| Grétar Magnússon

Verður að taka hluta af sökinni á sig

Jerzy Dudek segir að Rafael Benitez verði að taka hluta af sökinni á tapinu gegn Arsenal á sig.  Hann segir að róteringakerfi Benitez sé einfaldlega ekki að virka.

Jerzy Dudek er þar með fyrsti leikmaðurinn sem gagnrýnir Benitez opinberlega.  Hann segir að hann hafi verið óundirbúinn fyrir leikina gegn Arsenal þar sem hann spilaði síðast alvöru leik fyrir félagið í febrúar á síðasta ári, en það var einmitt gegn Arsenal.

,,Ég er eyðilagður," sagði Pólverjinn.  ,,Ég hef aldrei spilað svona leik áður.  Næstum hvert einasta skot fór inn.  Kannski, þegar ég var ungur, mjög ungur leikmaður, þá fékk ég sex mörk á mig.  Ég man ekki eftir að hafa fengið svona mörg mörk á mig á atvinnumannaferli mínum."

,,Ég leit í raun aldrei á þessa leiki sem stórt tækifæri fyrir mig.  Ég vissi að ég myndi spila í þessum keppnum, stjórinn sagði mér það.  Ég vildi bara grípa tækifærið og ná að byggja upp smá sjálfstraust, en það er erfitt."

,,Síðasta skiptið sem ég spilaði á Anfield var í febrúar gegn Arsenal í leik sem við unnum 1-0 í deildinni.  Eftir sjö mánuði, eða meira, verður maður hreinlega að spila annan leik gegn toppliði eins og Arsenal."

,,Sem markmaður getur maður notað reynsluna, en það er ekki hægt að byggja upp sjálfstraust á æfingum.  Það er mjög, mjög erfitt.  Þetta er skrýtið vegna þess að við fáum varla á okkur mark á Anfield og í tveimur leikjum fengum við á okkur níu mörk."

,,Þetta er líka skrýtið fyrir mig vegna þess að ég spila ekki reglulega og var að vonast til að fá eitthvað útúr þessum leikjum.  Hver einasti leikmaður þarf að spila reglulega.  Það er ekki hægt að byggja upp sjálfstraust og góða tilfinningu á æfingum."

Jerzy Dudek hefur spilað fjóra leiki fyrir Liverpool á þessu tímabili og fengið á sig tólf mörk.  Það er þriðjungur þeirra marka sem félagið hefur fengið á sig í þeim 35 leikjum sem spilaðir hafa verið á þessu tímabili í öllum keppnum.

Samningur Pólverjans rennur út í lok tímabilsins og hann hefur nær örugglega spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.  Daniel Padelli, 21 árs markmaður frá Sampdoria hefur verið fenginn á láni út tímabilið með möguleika á að ganga til liðs við félagið ef vilji er fyrir hendi.  Padelli er talinn vera mikið efni og hefur verið á láni hjá Crotone sem spila í Serie B.  Umboðsmaður leikmannsins sagði í gær:  ,,Padelli mun fara til Liverpool.  Félögin hafa samþykkt á milli sín sex mánaða lánssamning og leikmaðurinn er spenntur fyrir því að spila fyrir hönd Liverpool."

Jerzy hafði þetta að segja að lokum:  ,,Ég býst ekki við neinu núna.  Stjórinn hafði keypt markmann fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni og staðan var nokkuð ljós fyrir mig.  Það er erfitt fyrir markmann eins og mig að vera númer tvö og þurfa að bíða í nokkra mánuði eftir tækifærinu.  Ég þarf ekki á þessari reynslu að halda að sitja á bekknum og horfa á leiki."

,,Ég er mjög ánægður í einkalífinu, en sem fótboltamaður er það mjög erfitt fyrir mig að spila ekki leiki.  Ef maður spilar einn leik annan hvern mánuð þá er mjög mjög erfitt að sýna hvað í manni býr."

Pólverjinn er hinsvegar fullviss um að töpin tvö muni ekki hafa áhrif á Úrvalsdeildarformið:  ,,Þetta var breytt Arsenal lið frá því á laugardaginn var, en okkar lið var einnig breytt.  Þetta var mjög skrýtinn leikur.  Þeir voru með mjög hæfileikaríka unga leikmenn.  Við vissum það og nokkrir ungir leikmenn hjá okkur fengu tækifæri til að sýna sig.  Við skulum taka þessu eins og kaldri sturtu.  Núna þurfum við að leika eftir bestu getu í deildinni og Meistaradeildinni."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan