| Grétar Magnússon

Riise þyrstir í bikarsigur

John Arne Riise vonar heitt og innilega að hann geti fagnað sínum fyrsta FA bikarsigri á laugardaginn.  Riise gekk til liðs við Liverpool stuttu eftir 2-1 sigur á Arsenal í úrslitum FA bikarsins árið 2001 en eins og allir muna var það Michael Owen sem tryggði sigurinn með tveimur síðbúnum mörkum.

Norðmaðurinn horfði á leikinn vitandi það að hann væri að fara að skrifa undir samning við þá rauðu og getur nú ekki beðið eftir því að taka þátt í úrslitaleiknum.

,,Mér fannst gaman að horfa á leikinn og sjá Liverpool vinna en ég mátti ekki segja neitt um kaupin á mér því enginn vissi að þeir vildu kaupa mig."

,,Ég og umboðsmaður minn höfðum átt samtal við Gerard Houllier en við þögðum yfir því.  Það var orðrómur um að ég væri að ganga til liðs við önnur félög en fyrir mig var aðeins eitt félag sem kom til greina."

,,Maður verður alltaf spenntur yfir því að horfa á svona leiki og innst inni var ég ánægður fyrir hönd leikmannanna."

,,Síðan ég kom er þetta sennilega eina árið sem okkur hefur gengið vel í bikarkeppninni.  Þetta er stór keppni um allan heim, sérstaklega í Noregi þar sem keppnin er mjög vinsæl, að taka þátt í þessu er mjög sérstakt og ég hlakka mikið til."

,,Ég er búinn að vera hér í fimm ár og ég veit hvaða þýðingu keppnin hefur fyrir leikmenn og stuðningsmenn."

,,Ég skoraði á síðasta ári í úrslitaleiknum í deildarbikarnum gegn Chelsea en við töpuðum þeim leik.  Það er alltaf gaman að skora mörk, sérstaklega í stórum leikjum en mér er sama hver skorar svo lengi sem við vinnum."

,,Ég vil bara að liðið standi sig vel og vinni leikinn.  Við eigum stóran möguleika, við erum í úrslitum og allt getur gerst."

,,Þegar maður spilar úrslitaleik vill maður gera sitt allra besta og vera í toppformi svo maður geti unnið bikar.  Við fórum erfiða leið í úrslitin, við unnum nokkur mjög góð lið og West Ham gerðu það líka þannig að bæði lið eiga skilið að vera í úrslitaleiknum."

,,Bestu leikmennirnir verða að stíga fram, bæði lið eiga frábæra leikmenn og, með smá heppni, vinnur besta liðið leikinn.  Fólk segir að West Ham eigi minni möguleika á sigri en allt getur gerst í úrslitaleik."

,,FA bikarinn er frægur fyrir óvænt úrslit og við munum sýna West Ham mikla virðingu því vitum að þeir eru með sterkt og gott lið."

,,Þeir hafa staðið sig mjög vel í deildinni og komist í úrslit í einni keppni.  Við fylgjumst vel með öllum leikmönnum þeirra til að þekkja þá betur og þeir gera örugglega það sama."

,,Í deildinni eru 38 leikir og maður hefur efni á að spila illa í nokkrum leikjum.  Í úrslitaleik hefur maður aðeins einn möguleika og maður verður að gera allt sem maður getur til að sigra."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan