gegn Besiktas og Marseille."

Þeir eru þó til sem vilja að hann fari frá Liverpool! Þannig er nefnilega mál með vexti að Liverpool keypti Jack Hobbs frá Lincoln City. Það félag á nú í fjárhagserfiðleikum og þar á bæ vonast nú til að Liverpool selji Jack. Ástæðan er einföld. Lincoln myndi fá drjúgan hluta söluverðsins samkvæmt samningi þeim er gerður var þegar Jack fór til Liverpool á sínum tíma! Það eru því ekki allir sem vilja að Jack verði áfram hjá Liverpool.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan