| Grétar Magnússon

Rafa býst við ekta bikarleik

Rafael Benitez býst við því að leikurinn gegn Arsenal á morgun verði ekta bikarleikur og er aðalástæðan fyrir því sú að bæði lið mega illa við því að gera jafntefli því þá verði að spila annan leik til að úrskurða um það hvort liðið komist í 4. umferð keppninnar.

Bæði lið munu líklegast leggja mikla áherslu á að vinna leikinn til að forðast aukaleik og sóknarleikur verður í hávegum hafður.  Liðin mætast svo aftur á þriðjudagskvöldið í Deildarbikarnum og eiga bæði mikilvæga leiki í deildinni framundan í janúar.

Ef jafntefli verður niðurstaðan á laugardaginn er búið að setja dagsetninguna 17. janúar á aukaleikinn sem verður þá leikinn á Emirates vellinum, heimavelli Arsenal.  Sú dagsetning er hinsvegar mjög slæm fyrir það lið sem kemst áfram í Deildarbikarnum.

Benitez sagði:  ,,Ég held að jafntefli yrðu slæm úrslit fyrir bæði lið, en þó kannski aðeins verri fyrir okkur vegna þess að við viljum nýta okkur það að vera á heimavelli".

,,Það verður mjög erfitt að finna lausar dagsetningar á dagatalinu ef við eigum að leika enn einn bikarleikinn.  Þetta verður sennilega til þess að bæði lið munu leggja ofuráherslu á að vinna leikinn á morgun.  Ég býst ekki við því að þetta verði leikur þar sem annað liðið er að spila uppá jafntefli."

Eftir sigur í bikarkeppninni í maí síðastliðnum vilja leikmenn að sjálfsögðu verja titilinn og mun Benitez stilla upp sínu sterkasta liði á laugardaginn og gera svo einhverjar breytingar fyrir leikinn í Deildarbikarnum.

,,Það er nokkuð ljóst að FA Bikarinn er mikilvægari keppni heldur en Deildarbikarinn," sagði Benitez.

,,Ég mun ekki segja hvernig ég stilli upp liðinu, en menn vita að við tökum þessari keppni mjög alvarlega og við viljum gera okkar besta eins og á síðasta tímabili.  Ég er nokkuð viss um að Arsenal séu að hugsa eins, lið þeirra verður öðruvísi upp stillt á þriðjudaginn."

Af meiðslamálum er það að frétta að Bolo Zenden og Momo Sissoko hafa hafið æfingar að nýju.

,,Þeir eru komnir til æfinga en eru ekki farnir að snerta bolta ennþá," sagði Benitez.  ,,Bolo gæti verið kominn til baka eftir tvær til þrjár vikur og Momo kannski eftir mánuð.  Endurkoma þeirra verður mikilvæg fyrir seinni hluta tímabilsins."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan