| Grétar Magnússon

Zenden sáttur við miðjuhlutverk

Boudewijn Zenden hlakkar til þess að fá að spila á miðjunni í næstu leikjum vegna en hann segist verða að hugsa meira um varnarvinnuna þegar hann spilar með Steven Gerrard á miðri miðjunni.

Gerrard, sem ekki hefur náð að skora í Úrvalsdeildinni á þessu tímabili, spilaði mjög vel á miðvikudagskvöldið og skoraði mark sem gaf tóninn að 2-0 sigri gegn fyrrverandi vinnuveitendum Zenden í PSV Eindhoven.

Hinsvegar settu meiðsli þriggja leikmanna strik í reikninginn og þurfti Zenden að koma inná eftir aðeins 21 mínútu þegar Xabi Alonso meiddist.  Momo Sissoko er einnig meiddur og því vonast Zenden til þess að fá að vera í byrjunarliðinu gegn Manchester City á morgun, laugardag.

Hann sagði:  ,,Við erum auðvitað allir hérna til þess að fá að spila.  Stjóranum finnst gott að breyta liðinu reglulega."

,,Einn daginn er maður að spila í Meistaradeildinni, í næsta leik í deildinni spilar maður ekkert og svo kemur önnur keppni og þá er maður með."

,,Maður verður bara að að bíða eftir kallinu.  Þegar tækifærið kemur þá verður maður að grípa það.  Þess vegna erum við hér.  Við erum með stóran hóp og ég er viss um að við getum sigrast á öllum þeim vandamálum sem steðja að okkur."

Jermaine Pennant nær líklega að jafna sig af meiðslunum sem hann hlaut á miðvikudagskvöldið en Alonso og Gonzalez eru meira meiddir og verða eitthvað lengur frá keppni.  Meiðsli Alonso þýða að Zenden spilar mjög líklega á miðri miðjunni með Steven Gerrard eins og raunin varð meirihlutann af leiknum gegn PSV.

Zenden líkar það vel að spila við hliðina á fyrirliða sínum en viðurkennir að hann þurfi að halda aftur af sér þegar kemur að því að sækja fram völlinn þegar þeir spila saman á miðjunni.

,,Það sem breytist hjá mér er að Steven líkar það mjög vel að sækja fram úr þessari stöðu.  Það þarf þá einhver að vera við hliðina á honum til að stjórna leiknum aðeins."

,,Þegar ég spila með Xabi á miðjunni þá er það ég sem þurfti að sækja meira fram.  Maður þarf að breyta leik sínum aðeins, en ástæðan fyrir því að við skoruðum seinna markið á miðvikudaginn var sú að ég sótti fram, mér líður best þegar að ég þarf að sækja fram."

Nú þegar fyrsta sæti riðilsins er tryggt vill Zenden einbeita sér að því að ná í stig í deildinni og klífa upp töfluna en liðið er sem stendur í 10 sæti.

,,Ef við skoðum úrslitin hjá okkur og skoðum stigin sem við höfum fengið á útivöllum þá eru þau ekki mörg."

,,Við erum allir vonsviknir með það en við verðum að líta á jákvæðu hlutina og þeir leikir sem við höfum verið að spila á útivelli hafa ekki verið þeir auðveldustu."

,,Við leggjum mjög hart að okkur á æfingum til þess að takast á við þau vandamál sem steðja að.  Við höfum ekki verið að spila mjög illa, við höfum bara ekki náð að sigra í þessum leikjum."

,,Við höfum sjálfstraustið, við verðum að leggjast allir á eitt til að tryggja það að við náum þeim úrslitum sem við þurfum því við erum ekki ánægðir með gengið hingað til."

,,Hver einasti leikur sem við vinnum getur verið byrjun á góðum hlutum.  Fólki finnst gaman að benda á að við höfum ekki enn unnið á útivelli í deildinni en við höfum sjálfstraustið til að breyta því."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan