| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Aðra helgina í röð mátti lið frá Manchester þola tap í Liverpool. Á síðasta degi vetrarólympíuleikanna í Tórínó mátti Manchester City lúta í gras. Þetta er leikur Liverpool og Manchester City í hnotskurn.

- Áhorfendum á Anfield Road þótti stemmingin á leiknum heldur róleg. Ástæðan var talin sú að leikurinn hófst í hádeginu á sunnudegi. Það er leiktími sem er ekki vinsæll hjá knattspyrnuáhugamönnum.

- Þetta var fjórði 1:0 sigur Liverpool í röð á ensku liði.

- Robbie Fowler sat uppi í stúku og fylgdist með gangi mála hjá þeim liðum sem hann hefur spilað með á leiktíðinni. Ástæðan var sú að félögin gerðu með sér heiðursmannasamkomulag, þegar hann fór til Liverpool, að hann myndi ekki spila þennan leik.

- Ekki langt frá Robbie í stúkunni sat Ian Wright með fóstursyni sínum Shaun Wright Phillips. Þeir komu til Liverpool til að fylgjast með yngri bróður Shaun Bradley. Þeir fóru ekki erindisleysu því Bradley kom inn sem varamaður í leikhléi. Bradley mun aldrei hafa verið í byrjunarliði City á leiktíðinni.

- Harry Kewell skoraði annað mark sitt á leiktíðinni í 350. leik sínum á ferlinum. 

- Danny Mills, fyrrum félagi Harry hjá Leeds, var nærri búinn að komast fyrir skot hans þegar Ástralinn skoraði. Þetta var fyrsti leikur Danny með Manchester City frá því liðin mættust í Manchester í lok nóvember. Sigurmark Liverpool í þeim leik kom líka með vinstri fæti. Það mark skoraði John Arne Riise.

- Jan Kromkamp var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool.

- Þeir Steven Gerrard og Steve Finnan voru valdið í lið vikunnar hjá BBC.

- Annan leikinn í röð var miðjumaður Liverpool að fara af leikvelli vegna höfuðmeiðsla. Mohamed Sissoko fór af velli gegn Benfica og Xabi Alonso varð að yfirgefa völlinn í þessum leik.

- Liverpool vann Manchester City í báðum deildarleikjunum á þessari leiktíð. Það gerðist síðast leiktíðina 1989/90 þegar Liverpool varð síðast, í bili, enskur meistari.

- Leikmönnum Manchester City gengur jafnan illa að verjast Liverpool á Anfield Road. Liðið hefur aðeins einu sinni haldið hreinu í síðustu 25 deildarleikjum sínum þar.

- Hinn mikli stuðningsmaður Liverpool Joey Barton var rekinn af leikvelli fyrir tvö slæm brot á miðvörðum Liverpool. Hann hefur kannski viljað gera Liverpool auðveldara fyrir? Joey mun hafa farið til Istanbúl að hvetja Liverpool til dáða í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn á liðnu vori.

- Það er ekki að spyrja að kappinu í Steven Gerrard. Hann ruddi dómara leiksins einu sinni úr vegi til að komast að boltanum!

Liverpool: Reina, Finnan, Agger, Hyypia, Riise, Kromkamp, Gerrard, Alonso (Hamann 31. mín.), Kewell (Traore 85. mín.), Crouch (Garcia 75. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Dudek og Cissé.

Mark Liverpool: Harry Kewell (40. mín.) 

Manchester City: James, Danny Mills, Dunne, Distin, Jordan, Sinclair (Ireland 67. mín.), Barton, Musampa, Riera (Croft 78. mín.), Samaras og Sibierski (Wright-Phillips 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Weaver og Sommeil.

Rautt spjald: Joey Barton (52. mín.).

Gul spjöld: Joey Barton og Georgios Samaras.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.121.

Maður leiksins: Peter Crouch átti mjög góðan leik í sókn Liverpool. Hann var mjög duglegur og varnarmenn gestanna þurftu að vera vel vakandi þegar Peter var annars vegar. Peter var sérlega óheppinn að skora ekki. Aðeins góð markvarsla David James og tréverkið komu í veg fyrir að Peter næði að skora mark eða mörk.

Jákvætt :-) Liverpool hélt hreinu fjórða leikinn í röð gegn ensku liði. Vörnin var sterk og Jose Reina varði tvívegis mjög vel. Harry Kewell skoraði mikilvægt mark og heldur áfram að standa sig vel. Peter Crouch lék mjög vel í sókninni og verðskuldaði sannarlega að skora.

Neikvætt :-(  Ekki margt nema hvað sigruinn var naumur. Liverpool átti að skora fleiri mörk en sóknarmennirnir skoraðu ekki frekar en í deildarleikjum Liverpool á þessu ári.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Fyrri hálfleikur var mjög tíðindalítill. Liverpool hafði yfirhöndina en gekk ekki vel að skapa opin færi. Liðið varð fyrir áfalli þegar Xabi Alonso varð af yfirgefa völlinn eftir að hafa fengið skurð á höfuðið eftir höfuð hans og Joey Barton skullu saman. Xabi fór fyrst út af og lét búa um sárið. Liverpool lék einum færri í um fimm mínútur áður en Xabi kom aftur inn á. En honum leið ekki vel í höfðinu og varð að fara af leikvelli. Dietmar Hamann kom í hans stað. Liverpool náði forystu fimm mínútum fyrir leikhlé. Liðið sneri þá vörn í sókn. Steven Gerrard sendi frábæra sendingu á Harry Kewell sem komst á auðan sjó upp að markinu vinstra megin. Harry lék inn í teiginn og skaut hnitmiðuðu skoti neðst í bláhornið fjær. David James átti ekki möguleika á að verja. Þetta var mjög falleg úr vel útfærð sókn og sannarlega gott að ná forystu fyrir leikhlé. Forystan hefði svo getað verið stærri því skalla Peter Crouch var bjargað á marklínu áður en flautað var til leikhlés. Síðari hálfleikurinn hófst ekki vel fyrir gestina. Eftir aðeins sjö mínútur var Joey Barton, hinn harði stuðningsmaður Liverpool, rekinn af velli fyrir að brjóta illa á Sami Hyypia. Joey hafði fengið gult spjald í fyrri hálfleik eftir álíka ljótt brot á Daniel Agger. Það merkilega var að Manchester City náði sínum besta leikkafla í kjölfar brottvikningarinnar. Á stuttum tíma varði Jose Rina vel frá þeim Shaun Wright-Phillips og Trevor Sinclair. Markvarsla hans frá Trevor var frábær. Jose sló þá fast skot hans yfir markið. Grikkinn Georgios Samaras komst svo í opið færi en hann skaut framhjá þegar hann var með Jose Reina einan fyrir framan sig. Hinu megin á vellinum var Peter Crouch þrívegis nærri því að skora. Fyrst átti hann glæsilega hælspyrnu sem fór rétt framhjá og svo skaut hann fallegu skoti sem small í þverslánni. David kom við boltann og bjargaði marki. Þriðja færið skapaði Peter alveg sjálfur með því að brjótast inn í vítateiginn en David bjargaði með góðu úthlaupi. Steven Gerrard komst svo einn inn á vítateiginn en Richard Dunne bjargaði með góðri tæklingu. Steven meiddist eitthvað og var nokkra stund að koma sér af stað aftur. Gestirnir ógnuðu ekkert á lokakafla leiksins. John Arne Riise átti bylmingsskot í hliðanetið undir lokin og sanngjarn sigur Liverpool varð staðreynd. Sigurinn var, líkt og svo oft áður á leiktíðinni, í minnsta lagi. En þrjú stig voru fyrir öllu.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan