| Sf. Gutt

Liverpool gæti tryggt áframhald sitt í kvöld

Bikarmeistararnir gætu tryggt sæti sitt í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með sigri á franska liðinu Bordeux á Anfield Road í kvöld. Reyndar gætu úrslitin ráðist alfarið í riðlinum. Möguleikarnir í riðlinum voru raktir á vefsíðu BBC í dag. Liverpool leikur sem fyrr segir við Bordeaux og á sama tíma á PSV Eindhoven heimaleik gegn Galatasaray. Vinni Liverpool og PSV liggur fyrir að þau lið fara upp úr riðlinum. Eina spennan í síðustu tveimur umferðunum myndi þá snúast um hvort liðið ynni riðilinn. Vinni annað liðið heimaleik sinn kvöld og jafntefli yrði í hinum væru úrslitin líka ráðin. Sem stendur eru Liverpool og PSV með sjö stig en hin tvö liðin hafa aðeins eitt stig. Útiliðin verða því að vinna til að eiga stærðfræðilega möguleika á að komast áfram.

Liverpool hefur sína bestu menn til taks í kvöld. Rafael hefur varað menn sína við að vanmeta franska liðið og vonandi koma leikmenn hans því einbeittir til leiksins. Fjölmiðlamenn geta nú vart beðið eftir því hvort Rafael Benítez muni breyta liðsuppstillingu sinni í eitthundraðasta leiknum í röð. Það skiptir þó engu. Það eina sem skiptir máli er að Liverpool vinni sigur í leiknum og geri þar með sitt til að tryggja farseðilinn í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Ólíklegt er Vladimir Smicer fái þann draum sinn uppfylltan að spila gegn gamla liðinu sínu á Anfield Road í kvöld. Hann á við meiðsli að stríða og hefur enn ekkert leikið á leiktíðinni ef ég hef rétt fregnað. Tékkinn er þó í liðshópi Bordeaux og hann æfði á Anfield í gær. Vladimir hafði þetta að segja. "Ég vildi óska þess að framkvæmdastjórinn myndi setja mig á varamannabekkinn svo ég geti þannig verið hluti af leiknum en ég er ekki viss um hvort það er hægt. Það er miður því ég er ekki viss um að ég muni aftur fá tækifæri á að spila aftur á Anfield."




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan