| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Það er langt um liðið frá síðasta leik og nú er komið að því að taka upp þráðinn eftir nýafstaðna landsleikjahrinu. Loksins fær Liverpool tækifæri til að spila á hefðbundnum leiktíma klukkan þrjú síðdegis á laugardegi. Það er í fyrsta skipti á þessari leiktíð sem leikmenn og stuðningsmenn Liverpool geta haft dagskrá sína á laugardegi eins og venjur og hefðir kveða á um. Víst er að allir gleðjast yfir þessum leiktíma.

Blackburn Rovers kemur í heimsókn og þessi leikur verður að vinnast því eftir þrjá tapleiki má ekkert út af bera. Lið vinna enska meistaratitilinn sjaldan með fleiri en fimm tapleiki á einni leiktíð. Það er því ljóst að Liverpool verður að koma sér í gang þó ekki væri nema í bili til að koma sér upp stigatöfluna. Liverpool er nú um miðja deild með jafna markatölu og úr því verður að bæta. Það lítur heldur betur út með meiðsli þeirra landsliðsmanna sem meiddust í landsleikjahrotunni. Það er þó óvíst að þeim verði hætt á morgun. Það er af mörgum leikmönnum að taka og líklega fá einhverjir tækifæri sem ekki voru valdir í landslið sín. Steven Gerrard fékk kærkomna hvíld þar sem hann þurfti ekki að fara til Króatíu. Ég spái því að hann eigi stórleik og skori sitt fyrsta mark á leiktíðinni!

Liverpool v Blackburn Rovers

Það verður einhver undiralda fyrir þennan leik. Það er jafnan svo á milli þessara liða. Frá síðasta leik liðanna hefur sala Craig Bellamy til Liverpool aukið undurölduna og eins mætti segja mér að fyrirhuguð vistaskipti Lucas Neill, sem reyndar ekkert varð úr í sumar, gæti aukið ölduganginn.

Mér finnst Liverpool hafa leikið mjög vel á heimavelli og það gæti verið að liðinu yrði breytt nokkuð fyrir þennan leik. Þar á bæ hafa menn fengið réttmæta gagnrýni fyrir að breyta liðinu of oft á þessari leiktíð. En eftir landsleiki er gott að geta breytt liðinu því sumir leikmenn liðsins eru þreyttir eftir að hafa ferðast um Evrópu þvera og endilanga síðustu vikuna.

Úrskurður: Liverpool v Blackburn Rovers 2:0.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan