| Grétar Magnússon

,,Ég vel mitt sterkasta lið"

Rafa Benítez hefur oft þurft að útskýra og svara fyrir liðsval sitt í gegnum tíðina.  Hann segist auðvitað ætla að stilla upp sínu sterkasta liði gegn Luton á þriðjudagskvöldið.

Benítez neitar því að hann hafi stillt upp veiku liði gegn Luton um síðustu helgi og bendir á að í byrjunarliðinu hafi verið 10 landsliðsmenn.  M.a. mátti heyra enskan þul segja frá því að honum finndist Benítez sýna keppninni vanvirðingu með liðsuppstillingu sinni.  Þá er auðvitað ekki horft á það að lið eins og t.d. Everton hvíldi marga af sínum bestu leikmönnum gegn Oldham á heimavelli og töpuðu.  Ekki var minnst á það að David Moyes hefði sýnt FA Bikarnum óvirðingu með liðsuppstillingu sinni!

,,Það kom mér á óvart þegar fréttamaður spurði mig hvers vegna ég hefði ekki stillt upp mínu sterkasta liði gegn Luton," sagði Benítez, en Steven Gerrard var ekki með vegna meiðsla.

,,Við vorum með 10 landsliðsmenn í byrjunarliðinu en fréttamaðurinn talaði bara um Fernando Torres, þannig að ég held að hann viti ekki alveg nógu mikið um hópinn hjá okkur."

,,Við munum mæta í endurtekinn leik við Luton með sama hugarfari.  Ég mun nota sterkt lið aftur vegna þess að við viljum komast áfram í FA Bikarnum.  Þetta er frábær keppni og við viljum vinna hana aftur."

Liðið hefur ekki byrjað árið vel og gert þrjú jafntefli í röð og viðurkennir Benítez að frammistaðan gegn Luton hafi ekki verið nægilega góð.  Hinsvegar er stjórinn fullviss um að leikmenn sínir hristi af sér slenið og vinni sinn fyrsta sigur á árinu.

,,Frammistaðan var ekki nógu góð, það er ljóst.  Við vorum mjög vonsviknir eftir þennan leik en mörg lið í Úrvalsdeildinni náðu ekki einu sinni að knýja fram annan leik.  Við horfðum á myndbönd og við vissum að þetta yrði erfiður leikur vegna þess að þeir eru líkamlega sterkir og fyrir þá var þetta sem úrslitaleikur."

,,Þetta var tækifæri fyrir leikmenn þeirra að sýna sig og sanna.  Maður verður að hrósa þeim vegna þess að þeir spiluðu vel.  Kannski getum við lært af þessu og þetta verður allt öðruvísi á Anfield.  Við eigum annað tækifæri núna og ég hef mikla trú á liðinu.  Ég held að við vinnum vegna þess að við viljum komast áfram í keppninni."

Luton, sem eru í miklum fjárhagskröggum, hafa misst nokkra leikmenn síðan liðin mættust síðast og hafa leikmenn eins og David Edwards og Danny Coyne horfið á braut.  Kevin Blackwell, stjóri Luton, er ósáttur við stöðuna hjá félaginu hefur samið um að hætta með liðið í febrúar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan