| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Síðbúið sigurmark færði Liverpool sigur á þeim degi er tíu ár voru liðin frá því að Bob Paisley lést. Bob hefði verið ánægður með leik sinna manna. Luis Garcia nægði þrjár mínútur til að skora. Þetta er leikur Liverpool og Arsenal í hnotskurn.

- Leikurinn fór fram að kveldi Valentínusardags. Á þeim degi fyrir tíu árum lést meistarinn Bob Paisley.

- Minning Bob var heiðruð fyrir leikinn með lófaklappi.

- Leikurinn átti upphaflega að fara fram þann 27. ágúst. En leiknum var frestað vegna þess að leikmenn Evrópumeistaranna voru uppteknir við að bæta Stórbikar Evrópu í safnið um þá helgi!

- Þetta var í 163. sinn sem þessi lið mætast í deildarleik. Liverpool hefur aðeins leikið oftar gegn Everton í deildinni. Mersey liðin hafa leikið 173 sinnum saman í deildarleik.

- Jamie Carragher lék sinn fjögurhundraðasta leik með Liverpool.

- Jamie er 24. leikmaðurinn í sögu Liverpool til að ná fjögurhundruð leikjum með félaginu.

- Jamie er fyrsti leikmaður Liverpool í níu ár til að ná fjögurhundruð leikjum. John Barnes afrekaði það síðast á útmánuðum 1997.

- Jerzy Dudek lék í fyrsta sinn á Anfield Road frá því á síðustu leiktíð. Síðasti leikur hans þar var sællar minningar leikurinn gegn Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

- Robbie Fowler var í fyrsta sinn í byrjunarliði á Anfield Road eftir endurkomuna. Þetta var 350. deildarleikur hans á ferlinum. Þá eru leikir hans með Leeds United og Manchester City taldir með.

- Liklega áttu margir von á því að Robbie myndi opna markareikning sinn í leiknum en hann hafur skorað oft gegn Skyttunum í gegnum tíðina. Hann hefur til dæmis tvívegis skorað þrennu gegn Arsenal fyrir Liverpool.

- Ekkert lið hefur leikið lengur í efstu deild en Arsenal. Liðið hefur verið án úrtaka í efstu deild frá árinu 1919.

- Enginn leikmanna Arsenal í hópnum fyrir leikinn var af bresku bergi brotinn.

- Alex Ferguson framkvæmdastjóri Manchester United sat í stúkunni til að fylgjast með Evrópumeisturunum. Hann kemur með sitt lið í heimsókn til Liverpool á laugardaginn.

- Florent Sinama Pongolle er enn eini sóknarmaður Liverpool sem hefur skorað á árinu.

- Leikmönnum Liverpool hefur tekist misjafnlega upp frá vítapunktinum á leiktíðinni. Steven Gerrard bættist í hóp þeirra Dietmar Hamann og Djibril Cissé sem hafa líka misnotað vítaspyrnu á leiktíðinni. Það má þó fyrirgefa þeim því þeir skoruðu í Istanbúl!

- Luis Garcia skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni.

- Luis Garcia var aðeins búinn að vera inn á í þrjár mínútur þegar hann skoraði.

- Aðra leiktíðina í röð vann Liverpool Skytturnar með síðbúnu marki. Luis skoraði sigurmarkið á 87. mínútu. En sigurmarkið á síðustu leiktíð var enn síðbúnara. Neil Mellor skoraði þá á 90. mínútu eins og allir muna!

- Stuðningsmenn Liverpool sýndu íþróttaanda þegar þeir klöppuðu fyrir Jens Lehmann í leikslok. Þjóðverjinn lék frábærlega og stuðningsmenn Liverpool sýndu að þeir kunnu vel að meta framgöngu hans!

Liverpool: Dudek, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Sissoko (Garcia 84. mín.), Alonso (Hamann 72. mín.), Kewell, Morientes og Fowler (Cissé 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Traore.

Mark Liverpool: Luis Garcia (87. mín.) 

Arsenal: Lehmann, Eboue, Toure, Senderos, Flamini, Ljungberg, Fabregas, Silva, Pires (Hleb 79.mín.), Adebayor og Henry. Ónotaðir varamenn: Almunia, Diaby, Larsson og Djourou.

Gult spjald: Freddie Ljungberg.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.065.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn var frábær. Hann var gríðarlega sterkur í leiknum. Hann passaði vel upp á vörnina og eins lét hann finna fyrir sér frammi á vellinum. Bæði spilaði hann boltanum vel fram og svo var hann ógnandi eftir hornspyrnur. Hann var til dæmis eitt sinn nærri búinn að skora með frábærri hælspyrnu eftir eina hornspyrnuna.  

Jákvætt :-) Áhorfendur heiðruðu minningu Bob Paisley með viðeigandi hætti fyrir leikinn. Leikmenn Liverpool yfirspiluðu Arsenal frá upphafi til enda. Allir leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir að leika af krafti og gefa vonina um sigur aldrei upp á bátinn. Rafael Benítez sýndi herkænsku með skiptingum sínum. Allir varamennirnir komu við sögu og lögðu sitt af mörkum til sigursins. Enn skorar Luis Garcia mikilvægt mark. Hann hefur sýnt að hann er snjall í að skora mikilvæg mörk. Áhorfendur lögðu líka sitt af mörkum. Þeir studdu vel við bakið á sínum mönnum!

Neikvætt :-(  Líkt og í síðustu leikjum gekk sóknarmönum Liverpool illa uppi við mark andstæðinga sinna. Steven Gerrard misnotaði vítaspyrnu. Vítaspyrnur meiga helst ekki fara í súginn. Það kom þó ekki að sök í þetta skiptið.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool tók leikinn strax í sínar hendur og bikarmeistararnir áttu í vök að verjast. Gestirnir fengu þó fyrsta hættulega færið. Kolo Toure skallaði þá framhjá úr mjög góðu færi. Þetta reyndist eina færi Arsenal í fyrri hálfleik. John Arne Riise var nærri búinn að skora en fast skot hans fór rétt framhjá. Jens Lehmann varði næst frábærlega þegar afmælisbarnið Philippe Senderos var næstum búinn að skora sjálfsmark. Svisslendingurinn skallaði þá fyrirgjöf Steven Gerrard í átt að eigin marki en Jens varði á síðustu stundu. Á 32. mínútu fékk Liverpool vítaspyrnu þegar dómarinn taldi að Emmanuel Eboue hefði ýtt við Fernando Morientes. Dómurinn þótti nokkuð harður en líklega mátti réttlæta hann. Gestunum fannst samt réttlætinu fullnægt þegar Jens varði góða vítaspyrnu Steven Gerrard með því að skutla sér til hægri og slá boltann frá. Frábær markvarsla. Það dró heldur úr ákafa Liverpool fram að leikhléi en Skytturnar ógnuðu heimamönnum aldrei. Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og sem fyrr lá á Skyttunum. Eftir svo sem fimm mínútur í síðari hálfleik fékk Robbie Fowler boltann inn á vítateiginn frá Steven Gerrard. Hann sneri varnarmann af sér og náði hnitmiðuðu skoti á markið. Boltinn stefndi inn en Jens náði til boltans og varði á síðustu stundu. Upp úr þurru náðu gestirnir sínu fyrsta og eina skoti á markrammann. Thierry Henry átti þá bylmingsskot að marki utan teigs sem Jerzy Dudek varði vel með því að slá boltann frá. Eftir rúmlega klukkustundar leik sendi Steven frábæra sendingu fyrir markið á Fernando Morientes sem skallaði framhjá úr upplögðu færi. Hann hefði átt að skora miðað við hversu góður skallamaður hann er. Áfram sótti Liverpool. Jens varði hjólhestaspyrnu frá Harry Kewell og glæsilegri hælspyrnu Sami Hyypia var bjargað á marklínu. Það virtist stefna í, líkt og í of mörgum leikjum það sem af er ársinu, að yfirburðir Liverpool myndu ekki duga til að vinna sigur. En þremur mínútum fyrir leikslok kom það sem stuðningsmenn Liverpool voru búnir að bíða eftir. Dietmar Hamann átti þá þrumuskot að marki utan vítateigs. Boltinn stefndi í markið en landi hans varði enn einu glæsilega. Hann hélt þó ekki boltanum. Luis Garcia, sem var búinn að vera inni á vellinum í þrjár mínútur, náði frákastinu og náði að koma boltanum í markið úr þröngu færi. Þjóðverjinn var þó ekki fjarri því að verja. Trylltur fögnuður tók við innan vallar sem utan. Markið var síðbúið en það tryggði fyllilega sanngjarnan sigur Liverpool!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan