| Sf. Gutt

Evrópumeistararnir lagðir á Nývangi!

Liverpool vann einn magnaðasta útisigur í Evrópusögu sinni þegar liðið lagði Evrópumeistara Barcelona 2:1 að velli á Nývangi í kvöld. "Golffélagarnir", Craig Bellamy og John Arne Riise sáu um mörkin! Ekki nóg með það heldur sneri liðið tapstöðu í sigur. Ef það var ekki nóg þá skoraði John Arne sigurmarkið með hægri fæti! Liverpool er nú í gríðarlega góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna á Anfield Road. Ekki má þó afskrifa Evrópumeistarana en sigurinn í kvöld var með þeim mögnuðustu.

Liverpool byrjaði leikinn vel og nokkrar sóknir lofuðu góðu en það voru Evrópumeistararnir sem skoruðu fyrst. Á 14. mínútu komst Gianluca Zambrotta framhjá Steven Gerrard á vinstri kantinum og sendi fyrir þar sem Deco skallaði óvaldaður í mark við fjærstöngina. Leikmenn Barcelona höfðu nú meðbyr og næstu mínútur voru vörn Liverpool erfiðar. Deco fékk besta færið en hann skaut í hliðarnetið. Undir lok hálfleiksins réttu leikmenn Liverpool úr kútnum. Um sjö mínútum fyrir hálfleik átti Craig Bellamy skalla í hliðarnetið, úr góðu færi, eftir fyrirgjöf frá Steven. Veilsverjanum urðu ekki á nein mistök á 43. mínútu. Steve Finnan sendi þá inn á teiginn frá hægri. Craig henti sér fram við fjærstöngina og skallaði að marki. Boltinn fór beint á Victor Valdes markvörð Barcelona en hann náði ekki að halda boltanum fyrir utan marklínuna og ýtti honum til baka yfir marklínuna. Dirk Kuyt fylgdi á eftir að sendi boltann í markið en Craig átti markið! Hann fagnaði því skiljanlega vel og innilega. Þegar félagar hans voru farnir frá honum tók hann mikla og góða golfsveiflu! Frábært!

Heimamenn voru mjög stekir framan af síðari hálfleik en þrátt fyrir mikla sókn þeirra þá náðu þeir ekki að klekkja á vörn Liverpool sem var nú búin að ná áttum. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir fékk Liverpool gott færi á að komast yfir. Victor Valdes tók þá boltann með höndum eftir að einn liðsfélagi hans sendi boltann aftur. Dómarinn dæmdi auðvitað aukaspyrnu innan teigs. Aukaspyrnan var send stutt á Steven sem kom skoti í gegnum varnarvegginn en Victor náði að verja með fótunum. Í framhaldinu skallaði Dirk Kuyt yfir úr dauðafæri. Barcelona fékk gott færi hinu megin en Jose varði vel frá Saviola. Messi náði frákastinu en Alvaro Arbeloa komst fyrir skot hans. Á 74. mínútu kom sigurmarkið. Steven sendi inn á Dirk sem komst í gott færi inn á teiginn. Victor náði að verja með úthlaupi. Varnarmaður náði ekki að koma boltanum frá. Craig náði honum og sendi hann fyrir rmarkið á John Arne Riise sem hamraði hann í markið og það með hægri fæti! Frábær samvinna hjá þeim félögum! Barcelona sótti undir lokin. Jose missti af fyrirgjöf en sem betur fer náði enginn Börsungur boltanum. Hurð skall svo enn nærri hælum þegar Deco tók aukaspyrnu frá vinstri. Hann sendi boltann að marki með miklum snúningi en sem betur fer hafnaði boltann í stönginni. Liverpool náði því að landa mögnuðum sigri á Nou Camp og það eru ekki mörg lið sem geta státað af slíku!

Barcelona: Valdes, Belletti, Marquez, Puyol, Zambrotta, Xavi (Giuly 65. mín.), Motta (Iniesta 54. mín.), Deco, Messi, Saviola (Guðjohnsen 82. mín.), Ronaldinho. Ónotaðir varamenn: Jorquera, Van Bronckhorst, Thuram og Oleguer.

Mark Barcelona: Deco (14. mín.).

Gul spjöld: Belletti og Zambrotta.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Riise, Finnan, Sissoko (Zenden 84. mín.), Alonso, Gerrard, Bellamy (Pennant 80. mín.) og Kuyt (Crouch 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hyypia, Gonzalez og Mascherano.

Mörk Liverpool: Craig Bellamy (43. mín.) og John Arne Riise (74. mín.).

Gul spjöld: Daniel Agger, Dirk Kuyt, Mohamed Sissoko og Craig Bellamy.

Áhorfendur á Nou Camp: 88.000.

Maður leiksins: Craig Bellamy. Veilsverjinn er búinn að fá að heyra það síðustu dagana eftir uppnámið í Portúgal. Líklega hafa margir verið búnir að afskrifa hann. En drengurinn svaraði sannarlega fyrir sig í kvöld. Hann skoraði jöfnunarmarkið og lagði svo upp sigurmarkið fyrir hvern annan en John Arne Riise! Ekki má svo gleyma því hvernig hann fagnaði markinu sínu! Ævintýralegt kvöld hjá Craig Bellamy!

Rafael Benítez, sem aldrei hefur tapað sem liðsstjórnandi á Nou Camp, var auðvitað ánægður með strákana sína. "Ég sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að það væri mjög góður andi á meðal strákanna. Það sást vel því þeir lögðu hart að sér fyrir liðið, félagið og stuðningsmennina. Mér fannst virkilega gaman að þeir Craig Bellamy og John Arne skyldu skora þessi mörk og ég er líka ánægður fyrir hönd liðsins. En þegar upp er staðið þurfum við að spila annan leik. Ég vil ekki slá því föstu að allt sé búið. Við þurfum að fara varlega og muna að hugsa líka fyrir næsta leik."

Þetta var fjórða heimsókn Liverpool á Nou Camp og enn hefur Liverpool ekki tapað leik þar. Tveir sigrar og tvö jafntefli er uppskeran úr þessum heimsóknum. Í öll skiptin hefur Liverpool leikið í hvítum búningum! Þurfi Liverpool aftur að leika þar er ljóst að það þarf að hafa hvíta búninga með!


 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan