| Sf. Gutt

Liverpool lagði þá Konunglegu í frábærum leik

Fyrsta viðureign Liverpool og Reading reynst stórskemmtileg. Bikarmeistararnir unnu 4:3 sigur í miklum markaleik á Anfield Road í kvöld. Það bar margt til tíðinda í leiknum. Fjórir leikmenn Liverpool léku í fyrsta sinn fyrir hönd félagsins. Þetta voru þeir Gabriel Paletta, Lee Peltier, Danny Guthrie og James Smith. Markvörðurinn David Martin fékk líka smjörþefinn að aðalliðinu en hann var í fyrsta sinn varamaður. Robbie Fowler leiddi Liverpool í fyrsta sinn sem fyrirliði frá árinu 2001. Hann skoraði mark og átti stórleik.

Það var úrhelli í Liverpool í kvöld og völlurinn því rennblautur. Líklega jók það enn á fjörið í leiknum. Mohamed Sissoko átti fyrstu hættulegu marktilraunina en Graham Stack varði fast langskot hans. Ulises De la Cruz ógnaði svo marki Liverpool með langskoti sem Jose Reina varði vel. Markaregnið hófst mínútu fyrir leikhlé. Jermaine Pennant sendi þá góða stungusendingu inn fyrir vörn Reading. Robbie Fowler náði boltanum og lyfti honum snyrtilega yfir Graham. Frábær afgreiðsla hjá Robbie sem þarna lék sinn fyrsta leik á Anfield Road á leiktíðinni. Mínútu síðar átti John Arne Riise bylmingsskot úr teignum sem Graham varði en hann hélt ekki boltanum. Norðmaðurinn náði frákastinu og nú lá boltinn í markinu eftir annað þrumuskot hans. 

Liverpool hélt uppteknum hætti í sóknarleiknum eftir leikhlé og Graham varði vel skot frá Jermaine Pennant. Á 50. mínútu tók Jermaine hornspyrnu sem Gabriel Palletta skallaði í mark. Þetta var sannarlega mögnuð stund fyrir Argentínumanninn sem skoraði þarna í sínum fyrsta leik með Liverpool. Það var því ekki að undra að hann skyldi fagna innilega fyrir framan The Kop. Liverpool hefði enn gatað aukið forystuna og sérstaklega var Robbie Fowler ógnandi. Eitt skot hans fór til dæmis rétt framhjá. Boudewijn Zenden átti svo gott skot framhjá markinu. Stundarfjórðungi fyrir leikslok náðu gestirnir að minnka muninn þegar Adre Bikey skoraði með skalla eftir aukaspyrnu frá Glenn Little. En Liveprool svaraði tveimur mínútum seinna. Peter Crouch og Robbie Fowler léku þá fallegan þríhyrning. Peter slapp inn á teig og lék þar laglega á markvörðinn og skoraði af öryggi í autt markið. Hér virtust úrslitin endanlega ráðin en þeir Konunglegu neituðu að leggja niður vopnin. Leroy Lita skoraði minnkaði muninn níu mínútum fyrir leikslok. Enn jókst spennan á 85. mínútu þegar Shane Long skoraði með skalla. Það gat allt gerst á lokakaflanum. Dirk Kuyt átti þrumuskot utan vítateigs sem fór í þverslá og Robbie hefði getað skorað. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna en allt kom fyrir ekki og bikarmeistararnir fögnuðu áframhaldi í sextán liða úrslit. Sannarlega frábær skemmtun á Anfield Road í kvöld.

Myndaveisla frá leiknum og myndband af mörkum Liverpool.

Liverpool: Reina, Peltier (Smith 74. mín.), Paletta, Agger, Warnock, Pennant, Sissoko (Guthrie 62. mín.), Zenden, Riise (Kuyt 79. mín.), Fowler og Crouch. Ónotaðir varamenn: Martin og Carragher.

Mörk Liverpool: Robbie Fowler (44. mín.), John Arne Riise (45. mín.), Gabriel Paletta (50. mín.) og Peter Crouch (77. mín.).

Gult spjald: Gabriel Paletta.

Reading: Stack, De la Cruz, Bikey, Ingimarsson, Halls, Little, Gunnarsson (Sodje 83. mín.), Oster, Hunt, Lita og Long. Ónotaðir varamenn: Hahnemann, Hayes, Osano og Joseph-Dubois.

Mörk Reading: Andre Bikey (75. mín.), Leroy Lita (81. mín.) og Shane Long (85. mín.). 

Gult spjald: Glenn Little.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.445.

Maður leiksins: Robbie Fowler. Robbie lét ekki happ úr hendi sleppa þegar hann fékk loksins tækifæri með aðalliðinu eftir nokkurt hlé. Hann skoraði glæsilegt mark og var óheppinn að skora ekki fleiri. Robbie lagði svo upp markið sem reyndist sigurmark leiksins.

Rafael Benítez fannst leikurinn vera frábær. Að minnsta kosti fyrir áhorfendur! "Mig langar að þakka áhorfendum fyrir að koma hingað í þessu vonda veðri til að styðja við bakið á okkur. Það var gott að skora fjögur frábær mörk og skemmta þeim. Þetta var frábær leikur fyrir áhorfendur. Venjulega njóta framkvæmdastjórar svona leikja ekki jafn vel og áhorfendur. Við þurftum að stjórna leiknum og halda boltanum. Við hefðum getað skorað undir lokin og það hefðu þeir líka geta gert."





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan