| Sf. Gutt

Uppi í fjórða sætið eftir stórsigur

Liverpool vann fyrsta sigur sinn á aðventunni. Liðið lék mjög vel og vann stórsigur 4:0 á Fulham á Anfield Road í dag. Með sigrinum komst liðið upp í fjórða sæti deildarinnar. Bikarmeistararnir og Skjaldarhafarnir hafa ekki komist ofar í deildinni á þessari leiktíð. Öll mörkin komu fyrir framan The Kop!

Liverpool tók strax völdin gegn Fulham og eftir fimm mínútur náði varnarmaður gestanna að bjarga við marklínuna eftir að Luis Garcia hafði gerst ágengur. Þrátt fyrir yfirburði Liverpool í leiknum börðust leikmenn Fulham vel og Jose Reina varð að vera á varðbergi þegar hann varði gott skot frá Bandaríkjamanninum Brian McBride í horn. Vörn Fulham var sterk og leikmönnum Liverpool gekk illa að skapa sér góð færi. Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem Xabi Alonso átti gott skot utan teigs sem Tékkinn Jan Lastuvka varði vel. Liverpool hefði þó getað fegnið tvær vítaspyrnur í hálfleiknum. Í bæði skiptin var það Dirk Kuyt sem herjaði á mark Fulham. Fyrst átti hann skalla sem fór í hendi varnarmanns og síðar fór skot hans líka í hendi innan vítateigs. Í bæði skiptin hefði verið hægt að dæma vítaspyrnu því marktilraunir Hollendingsins stefndu á markið.

Í síðari hálfleik sótti Liverpool að The Kop og þá, eins og svo oft áður, fóru hlutirnir að ganga. Allt er þegar þrennt er og í þriðja sinnið sem Dirk skaut í hendi varnarmanns var loks dæmd vítaspyrna. Ian Pearce henti sér sér fyrir skot Dirk og varði með hendi eða jafnvel höndum. Þetta var á 54. mínútu. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna. Hann skaut föstu skoti vinstra megin við Jan en Tékkinn gerði sér lítið fyrir og varði. Hann hélt ekki boltanum. Steven var vel vakandi, tók frákastið og skilaði boltanum í markið. Um þetta leyti fór að rigna í Liverpool og það stóð heima að mörkunum fór nú að rigna á Anfield Road. Á 61. mínútu lék Steven sig í góða skotstöðu og skaut að marki utan teigs en Jan varði í horn. Steven tók hornspyrnuna, Daniel Agger stökk hæst í teignum og skallaði boltann yfir á fjærstöng. Þar renndi Jamie Carragher sér á boltann og skoraði af stuttu færi. Markinu var sérlega vel fagnað af stuðningsmönnum Liverpool og ekki síður hjá leikmönnum liðsins enda ekki á hverjum degi sem Carra skorar. Reyndar var þetta fyrsta deildarmark hans á þessari öld! Fimm mínútum síðar lá boltinn enn í marki Fulham. Daniel fékk boltann úti á vinstri kanti. Hann sendi boltann inn á teiginn. Luis Garcia stökk þar upp einn og óvaldaður og skallaði að marki. Spánverjinn stýrði boltanum í fjærhornið yfir markvörð Fulham, í þverslána og af henni datt boltinn inn í markið. Stórglæsilegur skalli hjá Luis sem þarna skoraði enn eitt glæsimark sitt fyrir Liverpool. Mark Gonzalez kom inn sem varamaður átján mínútum fyrir leikslok í sinn fyrsta leik eftir meiðsli. Fimm mínútum seinna kom Peter Crouch inn fyrir Craig Bellamy sem var búinn að vera sprækur. Yfirburðir Liverpool voru nú algerir og leikmenn spiluðu boltanum fram og aftur. Sex mínútum fyrir leikslok kom þó loks marktilraun frá Fulham en Jose Reina skutlaði sér og varði langskot frá Michael Brown með tilþrifum. Litlu síðar var varið hinu megin frá Steven. Á síðustu mínútu leiksins var Robbie Fowler felldur rétt utan vítateigs. Robbie lék síðustu tíu mínúturnar og átti góða spretti. Ian Pearce varnarmaður Fulham meiddist þegar hann braut á Robbie og varð að skipta honum út af. Við þetta urðu nokkrar tafir. En Mark Gonzalez notaði tímann til að miða fyrirhugað skot sitt út. Að minnsta kosti spyrnti hann boltanum úr aukaspyrnunni yfir varnarvegginn og neðst í vinstra hornið. Frábært skot hjá Chílemanninum. Þarna var smiðshöggið rekið á stórsigur Liverpool. Liðið lék mjög vel í síðari hálfleik og það er greinilegt að sjálfstraust leikmanna fer nú hraðvaxandi.  

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Agger, Riise, Pennant, Alonso, Gerrard, Garcia (Fowler 80), Bellamy (Crouch 77) og Kuyt (Gonzalez 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hyypia.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard (54. mín.) Jamie Carragher (61. mín.), Sanz Luis Garcia (66. mín.) og Mark Gonzalez (90. mín.).

Gult spjald: Jermaine Pennant.

Fulham: Lastuvka, Volz, Knight, Pearce (Helguson 90. mín.), Rosenior, Radzinski, Brown, Diop (Christanval 49. mín.), Claus Jensen, Boa Morte, McBride (John 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Batista og Routledge.

Gult spjald: Ian Pearce.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.189.

Maður leiksins: Jamie Carragher. Margir leikemenn Liverpool léku mjög vel í leiknum en Carra verður fyrir valinu. Það er ekki svo oft sem hann skorar en fyrir utan sjaldgæft mark þá lék hann mjög vel eins og hann gerir jafnan.

Rafael Benítez var mjög ánægður með sína menn. "Það var gott að skora fjögur mörk og halda markinu enn aftur hreinu. Þetta var skemmtilegur leikur fyrir stuðningsmennina að horfa á. Við stjórnuðum gangi mála í fyrri hálfleik en við gátum bara ekki skorað. Í hálfleik sagði ég strákunum mínum að halda sínu striki því við myndum skora. Um leið og við skoruðum fyrsta markið varð allt auðveldara fyrir okkar. Við gátum þá haldið áfram að sækja og reyna að skora fleiri mörk. 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan