| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Eftir að hafa ekki leikið saman í allri knattspyrnusögunni leiddu Liverpool og Reading saman hesta sína í annað sinn á tíu dögum. Nú eins og þá vann Liverpool. Þetta er leikur Liverpool og Reading í hnotskurn.

- Þetta var fyrsta viðureign Liverpool og Reading í deildarkeppninni.

- Liðin mættust í annað sinn á tíu dögum. Þá vann Liverpool 4:3 sigur í Deildarbikarnum á sama stað.

- Steve Coppell, framkvæmdastjóri Reading, er fæddur í Liverpool og hóf feril sinn með Tranmere Rovers. Hann lék svo síðar með Manchester United.

- Dirk Kuyt skoraði bæði mörk Liverpool og er nú búinn að skora fimm mörk á leiktíðinni.

- Dirk hefur áunnið sér töluverðar vinsældir hjá stuðningsmönnum Liverpool. Það má til dæmis sjá á því að á The Kop hékk borði þar sem "Hollenski meistarinn" var hylltur með þessum orðum og tveimur andlitsmyndum.

- Vinsældir Robbie Fowler dvína ekki. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu honum vel og kyrjuðu nafnið hans þegar hann kom til leiks.

- Jamie Carragher lék sinn 300. deildarleik. Um leið var þetta 433. leikur hans með Liverpool.

- Ian Callaghan á leikjametið hjá Liverpool. Hann lék 857 leiki fyrir hönd félagsins.   

Jákvætt:-) Liverpool vann fjórða leik sinn í röð. Liverpool náði að vinna öruggansigur án þess að leika svo ýkja vel. Dirk Kuyt sýndi enn hversu mikill markaskorari hann er með því að nýta tvö færi. Sami Hyypia átti mjög góðan leik og tók rispur fram völlinn í anda Franz Keisara þess þýska.    

Neikvætt:-( Leikmenn Liverpool léku heldur hægt á köflum og maður hefði viljað að liðið hefði reynt að spila hraðar og ná fleiri mörkum til að bæta markahlutfallið.

Þrír bestu leikmenn Liverpool samkvæmt Liverpoolfc.tv:

1. Dirk Kuyt.  Skoraði tvö fín mörk og átti framúrskarandi leik. Dirk er bæði vökull og snjall og þeir kostir hans hafa gefið liðinu aukna vídd á leiktíðinni.

2. Steven Gerrard. Kraftmikill leikur hjá fyrirliðanum. Hann skapaði mikla hættu eins og honum er best lagið.

3. Sami Hyypia. Framúrskarandi leikur hjá Sami. Reading var bara með einn mann í sókninni. Það gaf Sami færi á að taka rispur fram völlinn með boltann og byggja upp sóknir.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan