| Sf. Gutt

Endurkoma ársins!

Endurkoma ársins! Þvílíkur leikur! Evrópumeistararnir áttu stórfenglega endurkomu gegn Luton í F.A. bikarnum í gærkvöldi. Liðið sneri tapstöðu í sigur á eftirminnilegan hátt í einum besta bikarleik á seinni árum. Eftir að hafa náð forystu snemma leiks þá sofnuðu leikmenn Liverpool algerlega á verðinum og lentu 3:1 undir. En ótrúleg endurkoma umbylti leiknum og Liverpool vann ótrúlega sigur 5:3 í einum besta leik í F.A. bikarnum á seinni árum. Þessi leikur fer í annála Liverpool og reyndar F.A. bikarsins.

Liverpool byrjaði betur og það var greinilegt að leikmenn liðsins ætlaðu ekki að falla úr keppninni eins og á síðustu leiktíð. Allt gekk samkvæmt áætlun þegar Steven Gerrard skoraði með frábæru skoti utan vítateigs. Hann tók boltann viðstöðulaust, eftir að Djibril Cissé lagði boltann til hans, í fjærhornið. En leikmenn Liverpool virtust telja að þetta mark væri nóg og smá saman sofnuðu þeir á verðinum. Steve Howard fékk dauðafæri sem hann náði ekki að notfæra sér en hann bætti úr stuttu seinna, á 31. mínútu þegar hann slapp einn í gegnum vörn Liverpool. Hann lék á Scott Carson og skoraði af öryggi í autt markið. Heimamenn gengu á lagið. Steve Finnan bjargaði á línu með skalla og Scott varði vel fast skot frá Rowan Vine. Það kom því ekki á óvart að Luton komst yfir á 43. mínútu. Steve Robinson fékk þá góða sendingu inn í teiginn þar sem hann sneri Jamie Carragher laglega af sér og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Leikmönnum Luton var því skiljanlega vel fagnað þegar flautað var til hálfleiks.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Marlon Beresford, markvörður Luton, varði vel gott skot frá Harry Kewell. Þremur mínútum eftir leikhlé braust Harry í gegn um vörn Luton og sendi boltann fyrir markið á Steven Gerrard sem var í dauðafæri fyrir opnu marki. En Paul Underwood braut á Steven og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna en Marlon varði spyrnuna af miklu öryggi. Fimm mínútum seinna slapp Rowan Vine skyndilega einn í gegnum vörn Liverpool. Scott Carson kom út á móti honum. Rowan féll við vítateigslínuna og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Dómurinn var vafasamur. Leikmaður Luton virtist vera fyrir utan vítateginn þegar hið meinta brot átti sér stað. Það mátti líka færa rök fyrir því að Scott hefði ekki fellt Rowan. En Scott slapp með skrekkinn því dómarinn bókaði hann bara. Miðað við þá ákvörðun sem hann tók þá hefði hann átt að reka Scott af leikvelli. Peter Nicholls skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Allt gekk af göflunum af fögnuði á Kenilworth Road og stuðningsmenn Hattarana sáu fram á frækin sigur. Þá loksins rönkuðu leikmenn Liverpool við sér og tóku leikinn algerlega í sínar hendur. Rafael setti Florent Sinama Pongolle inn á eftir 57 mínútur. Fimm mínútum síðar var Frakkinn búinn að skora. Hann slapp einn í gegnum vörnina og skoraði af öryggi rétt innan vítateigs. Við tóku ótrúlegar mínútur. Liverpool sundurspiluðu heimamenn og það mátti búast við marki í hverri sókn. En jöfnunarmarkið var samt óvænt. Það kom á 69. mínútu þegar Xabi Alonso skaut bylmingsskoti af milli þrjátíu og fjörutíu metra færi. Boltinn þeyttist yfir Marlon í marki Luton án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Stórkostlegt skot og nú var komið að stuðningsmönnum Liverpool að fagna. Fimm mínútum síðar sendi Steve Finnan góða sendingu inn á vítateig Luton. Þar stökk Florent manna hæst og skallaði boltann upp undir þverslána með föstum skalla. Evrópumeistararnir voru búnir að snúa leiknum sér í hag og ekki minnkaði gleðin hjá stuðningsmönnum Liverpool. Heimamenn áttu engin svör við þessu. Liverpool sótti enn og það var greinilegt að það átti að gera endanlega út um leikinn. Það gekk ekki þrátt fyrir góðar sóknir. Hollendingurinn Jan Kromkamp lék sinn fyrsta leik með Liverpool þegar hann kom inn fyrir Peter Crouch ellefu mínútum fyrir leikslok. Undir lok leiksins bjargaði Steve Finnan í horn. Markvörður Luton Marlon Beresford brá sér í sóknina með alvarlegum afleiðingum. Leikmenn Liverpool komu boltanum frá eftir hornið. Xabi Alonso fékk boltann og sendi hann í autt mark heimamanna af eigin vallarhelmingi með hnitmiðuðu skoti. Ótrúlegt mark hjá Spánverjanum. Ég hef aldrei áður séð leikmann Liverpool skora af svo löngu færi. Þetta var síðasta snerting leikmanns Liverpool í leiknum. Ótrúleg endurkoma var fullkomnuð! Leikmenn Luton tóku miðju og þar með var leik sem bauð upp á allt lokið. Þvílíkur leikur!

Luton Town: Beresford, Foley, Coyne, Heikkinen (Barnett 74. mín.), Underwood, Edwards (Feeney 81. mín.), Nicholls, Robinson, Brkovic (Showunmi 81. mín.), Howard og Vine. Ónotaðir varamenn: Morgan og Brill.

Mörk Luton Town: Steve Howard (31. mín.), Steve Robinson (43. mín.) og Kevin Nicholls, víti (53. mín.)

Gult spjald: Coyne.

Liverpool: Carson, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Kewell, Gerrard, Sissoko (Pongolle 57. mín.), Alonso, Crouch (Kromkamp 79. min.) og Cissé (Warnock 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Hamann.

Gul spjöld: Mohamed Sissoko og Scott Carson.

Mörk Liverpool: Steven Gerrard (16. mín.), Florent Sinama Pongolle (62. og 74. mín.) og Xabi Alonso (69, og 90. mín.)

Áhorfendur á Kenilworth Road: 10.170.

Rafael Benítez var ekki alls kostar ánægður með sína menn þrátt fyrir að þeir hafi náð sigri. "Luton gerði okkur mjög erfitt fyrir og þeir stóðu sig mjög vel. Við vorum mjög daprir í fyrri hálfleik og slakur leikur okkar gaf þeim sjálfstraust. Ég hef sagt mönnum mínum að þeir verði að læra að klára leiki. Þegar staðan var orðin 3:1 reyndi ég að átta mig á því hvað væri að fara úrskeiðis.. Ég vissi að við yrðum að breyta einhverju. Það breytti öllu að setja Florent Sinama Pongolle inn á. VIð réðum lögum og lofum eftir það. Ég hafði alltaf mikla trú á að við gætum snúið leiknum okkur í hag og unnið sigur."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan