| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Bikarvegferðin hélt áfram þegar Liverpool tryggði sér sjöunda farseðilinn til Cardiff. Luis Garcia skaut Chelsea aftur út í undanúrslitum. Þetta er leikur Liverpool og Chelsea í hnotskurn.

- Liverpool hefur unnið F.A. bikarinn sex sinnum. Það gerðist árin 1965, 1974, 1986, 1989, 1992 og 2001.

- Liverpool tryggði sér sæti í úrslitum F.A. bikarsins í þrettánda sinn.

- Þetta var í tuttugasta og annað sinn sem Liverpool hefur leikið í undanúrslitum F.A. bikarsins. Chelsea var að leika í undanúrslitum í sextánda sinn.

- Þetta var í fimmta sinn sem Liverpool spilaði undanúrslitaleik í F.A. bikarnum á Old Trafford.

- Liverpool hefur aldrei tapað undanúrslitaleik á Old Trafford. Liðið lagði Everton 2:1 1971. Árið 1974 gerði liðið markalaust jafntefli við Leicester City. Liverpool vann svo aukaleikinn 3:1 á Villa Park. Nottingham Forest mátti þola 3:1 tap 1989 og 1996 lagði Liverpool Aston Villa 3:0.

- Þetta var í tuttugasta og fyrsta sinn sem undanúrslitaleikur í F.A. bikarnum er leikinn á Old Trafford.

- Chelsea vann F.A bikarinn í fyrsta sinn á Old Trafford árið 1970. Liðið vann þá Leeds United 2:1 í aukaleik eftir að liðin höfðu skilið jöfn 2:2 á Wembley. Chelsea hefur unnið FA. bikarinn þrívegis. Það gerðist 1970, 1997 og 2000.

- Þetta var áttundi sigur Liverpool í röð í öllum keppnum.

- Þeir Steven Gerrard, Djibril Cisse og Xabi Alonso léku sína 50. leiki á leiktíðinni.

- John Arne Riise skoraði sitt fjórða mark á leiktíðinni. Hann hefur skorað helminginn í F.A. bikarnum.

- Luis Garcia skoraði ellefta mark sitt á þessari leiktíð.

- Þetta var fyrsta mark Spánverjans í í F.A. bikarnum. Hann varð um leið níundi leikmaður Liverpool til að skora í keppninni á þessari leiktíð.

- Robbie Fowler var mættur til að hvetja sína menn. Hann fylgdist með leiknum úr stúkunni.

- Þetta var tíunda rimma Liverpool og Chelsea á síðustu tveimur leiktíðum. Liðin hafa, í þessum rimmum, leikið saman í öllum keppnum á Englandi auk leikja í Meistaradeildinni.

- Þetta var aðeins annar sigur Liverpool í þeim. Báðir sigrarnir hafa verið í undanúrslitum og báðir unnust á marki frá Luis Garcia. Þá er bara að vona að úrslitaleikurinn í F.A. bikarnum gefi af sér bikar eins og úrslitaleikurinn um Evrópubikarinn.

- Rafael Benítez hefur nú komið Liverpool í fimm úrslitaleiki á stjórnartíð sinni. Liverpool hefur unnið Meistaradeildina og Stórbikar Evrópu en tapað Deildarbikarúrslitaleik og úrslitaleiknum um Heimsmeistarakeppni félagsliða.

- Liverpool vann sér farseðil á Árþúsundaleikvanginn í Cardiff í sjöunda inn.

- Liverpool tók þátt í fyrsta úrslitaleik F.A. bikarsins sem leikinn var í Cardiff þegar liðið vann Arsenal 2:1 vorið 2001. Michael Owen skoraði þá tvö síðbúin mörk eftir að Freddie Ljungberg hafi komið Skyttunum yfir.

- Liverpool lokar nú hringnum með því að spila síðasta F.A. bikarúrslitaleikinn sem verður spilaður í Cardiff. Birt með fyrirvara um að hinn nýi Wembely verði tilbúinn að ári!

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko, Kewell (Traore 78. mín.), Garcia (Morientes 82. mín.) og Crouch (Cissé 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Hamann.

Mörk Liverpool: John Arne Riise (21. mín.) og Sans Luis Garcia (53. mín.)

Gul spjöld: Jamie Carragher og Jose Reina.


Chelsea: Cudicini, Ferreira, Gallas, Terry, Del Horno (Robben 45. mín.), Essien, Lampard, Makelele,Geremi (Duff 62. mín.), Crespo (Joe Cole 62. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cech og Carvalho.

Mark Chelsea: Didier Drogba (70. mín.)

Gult spjald: Didier Drogba.

Áhorfendur á Old Trafford: 64.575.

Maður leiksins: Jamie Carragher var gríðarlega sterkur í hjarta varnar Liverpool. Þessi eldhugi átti enn einn stórleikinn í vörinni. Reyndar hefur hann leikið svo vel á leiktíðinni að maður er næstum því hættur að taka eftir því hversu vel hann leikur. Jamie var sérstaklega einbeittur undir lokin þegar sóknir Chelsea voru hvað ákafastar.

Jákvætt :-) Liverpool fór áfram í F.A. bikarnum. Evrópumeistararnir eru komnir í úrslitaleik F.A. bikarsins og fá tækifæri til að vinna hann í sjöunda sinn! Rafael Benítez sýndi enn hversu snjall hann er að leigga upp leikaðferðir. Leikaðferðin sem hann lagði upp tryggði að Liverpool náði frumkvæðinu í leiknum og lagði grunn að sigri Liverpool. Hver einn og einasti leikmaður Liverpool lagði allt sitt í leikinn. Stuðningsmenn Liverpool sýndu enn einu sinni hversu frábærir þeir eru. Þeir fjölmenntu á Old Trafford, sungu miklu hærra en stuðningsmenn Chelsea og studdu sína menn með ráðum og dáð! Þetta var einn af þessum dögum þegar Liverpool getur ekki tapað mikilvægum leik!

Neikvætt :-(  Hvað í ósköpunum gæti það verið?

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Þessi tíunda rimma Liverpool og Chelsea á tveimur leiktíðum byrjaði kannski fjörlegar en margir höfðu átt von á. Chelsea hóf leikinn betur og vörn Liverpool lenti nokkrum sinnum í vanda á fyrstu mínútunum en svo náðu Evrópumeistararnir undirtökunum. Xabi Alonso átti skot sem markvörður Chelsea hélt ekki. En Chelsea fékk fyrsta hættulega færið þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar þegar Didier Drogba, sem var greinilega rangstæður, komst inn fyrir vörn Liverpool en hann skaut framhjá úr upplögðu færi einn gegn Jose Reina. Það voru hins vegar Evrópumeistararnir sem komust yfir á 21. mínútu. Liverpool fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Chelsea þegar dæmt var hættuspark á John Terry. Leikmönnum Chelsea fannst dómurinn rangur en John sýndi Luis vissulega takkana. John Arne Riise rúllaði boltanum stutt til Steven Gerrard sem stillti boltanum upp fyrir Norðmanninn sem skaut að marki. Einhvernvegin náði boltinn að smjúga í gegnum varnarvegg Chelsea á milli þeirra Paulo Ferreira and Frank Lampard og í markið án þess að Carlo Cudicini kæmi nokkrum vörnum við. Mikill fögnuður braust út hjá stuðningsmönnum Liverpool. Leikmenn Liverpool höfðu nú greinilega náð frumkvæðinu í leiknum og voru miklu sterkari fram að hálfleik. Á 35. mínútu munaði litlu að Peter Crouch næði að koma boltanum í mark Chelsea. John Terry skallaði þá boltann aftur á Carlo Cudicini. Skallinn var laus og Peter reyndi að ná boltanum. Hann og Carlo skullu hins vegar saman þegar þeir reyndu að ná boltanum og lágu báðir eftir. Þeir brögguðust þó eftir að hugað var að þeim. Á lokamínútu hálfleiksins var Luis Garcia nærri búinn að skora eftir að Steven Gerrard hafði brotist inn í teiginn hægra meginn. Steven sendi fyrir en Luis skaut yfir úr mjög góðu færi.

Chelsea lék betur eftir leikhlé og á 49. mínútu fögnuðu stuðningmenn þeirra marki. Arjen Robben, sem kom inn sem varamaður í leikhléi, sendi þá fyrir markið úr aukaspyrnu. John Tery stökk manna hæst og skallaði í mark. Markið var hins vegar dæmt af þar sem dómarinn taldi að John hefði haldið John Arne Riise niðri þegar hann stökk upp. Í stað þess að jafna þá lenti Chelsea tveimur mörkum undir á 53. mínútu. Sending kom í átt að marki Lundúnaliðsins. William Gallas átti misheppnaðan skalla í átt að eigin marki. Luis Garcia var eldsnöggur að átta sig og skaust inn fyrir vörnina. Hann lék að markinu og skaut svo fallegu bogaskoti sem hafnaði í markinu vinsta megin úti við stöng. Allt trylltist af fögnuði hjá stuðningsmönnum Liverpool sem voru fyrir aftan markið sem Luis skoraði í! Hann var litlu seinna næstum búinn að skora aftur en markvörður Chelsea varði naumlega. Liverpool hafði öll ráð Chelsea í hendi sér þar til þeir Damien Duff og Joe Cole voru sendir til leiks. Chelsea náði að minnka muninn á 70. mínútu. John Arne Riise náði þá ekki að skalla frá þegar boltinn kom inn á vítateiginn. Boltinn fór hátt í loft upp. Jose Reina hugðist kýla boltann frá en Fílabeinsstrandarmaðurinn Didier Drogba stökk hærra og skallaði boltann í autt markið. Markið færði Chelsea von og liðið sótti mjög það sem eftir lifði leiks. Leikmenn Liverpool lögðu sig alla fram við að verja fenginn hlut og lengst af gekk það áfallalítið. Arjen Robben komst þó í gott færi en laust skot hans fór beint í fangið á Jose Reina. Það var mikil spenna undir lokin þegar Englandsmeistararnir lögðu allt í sölurnar. Á lokamínútunni fengu þeir loks dauðafæri. Jose Cole fékk boltann óvaldaður inn á markteig en hann þrumaði honum yfir úr dauðafæri. Rétt á eftir upphófst gríðarlegur fögnuður hjá stuðningsmönnum Evrópumeistaranna sem voru mjög fjölmennir á Old Trafford!

 





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan