| Sf. Gutt

Scott Carson gæti verið til sölu

Rafael Benítez, framkvæmdastjóri Liverpool, segir að það sé hugsanlegt að Scott Carson verði seldur. Hann er nú í láni hjá Aston Villa og þar á bæ hafa menn sýnt því áhuga að kaupa hann. Sögusagnir herma að forráðamenn Villa séu tilbúnir að borga allt að tíu milljónir sterlingspunda fyrir þennan ágæta markvörð. Rafael hafði þetta um málið að segja.

"Það má vel skilja að hann vilji spila meira. Hann veit að Pepe Reina er leikmaður í hæsta gæðaflokki og þess vegna verði erfitt að spila mikið hérna. Scott er góður atvinnumaður og fínasti drengur. Núna er mikilvægt skeið á ferli hans og hann þarf á því að halda að fá að spila. Sem stendur höfum við þá Pepe, Charles Itandje og David Martin í markvarðarstöðunum. Við erum því vel mannaðir hvað það varðar. Við erum núna að einbeita okkur að liðinu okkar og þeim keppnum sem við erum í. Villa getur ákveðið hvort þeir vilja halda leikmanninum áfram í sínum röðum."

Scott Carson kom til Liverpool í byrjun árs 2005. Hann hefur leikið níu leiki með Liverpool. Á síðustu leiktíð var Scott í láni hjá Charlton þar sem hann stóð sig með miklum sóma og var valinn Leikmaður árins. Scott hefur síðustu misseri verið valinn í landsliðshóp Englands en hefur þó ekki enn leikið með aðallandsliðinu.

Segja má að það gæti verið sterkur leikur fjárhagslega að selja Scott fyrir tíu milljónir punda en á hinn bóginn væri þá Liverpool að selja einn besta markvörð Englands sem gott væri að hafa til taks ef Jose Reina myndi forfallast.

 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan