| Sf. Gutt

Darren Potter fer sáttur

Darren Potter yfirgaf Liverpool á dögunum og gerði samning við Úlfana. Darren ólst upp hjá Liverpool og náði að leika seytján leiki með aðalliði félagsins. Þrátt fyrir að ná ekki að festa sig í sessi hjá uppeldisfélaginu sínu segist hann yfirgefa það sáttur.

"Ég hefði viljað vera hjá Liverpool næstu 10 til 15 árin en maður verður að vera raunsær. Ég var þar í sex ár og fékk takmörkuð tækifæri en það var vegna þess hversu góðir leikmenn voru þar fyrir. Ég sá svo hlutina í réttu ljósi og sagði við sjálfan mig að ég myndi ekki ná að festa mig í sessi.

Ég verð 23 ára á þessu ári og þarf á því að halda að spila leiki. Ég gæti hafa beðið allan minn feril hjá Liverpool í von um að fá tækifæri. En ég áttaði mig smá saman á því að það myndi ekki ganga. Ég kom við sögu í nokkrum mikilvægum Evrópuleikjum og hugsaði með mér að þetta væri frábært og allt þokaðist í rétta átt. En svo í næstu viku var ég ekki inni í myndinni. Í Úrvalsdeildinni verður maður að halda sér í hópi þeirra 16 til 18 leikmanna sem eru í aðalliðinu í hverri einustu viku. En maður þurfti bara að horfa í kringum sig í búningsherberginu. Það hefði einfaldlega verið gríðarlega erfitt fyrir mig að ná sætum af leikmönnum á borð við Steven Gerrard, Xabi Alonso og Mohamed Sissoko.

Allir heimaöldu leikmennirnir sem hafa yfirgefið félagið munu hafa þá sögu að segja að þeir hafi fengið að spreyta sig. Rafael Benítez veitti okkur öllum tækifæri. Ég sé ekki eftir neinu. Ég fékk gott knattspyrnuuppeldi í akademíunni hjá Steve Heighway. Við höfum allir verið aldir upp við Liverpool aðferðina og við vitum að hún er sú rétta."

Margir hafa gagnrýnt það að Liverpool hafi látið unga leikmenn á borð við John Welsh, Neil Mellor, Darren Potter og Stephen Warnock yfirgefa félagið. Þessir sömu telja að þessir strákar hafi ekki fengið sanngjörn tækifæri og vilja meina að þeir hafi getað spilað meira með aðalliði Liverpool. En eftir því sem Darren Potter segir hér þá hafa menn fengið sín tækifæri. Mat forráðamanna Liverpool er einfaldlega það að þessir strákar hafi ekki verið nógu góðir til að festa sig í sessi í aðalliðinu til lengdar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan