| Grétar Magnússon

Steve Finnan í viðtali

Steve Finnan er einn þeirra leikmanna sem ekki er fjarverandi með landsliði sínu þessa vikuna en hann lýsti því yfir fyrir skömmu að hann væri hættur að spila með landsliði Íra.  Hann er hér í viðtali þar sem hann talar um leikinn við Chelsea, sitt eigið leikform og Írland.

Áður en við tölum um úrslitin á laugardaginn, þá komstu inná í hálfleik og liðið skorar þrjú mörk - var þetta tilviljun eða er þetta þér að þakka ?

,,Þetta er tilviljun.  Leikir eiga það til að opnast meira í síðari hálfleik á Anfield og ég er viss um að ég hefði ekki komið inná ef Fabio hefði ekki meiðst.  Sóknarsinnaðir leikmenn hefðu frekar komið inná.  Því miður þá meiddist hann og ég kom inná."

Þú leystir stöðu vinstri bakvarðar, hvernig var það ?
 
,,Það var allt í lagi.  Ég hef spilað þarna áður.  Auðvitað vil ég frekar spila í hægri bakverði en þegar maður spilar sem bakvörður þá er maður vanur því að ákveðnir hlutir gerist og maður getur ráðið við þá."
 
Carra spilaði í þinni stöðu í leiknum og átti frábæra sendingu fyrir markið í fyrsta markinu - heldur þú að hann hafi lumað á þessu lengi ?
 
,,[Hlær] Já, hann hefur nú spilað þarna áður, en þetta var góður bolti og Crouchie kláraði þetta vel.  Það var mikilvægt að brjóta ísinn."
 
Eitt mark virtist gera gæfumuninn varðandi sjálfstraust liðsins - var þungu fargi létt af ykkur leikmönnunum ?
 
,,Ég held það já.  Sérstaklega þegar hlutirnir eru ekki að falla fyrir mann, þá er mikilvægt að skora fyrsta markið.  Það lyftir öllum upp og stuðningsmönnunum líka, sérstaklega á Anfield." 
 
Hefur brúnin á mönnum lést eftir sigurinn ?
 
,,Já já.  Alveg pottþétt.  Nú snýst þetta bara um það að halda áfram og koma sér aftur á meðal efstu fjögurra liðanna.  Góður sigur eins og þetta getur aðeins gefið okkur sjálfstraust fyrir næsta leik."
 
Nú þarf að byggja á þessum sigri en það er ekki auðvelt þar sem næsti leikur er gegn Chelsea á útivelli og Liverpool eru ekki vanir því að sækja stig þangað...
 
,,Nei, nei, við erum ekki vanir því.  Við höfum staðið okkur ágætlega þarna nokkrum sinnum en samt ekki fengið þau úrslit sem við hefðum átt skilið.  En nú er góður tími til að breyta því.  Að spila við lið eins og Chelsea getur kallað fram það besta í okkur, sérstaklega eftir sigur í síðasta leik.  Sjálfstraustið verður gott."
 
Fólk talar um ríg við Everton og Man Utd - en er rígurinn milli leikmanna Chelsea og Liverpool meiri nú vegna þess hversu oft liðin hafa mæst á undanförnum árum ?

,,Já alveg örugglega.  Það var mikill rígur þegar Mourinho var þarna, bæði á milli stjóranna og leikmannana, vegna þess að við höfðum mæst svo oft í deildinni og í Evrópu.  Við slógum þá útúr Evrópukeppninni tvisvar þannig að það er aukið keppnisskap í mönnum fyrir þennan leik eins og oft er þegar við spilum aðra stórleiki."
 
Enginn Mourinho í þetta sinn - muntu sakna hans ?
 
,,Hann var góður fyrir enskan fótbolta og margir sakna hans kannski.  Auðvitað er mikið af fólki utan Chelsea sem líkaði ekki vel við hann en hann var góður fyrir fótboltann, sérstaklega vegna titlanna sem hann var hér á landi."
 
Hver voru þín persónulegu tengsl við hann - talaðirðu einhverntímann við hann ?
 
,,Nei ég talaði aldrei við hann.  En miðað við það sem hann hefur áorkað þá er hann einn sá besti og maður verður að virða það.  Ég er viss um að hann muni snúa til baka sem knattspyrnustjóri einhversstaðar fljótlega."
 
Margir bjuggust við því að liðið ætti erfitt eftir að Jose fór en svo er ekki.  Hvað finnst þér um lið Avram´s Grant ?
 
,,Þeir hafa staðið sig vel undir hans stjórn, þetta eru auðvitað mikið til sömu leikmennirnir.  Ekkert hefur komið mér á óvart því eins og ég segi þá hefur leikmannahópurinn ekki breyst mikið.  Maður býst við því að þeir haldi áfram á sömu braut."
 
Er undirbúningurinn eitthvað öðruvísi í þetta skiptið - eða undirbúið þið ykkur undir leikinn alveg eins og þegar Mourinho var við stjórnvölinn ?
 
,,Kannski að starfsliðið hér hafi séð eitthvað öðruvísi.  Kannski spila þeir annað leikkerfi en þetta eru sömu leikmennirnir.  Við vitum hverju við megum búast við: þeir eru með góða leikmenn og þetta verður erfiður leikur."
 
Fyrr á tímabilinu fannst Rob Styles þú hafa brotið á Malouda og dæmdi vítaspyrnu.  Hvernig leið þér þegar þetta gerðist ?
 
,,Ég var steinhissa.  Ég var ekki viss um hvernig mér ætti að líða vegna þess að ég vissi að þetta var ekki víti.  Hann hafði augljóslega séð eitthvað, kannski eitthvað sem ég hafði ekki séð.  Með því að sjá þetta í endursýningu mátti sjá að þetta var augljóslega ekki víti.  Ég var alveg steinhissa þegar þetta gerðist."
 
Talaðirðu við hann eftir leik ?
 
,,Ég talaði við hann en ég hafði ekki séð endursýninguna.  Ég spurði hann af hverju hann dæmdi víti en hann svaraði mér í rauninni ekki.  Það er fyndið, vegna þess að hann var að dæma leikinn við Sunderland og ég gleymdi að spyrja hann aftur."
 
Voru Liverpool rændir sigri þennan dag ?
 
,,Frá sjónarhorni vítaspyrnunnar þá já.  Þetta var svekkjandi.  Við höfðum byrjað tímabilið vel og vorum fullir sjálfstrausts og hefðum komist á gott skrið ef við hefðum tekið þrjú stig.  Eftir allt, og ekki bara vegna vítaspyrnudómsins þá áttum við skilið að vinna þennan leik."
 
Jafnvel þó að þetta hafi verið jafntefli, myndir þú segja að þetta hafi verið ein besta frammistaða liðsins á tímabilinu ?
 
,,Já sennilega.  Við áttum nokkra góða leiki í byrjun og þetta var sennilega einn af þeim.  En þú veist, þegar maður spilar við svona lið aftur, þá verður maður að taka öll stigin."
 
Didier Drogba hefur oft reynst varnarmönnum Liverpool erfiður - hversu gott er það að hann er ekki með á sunnudaginn ?
 
,,Hann er augljóslega leikmaður sem þeir munu sakna.  Það er ágætt að sjá hann ekki í byrjunarliðinu vegna þess að hann er topp sóknarmaður.  En þeir hafa aðra toppleikmenn: einn góður leikmaður er ekki með en annar kemur bara inn í staðinn.  Hann verður annarskonar sóknarmaður en auðvitað þurfum við að passa hann vel."
 
John Terry er heldur ekki með - er þetta fullkominn tími til að mæta Chelsea ?
 
,,Kannski, en maður vill ekki vera að tala um svona hluti!  Þeir eru með leikmenn sem koma inn í staðinn og þeir hafa staðið sig vel að undanförnu.  Við gerum okkar besta til að ná góðum úrslitum."
 
Hvert einasta stig skiptir máli ef við ætlum að ná fjórða sætinu - hvaða lið heldur þú að komi til með að veita ykkur mestu keppnina um síðasta sætið í Meistaradeild Evrópu ?
 
,,Ég get nú ekki nefnt neitt eitt lið.  Liðin í kringum okkur, Everton, Man City og Villa eru öll góð.  Þau hafa öll staðið sig vel og geta komist á gott skrið.  Þetta veltur í raun bara á okkur sjálfum."
 
Hvað finnst þér um þitt eigið leikform á þessu tímabili ?
 
,,Það hefur verið ágætt.  Hefur í raun verið svolítið skrýtið: Ég hef átt í meiðslum og hef ekki haldið stöðu minni eins vel.  Það er skrýtið og þegar liðinu hefur gengið illa þá held ég að ég og nokkrir aðrir leikmenn höfum ekki sýnt eins mikinn stöðugleika og áður.  Heilt yfir þá hefur þetta verið í lagi, en ég hef alltaf sagt að ég get bætt mig á nokkrum sviðum og gert betur.  Vonandi tekst mér að halda mér heilum og spila eins og ég geri best."
 
Alvaro Arbeloa er í raun fyrsti leikmaðurinn sem hefur veitt þér harða samkeppni um hægri bakvarðarstöðuna - hvernig finnst þér samkeppnin ?
 
,,Samkeppnin er góð.  Það hafa komið hingað hægri bakverðir á undanförnum tímabilum en nú er samkeppnin góð.  Það þarf samkeppni í hverri stöðu hjá stóru félagi.  Það er hluti af því að vera hjá Liverpool.  Sérstaklega núna þegar stjórinn er mikið fyrir það að rótera mönnum: þá þarf leikmannahópurinn að vera stór."
 
Að lokum Steve, getur þú sagt okkur hvað liggur á bakvið þá ákvörðun þína að hætta að spila með írska landsliðinu ?
 
,,Eins og ég sagði fyrir nokkrum vikum þá fannst mér vera rétti tíminn til að hætta.  Ég hef notið þess að spila með Írlandi.  En mér fannst líklega rétt að gera þetta núna áður en nýr stjóri kæmi inn, þannig að hann hafi hugmynd um þá leikmenn sem hann geti valið úr fyrir næstu undankeppni."
 
Var hugsunin með þessu að lengja feril þinn hjá Liverpool ?
 
,,Í raun ekki.  Ef þetta hjálpar frammistöðu minni hjá félaginu þá er það frábært.  En þetta snerist í rauninni um að finna rétta tímann til að gera þetta.  Hugsunin var ekki sú að lengja feril minn hjá félaginu en ef það gerist þá er það gott."
 
Hvernig líkar þér svo fyrsta vikan þar sem landsliðsmennirnir eru ekki á svæðinu ?
 
,,Það er allt í lagi.  Það er svolítið skrýtið að sjá landsliðsmennina hittast.  En ég er meiddur lítillega þannig að ég hef verið inni undanfarna daga.  Ég hef ekki átt neitt frí.  Það verður svolítið skrýtið að sjá leikina í miðri viku og vera ekki að taka þátt í þeim."
 
Segðu okkur frá meiðslunum ?
 
,,Þetta eru bara nokkrir dagar, eitthvað sem tók sig upp um daginn.  Vonandi verð ég farinn að æfa eftir nokkra daga."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan