| Sf. Gutt

Varaliðið vann mikilvægan sigur

Varalið Liverpool vann góðan sigur 1:0 á Bolton Wanderes í kvöld. Leikið var á heimavelli Liverpool í Wrexham. Spænski unglingalandsliðsmaðurinn Francisco Duran lék sinn fyrsta leik með Liverpool. Hann lék aftarlega á miðjunni og þótti traustur í þeirri stöðu. Hinn efnilegi Paul Anderson, sem lofaði svo góðu á síðustu leiktíð, skoraði eina markið. Hann hefur átt erfitt uppdráttar á þessari leiktíð. Það var því virkilega gott að hann skyldi komast í gang.

Liverpool byrjaði leikinn vel og hefði getað skorað tvívegis á fyrstu þremur mínútunum. Í bæði skiptin var það Paul Anderson sem ógnaði markinu. Góð skot hans hittu þó ekki á markið. Liverpool var sterkari aðilinn frá byrjun en gestirnir ógnuðu þó af og til. Liverpool fékk mjög gott færi eftir tæplega hálftíma. Francisco Duran lék þá upp að vítateig. Hann sendi á Craig Lindfield sem kom boltanum fyrir markið. Nabil El Zhar náði þó ekki til boltans í góðu færi. Sigurmarkið kom á 62. mínútu. Boltinn kom fyrir markið frá hægri og Paul Anderson afgreiddi sendinguna upp í þaknetið með góðu skoti. Þetta mark dugði til mikilvægs sigurs. 

Liverpool: Martin, Darby, Insua, Roque, Paletta, Peltier, Duran (Brouwer 62. mín.), Guthrie, Lindfield, El Zhar og Anderson. Ónotaðir varamenn: Roberts, Threlfall, Antwi og Hobbs.

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Paul Anderson. Lék aftur eins og hann best getur og afgreiddi markið sitt virkilega vel.

Sem fyrr segir var sigur Liverpool mikilvægur því varaliðið hefur verið óþægilega nærri botni deildarinnar. Síðast þegar ég sá stöðuna í deildinni var liðið í næst neðsta sæti.  

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan