| Ólafur Haukur Tómasson

Steve Finnan framlengir samning sinn

Írski bakvörðurinn Steve Finnan verður verðlaunaður fyrir mjög góða frammistöðu undanfarin tímabil og fær framlengdan samning við Liverpool. Hann er nú þegar búinn að samþykkja samningstilboð Liverpool en mun ekki skrifa undir hann fyrr en liðið snýr aftur heim frá Hong Kong.

Steve Finnan hefur verið lykilmaður í liði Liverpool í mörg ár og sannað sig sem einn af betri hægri bakvörðum ensku Úrvalsdeildarinnar. Liverpool borgaði 3.5 milljónir punda fyrir hann árið 2003 þegar hann gekk til liðs við liðið frá Fulham. Hann hefur leikið 182 leiki fyrir Liverpool á fjórum tímabilum og skorað eitt mark.

Núverandi samningur hans við Liverpool rennur út næsta sumar en eins og áður segir þá mun hann skrifa undir nýjan samning sem mun halda honum á Anfield í að minnsta kosti þrjú tímabil í viðbót.

Finnan hefur verið einn af allra bestu leikmönnum Liverpool liðsins undanfarin leiktímabil og hefur frammistaða hans þótt afar stöðug og góð. Með þessum stöðugleika hefur hann náð að eigna sér hægri bakvarðarstöðu liðsins og hafa margir reynt að etja kappi við hann en enginn hefur náð að slá hann út enn sem komið er.

Benítez var hæstánægður með að Finnan skyldi framlengja: "Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur. Eins og ég hef oft áður sagt þá erum við að undirbúa okkur fyrir framtíðina og við viljum að Finnan verði hluti af henni. Hann er einn af þeim leikmönnum sem myndar kjarnann í liðinu og það að hann skuli framlengja er mjög gott, ekki bara fyrir nútíðina heldur einnig framtíðina.

Hann er frábær leikmaður sem spilar ávallt eftir getu. Hann spilar alltaf mjög vel. Það er ekki oft sem að þú sérð hann eiga lélegan leik. Hann er leikmaður sem að maður getur alltaf treyst á og í sanngirni sagt þá hefur hann verið það alveg frá því að ég tók við liðinu.

Alveg frá því að vera með honum á fyrstu æfingunni sá maður hversu snjall leikmaður hann er og frammistaða hans í gegnum þessi þrjú tímabil hefur alls ekki komið mér á óvart. Frá fyrsta degi var hann tilbúinn í að læra og sýndi hugmyndum okkar mikla virðingu. Ég vissi alltaf að hann myndi reynast okkur góður leikmaður.

Hann er einn af reyndari leikmönnum liðsins en ég reikna með að hann muni bæta sig með aldrinum vegna þess að þá getur hann lesið leikinn á fleiri vegu og það er mjög jákvætt."

Steve fetar nú í fótspor þeirra Steven Gerrard, Xabi Alonso, Mohamed Sissoko, Jamie Carragher og Jose Reina sem framlengdu allir samninga sína við Liverpool í sumar.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan