Hrútarnir hýddir og Liverpool fór á toppinn!
Hrútarnir voru hýddir þegar þeir komu í heimsókn á Anfield Road í dag. Liverpool vann auðveldan sigur 6:0 og sigurinn hefði sannarlega getað verið stærri. Stórsigur Liverpool færði Rauða hernum efsta sætið í deildinni. Sú skemmtilega staða er nú uppi í fyrsta sinn í fimm ár segja fróðir menn!
Hrútarnir frá Derby náðu aldrei að sýna hornin og voru eins og nýfædd lömb í höndunum á leikmönnum Liverpool. Strax í upphafi leiks átti Daniel Agger hörkuskot frá af löngu færi sem Stephen Bywater gerði vel í að verja. Boltinn fór í varnarmann á leiðinni og markvarslan var enn betri fyrir það. Ekki löngu seinna átti Fernando Torres góðan skalla, eftir fyrirgjöf frá Jermaine Pennant, sem Stephen varði. Rétt á eftir komst Stephen Pearson í góða stöðu inn á teignum hjá Liverpool en hann skaut ekki heldur reyndi að senda boltann á félaga sinn. Daniel Agger komst inn í sendinguna og hættan leið hjá. Liverpool komst yfir á 27. mínútu. Xabi Alonso tók þá aukaspyrnu vinstra megin á miðjum vallarhelmingi Derby um 40 metra frá marki. Xabi sendi boltann inn á teiginn. Hann sveif framhjá öllum, datt í jörðina og fór þaðan í markið. Enn eitt markið sem Xabi skorar af óralöngu færi. Í þetta sinn ætlaði hann þó tæplega að skora en niðurstaðan var á besta veg. Liverpool sótti mjög í kjölfarið og Dirk Kuyt fór illa að ráði sínu með stuttu millibili. Jermaine Pennant lagði bæði færin upp eftir frábærar rispur. Fyrst skallaði Dirk yfir og svo skaut hann yfir úr mjög góðu færi. Varnarmenn Derby réðu ekkert við Jermaine á löngum köflum í fyrri hálfleiknum. Allt leit út fyrir að Liverpool hefði bara eitt mark í forystu í hálfleik. Það rættist þó úr þeirri stöðu á lokamínútu hálfleiksins. Alvaro Arbeloa sendi þá boltann út í teiginn á Ryan Babel. Hollendingurinn fékk boltann og lék snilldarlega á þá Andy Griffin og Claude Davis með einni gabbhreyfingu. Hann smellti svo boltanum í markið úti við stöng vinstra megin með föstu skoti. Glæsilegt mark hjá Ryan sem þarna opnaði markareikning sinn fyrir Liverpool!
Liverpool hóf síðari hálfleikinn með stórsókn og Xabi Alonso hefði átt að skora úr opnu færi við markteiginn en hann hitti ekki markið. Hrútarnir fengu þar bara gálgafrest því Fernando Torres skoraði þriðja markið á 56. mínútu. Javier Mascherano náði þá boltanum af varnarmanni Derby með magnaðri tæklingu. Fernando tók boltann og lék framhjá varnarmanni áður en hann skoraði með öruggu skoti fyrir framan The Kop. Fjórða markið kom á 69. mínútu. Rayn Babel sendi fyrir markið frá vinstri. Yossi Benayoun, sem kom inn sem varamaður skömmu áður, fékk boltann í góðu færi en varnarmaður tæklaði hann og kom boltanum frá. Boltinn fór þó ekki langt og Xabi stýrði honum í markið með hárnákvæmu skoti frá vítateig. Nú var komið efni í stórsigur og hann varð. Andriy Voronin kom inn sem varamaður á 73. mínútu. Úkraínumaðurinn var ekki lengi að láta að sér kveða. Þremur mínútum eftir að hann kom inn á var hann búinn að skora. Dirk komst inn að markinu vinstra megin. Hann þrumaði að marki úr þröngu færi. Stephen varði en missti boltann út í teiginn. Þar var Andriy mættur og ýtti boltanum yfir marklínuna af stuttu færi. Hrútarnir vissu nú ekki hvort þeir væru að koma eða fara. Ekki liðu nema tvær mínútur þar til sjötta markið kom. Andriy sendi þá háa sendingu fram að vítateignum. Andy Todd ætlaði að koma boltanum aftur á markvörðinn. Fernando var vel vakandi og komst inn í sendinguna eins og hrægammur. Spánverjinn lék svo auðveldlega á markvörðinn og renndi boltanum í autt markið! Gestirnir fengu besta færið það sem eftir lifði leiks en Craig Fagan hitti boltann illa í dauðafæri. Fleiri urðu mörkin ekki og Hrútarnir voru líklega lifandi fegnir þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Stórsigur Liverpool var í höfn og það sem meira var fyrsta sætið líka! Magnað dagsverk hjá Rauða hernum!
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Arbeloa, Pennant (Benayoun 61. mín.), Mascherano (Sissoko 77. mín.), Alonso, Babel (Voronin 73. mín.), Torres og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje og Riise.
Mörk Liverpool: Xabi Alonso (27. og 69. mín.), Ryan Babel (45. mín.), Fernando Torres (56 og 78. mín.) og Andriy Voronin 76. mín.).
Derby County: Bywater, Griffin (Moore 80. mín.), Malcolm (Teale 59. mín.), Davis, Camara (McEveley 63. mín.), Todd, Fagan, Oakley, Mears, Pearson og Howard. Ónotaðir varamenn: Price og Earnshaw.
Gult spjald: Andy Griffin.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.076.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Það voru margir tilkallaðir í þessum leik að fá þessa nafnbót. Spánverjinn skorar ekki mörk á hverjum degi. Nú skoraði hann tvö og það fyrra lagði línurnar fyrir stórsigurinn. Fyrir utan mörkin þá spilaði Xabi frábærlega á miðjunni og stjórnaði öllu þar.
Álit Rafael Benítez: Þetta var næstum því fullkomin leikur hjá okkur. Við misnotuðum mörg marktækifæri í fyrri hálfleik og það var ekki fyrr en eftir þriðja markið sem úrslitin voru ráðin. Ég er mjög ánægður með að liðið sé á toppnum. Það var gaman að skora sex mörk en það er löng leið framundan."
-
| Sf. Gutt
Skaut 50 metra yfir en nú kom það! -
| Sf. Gutt
Öruggur sigur! -
| Sf. Gutt
Glæsilegur sigur á Þýskalandsmeisturunum! -
| Sf. Gutt
Frábært að koma til Liverpool! -
| Sf. Gutt
Mohamed Salah þokast upp markalistann! -
| Sf. Gutt
Sterkur sigur! -
| Sf. Gutt
Ég er sallarólegur! -
| Sf. Gutt
Vilja vinna allar keppnir! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum