| Grétar Magnússon

Gerrard varar liðsfélaga sína við

Steven Gerrard minnir liðsfélaga sína á að það þrátt fyrir að ýmislegt sé í gangi á bakvið tjöldin á Anfield þá er stórleikur gegn Porto í Meistaradeildinni annað kvöld.

Fyrirliðinn veit vel að hætta er á að leikmenn einbeiti sér ekki að leiknum vegna deilna á milli Rafa Benítez og eigendanna Tom Hicks og George Gillett.  Skv. heimildum ræddu þeir Rick Parry og Rafa Benítez saman í gær á góðum nótum en ekki er komin lausn á deiluna.

Þrátt fyrir þetta er Gerrard fullviss um að leikmenn félagsins muni sýna að þeir eru atvinnumenn þegar út á völlinn er komið og að þeir geti haldið áfram góðri spilamennsku gegn Porto.

Hann sagði:  ,,Það er mikilvægt að leikmennirnir haldi einbeitingu.  Við gerum okkur grein fyrir því að það er ýmislegt í gangi á bakvið tjölfin en við verðum einfaldlega að gleyma því."

,,Sem leikmenn erum við dæmdir eftir þeim úrslitum sem við náum þannig að það er mikilvægt að við séum ekki annars hugar út á vellinum og höldum áfram að vinna.  Leikurinn gegn Porto er mikilvægur þannig að við verðum að halda áfram að spila eins og við höfum gert í undanförnum leikjum eins og t.d. gegn Newcastle á St. James Park."

Gerrard viðurkennir að það hafi komið leikmönnunum gríðarlega á óvart að sjá Rafa Benítez í æfingagalla í leiknum gegn Newcastle en venjulega er hann klæddur í jakkaföt þegar liðið spilar.  Gerrard grínaðist þó með það að það væri kannski heillamerki ef Rafa væri í æfingagalla þegar liðið spilar.

,,Stjórinn er venjulega í jakkafötum, þetta var ekki líkt honum.  En hann má halda áfram að vera í æfingagalla í útileikjum ef við náum svipuðum úrslitum og gegn Newcastle."

Gerrard spilaði einn sinn besta leik á tímabilinu, skoraði glæsilegt mark og spilaði stóra rullu í hinum tveim mörkunum en hann gerir lítið úr frammistöðu sinni og beindi hrósinu frekar að Lucas, Brasilíumanninum unga.

,,Stjórinn hefur mikla trú á Lucas og það sama má segja um liðsfélaga hans.  Hann hefur gríðarlega hæfileika og hann verður bara að halda sér á jörðinni.  Hann var með góða leikmenn í kringum sig gegn Newcastle, svo sem Harry Kewell, Fernando Torres og Carra og Sami fyrir aftan hann.  Þeir hjálpuðu honum og töluðu við hann allan leikinn."

,,En hann stóð sig gríðarlega vel og þarf nú einfaldlega að byggja sjálfstraustið á þessari frammistöðu og halda ótrauður áfram."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan