| Sf. Gutt

Örlögin tóku í taumana!

John Arne Riise telur að örlögin hafi hagað því svo að hann og Craig Bellamy skyldu báðir skora í hinum magnaða sigri Liverpool gegn Barcelona í gærkvöldi.

“Örlögin höguðu því þannig að bæði Craig og ég skyldum skora. Ég og Craig áttum erfitt í aðdraganda leiksins en við settum allt til hliðar þegar mest á reið. Núna ætlum við að njóta þessarar stundar.

Við létum þetta atvik snemma til hliðar og lögðum hart að okkur fyrir liðið. Nú höldum við okkar striki."

Ýmsir fjölmiðlar gerðu mikið úr ósætti sem átti að hafa orðið milli þeirra John Arne og Craig í Portúgal. Þeim átti að hafa sinnast fyrir framan liðsfélaga sína og stór orð féllu. Craig var svo sagður hafa sótt John Arne heim, á herbergi Norðmannsins, til að ræða við hann um það sem þeirra fór á milli fyrr um kvöldið. Mun Veilsverjinn hafa haft golfkylfu með sér í þeirri ferð. Líklega hefði þó hvorugur þeirra leikið á Nou Camp í gærkvöldi ef villtustu frásagnir sumra fjölmiðla af samskiptum þeirra félaga hefðu haft við einhver rök að styðjast. Fagn Craig Bellamy, þegar hann tók golfsveifluna, stakk endanlega upp í þá fjölmiðla sem höfðu farið geyst í umfjöllun um málið. En hvað fannst John Arne um fagnið?

"Fagnið hans fór ekkert í taugarnar á mér. Sjáum nú til. Hann hefur líka átt erfitt og ég sá að þetta var honum mikils virði. Ég virkilega gleðst yfir því að hann skyldi skora og allt liðið gerir það líka."

Flestir stuðningsmenn Liverpool þurftu að sjá markið hans John Arne Riise margendurtekið til að trúa því að Norðmaðurinn hefði vikrilega skorað með hægri fæti. Það var ekki að undra því markið var sögulegt eins og John Arne staðfesti eftir leikinn.

"Hvað markið mitt varðar þá held ég að ég hafi aldrei áður skorað með hægri fætinum mínum. Ég gerði þetta bara ósjálfrátt. Ég hefði getað lagt boltann fyrir mig á vinstri fótinn en um leið og ég fékk boltann frá Craig Bellamy hugsaði ég bara með mér að negla hann."

Sem fyrr segir er næsta víst að hvorugur markaskorarinn hefði leikið í gærkvöldi ef frásagnir af stjórnlausum átökum þeirra í Portúgal hefðu haft við einhver rök að styðjast. Vissulega lenti þeim eitthvað saman en frásagnir af viðskiptum þeirra voru víða stórlega ýktar. Hér hittir Craig Bellamy naglann á höfuðið eða kannski golfboltann!

"Við vitum allir hversu strangur framkvæmdastjórinn er. Ef eitthvað stórvægilegt hefði átt sér stað væri ég ekki hérna núna."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan