| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Fyrir þessa sparktíð höfðu Liverpool og Reading aldrei leitt saman hesta sína. Nú ber svo við að liðin mætast á morgun í annað sinn á tíu dögum. Það var bara í síðustu viku sem liðin mættust í fyrsta sinni í sögunni. Liverpool vann þá 4:3 sigur í stórskemmtilegum leik í Deildarbikarnum. Á morgun ganga liðin svo aftur á hólm í fyrstu vikureig sinni í deildinni.

Sem fyrr segir vann Liverpool 4:3 sigur á Reading fyrir tíu dögum. Sigurinn var sá fyrsti af þremur sem Liverpool hefur unnið í röð. Í þessum þremur leikjum hefur Liverpool skorað tíu mörk. Það hafa vissulega verið batamerki á liðinu í þessum þremur leikjum og vonandi heldur batinn áfram á morgun. Liverpool verður einfaldlega að ná upp vinningsrispu og treysta á að liðin fyrir ofan misstigi sig. Það er aldrei gott að þurfa að treysta á að önnur lið tapi en þetta er raunveruleikinn eftir hægfara byrjun bikarmeistaranna.

Rafael Benítez skaut fjölmiðlamönnum ref fyrir rass þegar hann tilkynnti óbreytt byrjunarliði gegn Bordeaux frá leiknum við Aston Villa. Fjölmiðlungar voru tilbúnir með fyrirsagnir þess efnis að Rafael hefði breytt liðinu í hundraðasta skipti í röð. Svo varð ekki en líklega verður Spánverjinn að breyta liðinu gegn Reading. Luis Garcia sem er búinn að skora þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum meiddist og verður trúlega fjarri góðu gamni. Góð tíðindi felast í því að Craig Bellamy og Mark Gonzalez eru leikfærir og það sama á við um Xabi Alonso sem fór af leikvelli gegn franska liðinu. En verða Stöðvfirðingurinn og Reykvíkingurinn með? Mark Lawrenson lék aldrei gegn þeim Konunglegu með Liverpool en spáin hans um leikinn er tilbúin.

Liverpool v Reading

Liverpool hefur heldur betur hrokkið í gang eftir slakan leik gegn Manchester United og framkvæmdasjórinn Rafael Benítez er nú búinn að átta sig á hvað sé hans sterkasta lið. Mér finnst að það séu komin svolítil þreytumerki á Reading, sem byrjaði vel, eftir að liðið hefur þurft að leika nokkra erfiða leiki í röð. Þetta á eftir að reynast þeim erfiður leikur.

Úrskurður: Liverpool v Reading 3:0.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan