| Sf. Gutt

Baráttusigur í Birmingham

Liverpool vann baráttusigur í Birmingham í kvöld og komst í átta liðaúrslit Deildarbikarsins. Daninn Daniel Agger skoraði eina mark leikins. Þetta var fyrsti sigur Liverpool á enskri grundu á leiktíðinni. Sigurinn var dýru verði keyptur því Mohamed Sissoko meiddist illa á öxl og er óttast að hann hafi farið úr axlarliði. Liverpool tefldi fram mikið breyttu liði frá leiknum við Reading um helgina og aðeins Boudewijn Zenden og Jermaine Pennant héldu sæti sínu í byrjunarliðinu.

Það var ljóst frá byrjun leiksins að heimamenn ætluðu að berjast eins og ljón í þessum leik enda minnugir útreiðarinnar sem þeir fengu gegn Liverpool í F.A. bikarnum fyrr á árinu. Liverpool vann þann leik 7:0 en það var aldrei útlit á öðrum eins stórsigri í kvöld. Það var hart barist frá byrjun og fátt um færi framan af. Robbie Fowler átti besta færi Liverpool á upphafskaflanum. Lee Peltier sendi á Robbie frá hægri en hann hitti boltann illa þar sem hann var vel staðsettur á teignum. Liverpool varð fyrir miklu áfalli á 26. mínútu. Mohamed Sissoko féll þá illa eftir baráttu við Mehdi Nafti. Sá átti nú eiginlega að vera farinn af leikvelli eftir ljóta tæklingu á Boudewijn Zenden fyrr í leiknum. Eftir langa aðhlyningu var Mohamed borinn af leikvelli og kom Xabi Alonso inn fyrir hann. Rétt fyrir lok hálfleiksins kom besta færi heimamanna. DJ Campbell fékk boltann í dauðafæri eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti en hann skaut beint á Jerzy Dudek sem var vel staðsettur. Rétt fyrir hálfleik slapp Craig Bellamy einn í gegn en dómarinn dæmdi ranglega brot á Veilsverjann. Heilum sjö mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn vegna meiðslanna. Það eina góða við meiðsli Mohamed var að Liverpool skoraði í viðbótartímanum. Jermaine Pennant tók hornspyrnu frá vinstri. Boltinn hrökk niður fyrir fætur Daniel Agger við nærstöngina. Daninn hikaði hvergi og hamraði boltann upp í markhornið. Glæsilegt mark hjá Dananum.

Liverpool var lengst af með öll tök á leiknum eftir hálfleik. Eftir tíu mínútna leik varði Maik Taylor tvívegis vel með stuttu millibili. Fyrst frá Mark Gonzalez og svo frá Boudewijn Zenden. Á 64. mínútu fékk Liverpool gullið færi á að gera út um leikinn. Mark stakk þá einn varnarmann Birmingham af og komst inn á vítateig þar sem sami maður sparkaði hann niður. Craig Bellamy tók vítaspyrnuna. Hann gerði gabbhreyfingu í aðhlaupinu. Maik henti sér niður en norður írski landliðsmarkvörðurinn náði samt að verja því Craig skaut alltof nærri honum. Ekki lagaðist það fyrir Craig. Ekki löngu síðar braust Boudewijn upp vinstri kantinn og gaf góða sendingu þvert fyrir markið. Craig var á auðum sjó en náði ekki að renna boltanum í autt markið. Dirk Kuyt kom til leiks og skipti við Robbie Fowler á 72. mínútu. Jerzy Dudek tók við fyrirliðabandinu. Hann var vel á verði rétt á eftir þegar Julian Gray fékk boltann í upplögðu færi en náði ekki góðu skoti og Pólverjinn varði auðveldlega. Heimamenn reyndu að ógna marki Liverpool undir lokin en leikmenn Liverpool gáfu ekkert eftir. Þremur mínútum fyrir leikslok fékk Craig enn dauðafæri. Boudewijn Zenden gaf góða sendingu á Veilsverjann sem fékk boltann í upplögðu færi inni á vítateignum en Craig skaut framhjá. Mínútu seinna skipti Rafael honum af velli fyrir hinn unga Danny Guthrie. Leikmenn Liverpool gátu fagnað sigri þótt ekki væri hann stór. Hann var sanngjarn. Áframhaldið í keppninni var þó fyrir öllu.  

Birmingham: Maik Taylor, Kelly, Martin Taylor, Jaidi, Sadler, Larsson, Nafti (Muamba 68. mín.), Danns, Gray, Campbell (McSheffrey 58. mín.) og Jerome (Bendtner 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Doyle og Kilkenny.

Gul spjöld: Mehdi Nafti, Radji Jaidi, Sebastian Larsson.

Liverpool: Dudek, Peltier, Agger, Paletta, Warnock, Pennant, Sissoko (Alonso 26. mín.), Zenden, Gonzalez, Fowler (Kuyt 72. mín.) og Bellamy (Guthrie 88. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Carragher.

Mark Liverpool: Daniel Agger (45. mín.)

Gult spjald: Gabriel Paletta.

Áhorfendur á St. Andrews: 23.061.

Maður leiksins: Boudewijn Zenden. Þetta var líklega besti leikur Hollendingsins með Liverpool. Hann var mjög duglegur á miðjunni og átti nokkrar góðar sendingar á félaga sína.

Rafael Benítez var ánægður með að Liverpool skyldi ná sigri. "Þetta var erfiður leikur. Við áttum nokkur opin færi, þeir fengu eitt eða tvö og létu okkur hafa fyrir því. Mér fannst leikmennirnir leggja mjög hart að sér. Ég breytti til með nokkra leikmenn og það fengu nokkrir ungir strákar að spreyta sig. Þeir stóðu sig vel gegn erfiðum andstæðingum."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan