| Sf. Gutt

Sjö stjörnu sýning í Miðlöndunum!

Evrópumeistararnir buðu upp á sjö stjörnu sýningu í Miðlöndunum í kvöld þegar þeir rótburstuðu Birmingham City 7:0 og tryggðu sæti sitt í undanúrslitum F.A. bikarkeppninnar. Þvílíkir yfirburðir hafa ekki sést í F.A. bikarleik hjá Liverpool frá því á síðustu öld. Liverpool fór á kostum í leiknum og í raun hefði sigurinn getað verið enn stærri. Stór var hann þó. Svo stór að hann er stærsti útisigur Liverpool í sögu þessarar elstu bikarkeppni í veröldinni.

Evrópumeistararnir hefðu ekki getað byrjað leikinn betur. Steven Gerrard sendi aukaspyrnu inn að markinu. Mohamed Sissoko, sem lék sinn fyrsta leik eftir augnmeiðslin slæmu, skallaði boltann til Sami Hyppia sem skallaði í markið. Aðeins 54 sekúndur voru liðnar þegar boltinn lá í markinu! Fjórum mínútum seinna lá boltinn aftur í marki heimamanna. Steven Gerrard lék upp hægri kantinn og gaf góða sendingu fyrir markið. Peter Crouch komst fyrstur að boltanum og skallaði í mark fyrir miðju markinu. Maik Taylor, landsliðsmarkvörður Norður Íra, hafði hendur á boltanum en hann fór samt í markið. Nú var ljóst hvert stefndi. Engu skipti þótt Djimi Traore hefði þurft að fara af velli vegna meiðsla. Harry Kewell kom inn fyrir hann og fór út á vinstri kantinn. John Arne Riise, sem lék sinn fyrsta leik eftir meiðsli, fór aftur í bakvarðarstöðuna. Liverpool hafði öll ráð heimamanna í hendi sér og næsta mark lá í loftinu. Það kom þó ekki fyrr en á 38. mínútu. Steven Gerrard sendi boltann á Luis Garcia sem lék upp að vítateignum. Hann var þar aðþrengdur sen náði að koma boltann inn á vítateiginn þangað sem Peter var kominn og sendi hann í markið af öryggi. Miðað var styrk varnar Liverpool má segja að úrslitin hafi hér verið ráðin.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af miklum krafti en hafi einhver minnsti efi um lyktir leiksins ríkt einhversstaðar þá gufaði hann upp á 59. mínútu. Liverpool sótti þá upp hægri kantinn. Luis Garcia sýndi frábæra gabbhreyfingu með því að hlaupa yfir boltann sem barst til Steven Gerrard. Fyrirliðinn lék inn á vítateiginn þaðan sem hann sendi fyrir markið á Fernando Morientes sem skoraði með því að renna boltanum óvaldaður í markið. Spánverjinn var aðeins búinn að vera þrjár mínútur inni á vellinum eftir að hafa leyst Peter Crouch af hólmi. Hættulegasta færi heimamann kom áður en Liverpool bætti við næsta marki. Mikael Forssell náði þá föstu skoti úr teignum sem Jose Reina sló frá með annarri hendi. Á 70. mínútu kom fallegasta mark leiksins. Enn kom Steven Gerrard við sögu. Hann renndi boltanum á Norðmanninn John Arne Riise sem negldi þá boltann upp undir þverslána með bylmingsskoti utan vítateigs. Frábært skot og stórglæsilegt mark. Yfirburðir Liverpool voru nú með hreinum ólíkindum og næsta mark lá í loftinu. Það kom á 77. mínútu. Harry Kewell sendi boltann fyrir frá vinstri. Á markteignum rendi Olivier Tebily sér fram og spyrnti boltanum í eigið mark. Stuðningsmenn heimamanna streymdu heim en aðdáendur Liverpool sungu linnulaust sínum mönnum til dýrðar. Ekki minnkuðu veisluhöld þeirra á 88. mínútu. Djibril Cissé fékk þá boltann úti á hægri vængnum. Hann lék inn í vítateignn og þrumaði að marki. Boltinn rakst lítilsháttar í varnarmann og fór af honum undir Maik Taylor og í markið. Sjöunda marki Liverpol var fagnað innilega, eins og hinum sex, af stuðningsmönnum Liverpool sem nú réðu sér ekki fyrir kæti. Lokaflaut dómarans staðfesti stærsta útisigur Liverpool í sögu F.A. bikarkeppninnar! Í sömu andrá var sæti Liverpool í undanúrslitum keppninnar í höfn. Vonandi eru mörkin sjö vísbending um að Liverpool vinni F.A. bikarinn í sjöunda sinn í Cardiff í vor!!!!!!!

Liverpool er komið í undanúrslit F.A. bikarsins í 22. sinn. Vonandi leiðir sá leikur liðið til Cardiff í úrslitaleikinn. Það yrði sannarlega ekki ónýtt ef Liverpool næði að vinna F.A. bikarinn í sjöunda sinn í vor. Liverpool hefur ekki komist svona langt í þessari mögnuðu keppni frá því liðið vann hana síðast vorið 2001. Það er tímabært að vinna þessa keppni aftur og vissulega, ef vel tekst til, er hægt að koma því í kring á vordögum.

Birmingham City: Maik Taylor, Melchiot, Cunningham, Martin Taylor (Tebily 45. mín.), Painter, Pennant, Johnson (Bruce 75. mín.), Clemence, Clapham, Forssell og Dunn (Kilkenny 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Vaesen og Lazaridis.

Gul spjöld: Stephen Clemence, Damien Johnson og Alex Bruce.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore (Kewell 22. mín.), Alonso, Gerrard (Cissé 71. mín.), Sissoko, Riise, Crouch (Morientes 56. mín.) og Garcia. Ónotaðir varamenn: Dudek og Kromkamp.

Mörk Liverpool: Sami Hyypia (1. mín.), Peter Crouch (5. og 38. mín.), Fernando Morientes (59. mín.), John Arne Riise (70. mín.), Olivier Tebily sm. ( 77. mín.) og Djibril Cissé (89. mín.)

Áhorfendur á St Andrews: 27.378.

Rafael Benítez var í sjöunda himni eftir metsigurinn í kvöld. ,,Ég er hæstánægður með lokastöðuna og framgöngu leikmannanna. Stundum nær maður ekki að skora eitt einasta mark í 30 tilraunum eins og í leiknum gegn Charlton en í dag skoruðum við úr hverju skoti. Við erum með gæðalið. Sóknarmennirnir eru mjög góðir og í þessu tilfelli var heppnin sannarlega með okkur. Við höfum nú þegar unnið einn bikar á leiktíðinni þegar við unnum Stórbikar Evrópu og við vonum að F.A. bikarinn geti orðið annar bikarinn okkar á henni."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan