| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Sæt hefnd fyrir brottfall úr F.A. bikarnum á sama stað fyrir tveimur árum. Evrópumiestararnir sneru grimma heimamenn niður á nýju grasi. Þetta er leikur Liverpool og Portsmouth í hnotskurn.

- Þetta var þriðja rimma Liverpool og Portsmouth í F.A. bikarnum. 

- Liverpool hefur nú haft betur í tveimur.

- Þessi sigur færði Liverpool hefnd fyrir tap á sama stað fyrir tveimur árum.

- Hinn sigur Liverpool á Portsmouth í F.A. bikarnum var vorið 1992. Liverpool vann þá aukaleik í undanúrslitum í vítaspyrnukeppni. Sá sigur leiddi til sigurs Liverpool í F.A. bikarnum. Vonandi veit sigurinn núna líka á gott!

- Michael Owen misnotaði vítaspyrnu þegar Liverpool tapaði 1:0 aukaleik á Fratton Park leiktíðina 2003/04. Steven Gerrard urðu ekki á nein mistök núna og Liverpool fór áfram.

- Jamie Redknapp fyrrum leikmaður Liverpool sat við hlið Harry föður síns í stúkunni í fyrri hálfleik. Þeir feðgar ræddu mikið saman á meðan á leik stóð. Það skyldi þó aldrei vera að Harry vantaði aðstoðarþjálfara!

- Þetta var fyrsti leikurinn eftir að nýtt gras var lagt á Fratton Park nú eftir áramótin.

- Robbie Fowler má ekki leika með Liverpool í F.A. bikarnum því hann lék einn leik með Manchester City í keppninni. Robbie skoraði þá öll mörk City þegar liðið lagði Scunthorpe United 3:1. 

- Robbie var heima í Liverpool og hefur örugglega fylgst með leiknum í sjónvarpinu.  

- Hollendingurinn Jan Kromkamp var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool.

- Jose Reina og Fernando Morientes léku sína fyrstu leiki í F.A. bikarkeppninni.

- Írinn Dean Kiely lék sinn fyrsta leik í marki Portsmouth eftir að hann kom til liðsins frá Charlton Athletic. Hann mátti sækja boltann tvívegis í markið! Sander Westerveld, fyrrum markvörður Liverpool, sem kom til Portsmouth í sumar var ekki í hópnum að þessu sinni.

- Gregory Vignal fyrrum leikmaður Liverpool fékk að finna fyrir reiði Steven Gerrard eftir að hann fór harkalega með olnbogann í höfuð fyrirliðans. Steven las fyrrum félaga sínum pistilinn.

- Steven Gerrard skoraði seytjánda mark sitt á leiktíðinni. Hann er nú markahæstur leikmanna Liverpool í F.A. bikarnum með þrjú mörk.

- John Arne Riise skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. Þetta var fyrsta mark hans í þessari keppni.

- Líkt og í bikarleiknum gegn Luton þá var eftirlíking af Evrópubikarnum með í för hjá einhverjum stuðningsmanni Liverpool.

Portsmouth: Kiely, Primus (Priske 88. mín.), Stefanovic, O´Brien, Vignal (Todorov 45. mín.), O´Neil, Davis, Mendes, Hughes, Taylor og Pericard (Karadas 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Ashdown og Cisse.

Mark Portsmouth: Sean Davis (54. mín.)

Gul spjöld: Vincent Pericard, Richard Hughes og Sean Davis.

Liverpool: Reina, Kromkamp, Hyypia, Carragher, Warnock, Gerrard (Finnan 80. mín.), Alonso, Sissoko, Riise, Cissé (Kewell 83. mín.) og Morientes (Crouch 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Traore.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard, víti (37. mín.) og John Arne Riise (41. mín.)

Gult spjald: Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Fratton Park: 17.247.

Maður leiksins: Sami Hyypia. Enn og aftur sýndi Sami öllum sem efast um getu hans hversu sterkur varnarmaður hann er. Hann var eins og klettur í vörninni og það braut mikið á honum.

Jákvætt :-) Liverpool fór áfram í F.A. bikarnum. Leikmenn sýndu góða baráttu gegn grimmum heimamönnum. Eins létu leikmenn Liverpool grófan leik heimamanna ekki setja sig út af laginu. Vörnin stóð sig í heild vel. Miðjumennirnir börðust vel. Jan Kromkamp átti í erfiðleikum til að byrja með en hann náði áttum þegar leið á leikinn og endaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði vel. Liverpool lék svo sem ekki mjög vel en það er góðs viti að vinna þó allt gangi ekki upp.

Neikvætt :-(  Leikmenn Portsmouth voru alltof grófir í upphafi leiksins. Auðvitað eiga leikmenn að berjast en þetta var nú fullmikið af því góða. Annan leikinn í röð fær Liverpool á sig mark þar sem andstæðingur skorar með skalla eftir aukaspyrnu. Þeir Fernadno Morientes og Djibril Cissé voru óravegu frá sínu besta í sókninni.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Líklega áttu margir von á því að Liverpool myndi ekki eiga í miklum erfiðleikum með heimamenn en annað kom á daginn. Leikmenn Portsmouth byrjuðu af miklum krafti og virtust ákveðnir í að bæta sig eftir að hafa tapað 5:0 fyrir Birmingham í síðasta deildarleik. Sem dæmi um grimmd þeirra og ákveðni þá voru tveir þeirra búnir að fá gul spjöld eftir stundarfjórðung. Litlu síðar kastaðist í kekki milli þeirra fyrrum félaga Steven Gerrard og Gregory Vignal. Frakkinn fór þá með olnbogann af krafti aftan á háls fyrirliðans sem brást reiður við. Atgangur leikmanna var slíkur að engin friður gafst til að byggja upp almennilegar sóknir. Fyrsta markskotið kom ekki fyrr en eftir tæplega hálftíma. Jose Reina varði þá langskot Pedro Mendes sem fór beint á hann. Liverpool hafði ekki átt skot á mark þegar liðið fékk hornspyrnu á 37. mínútu. Þegar boltinn kom fyrir eftir hornspyrnuna, sem Steven Gerrard tók, fór hann í hendina á Dejan Stefanovic. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu án þess að hugsa sig um. Steven tók spyrnuna og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Fjórum mínútum seinna tvöfölduðu Evrópumeistararnir forystu sína. Fernando Morientes framlengdi þá sendingu inn fyrir vörn heimamanna. John Arne Riise var snöggur að átta sig og komst á auðan sjó upp vinstri kantinn. Frá vítateig skaut hann hnitmiðuðu skoti neðst í fjarhornið. Markvörður Portsmouth varði svo á síðustu stundu frá Fernando Morientes sem var kominn inn á teiginn. Allt leit út fyrir öruggan sigur Liverpool þegar flautað var til leikhlés. En heimamenn komu sér inn í leikinn á 54. mínútu. Aukaspyrna frá vinstri var send inn á teiginn þar sem Sean Davis náði að fleyta boltanum aftur fyrir sig og í markið óverjandi fyrir Jose Reina. Í næstu sókn var John Arne Riise næstum búinn að auka forystu Liverpool en hann skaut yfir úr dauðafæri af stuttu færi. Fá færi sköpuðust það sem eftir lifði leiks en hart var barist úti um allan völl. Dejan Stefanovic átti gott skot úr aukaspyrnu sem fór rétt yfir þegar fimmtán mínútur voru eftir. Hinu megin á vellinum komst Fernando í gott færi en missti boltann frá sér. Á lokakafla leiksins mátti Jose Reina vera vel á verði og tvívegis náði hann boltanum á síðustu stundu eftir baráttu í teignum. En Liverpool hélt forystunni og landaði sigri á suðurströndinni. Liðið lék vissulega ekki vel en þó nógu vel til að vinna sigur. Það var fyrir mestu í þetta skiptið.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan