| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Vörn Evrópubikarsins heldur áfram á nýju ári. Evrópumeistararnir tryggðu áframhald af miklu öryggi. Þetta er leikur Liverpool og Real Betis í hnotskurn.

- Real Betis var stofnað árið 1907. Liðið hefur einu sinni orðið spánskur meistari. Það var árið 1935. Real hefur tvívegis unnið spænsku bikarkeppnina. Það afrekaði liðið árið 1977 og svo nú aftur í ár.

- Liverpool vann fyrri leik liðanna 2:1 á Spáni.

- Það gæti verið góðs viti. Í þrjú síðustu skipti sem Liverpool hefur unnið á Spáni hafa þeir sigrar leitt til Evróputitils. Leiktíðina 1975/76 vann Liverpool útisigur á Barcelona. Sá sigur endaði með sigri í Evrópukeppni félagsliða. Liverpool vann sigur á Bilbao leiktíðina 1983/84 og á síðustu leiktíð vannst sigur á Deportivo La Coruna. Þeir tveir sigrar komu á leið að Evrópubikarsigri.

- Real Betis er 95. liðið sem Liverpool mætir í Evrópuleik. Um leið er liðið það níunda frá Spáni sem Liverpool mætir í Evrópusögu sinni.

- Stuðningsmenn Real Betis nutu þess greinilega að sækja Anfield Road heim. Fyrir leikinn voru þeir með stóran borða sem á stóð Halló Anfield, njótið þess besta, ,,Hello Anfield, enjoy the best". Áttu þeir ekki við Evrópumeistarana? Ég held að það hljóti að vera! 

- Jose Reina hélt marki sínu hreinu. Þar með tryggði hann það að Liverpool fékk ekki mark á sig á heimavelli í riðlakeppninni. Það hefur ekki gerst áður.

- Liverpool hefur nú ekki fengið á sig mark í fimm leikjum í röð. Það hefur ekki gerst frá því í desember 2001.

- Sami Hyypia lék sinn 55. Evrópuleik í röð.

- Peter Crouch lék sinn sextánda leik með Liverpool. Enn hefur honum ekki tekist að skora mark.

- Talnaglöggir menn hafa reiknað út að Peter hafi nú leikið 1.048 mínútur með Liverpool án þess að skora.

- Darren Potter lék síðustu andartök leiksins eftir að hafa leyst Steven Gerrard af hólmi.

- Ýmsum fannst fannst Rafael Benítez kaldur í kvöldsvalanum að skipta Steven Gerrard af leikvelli áður en leiknum lauk!

- Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu í leikslok. Vörn Evrópubikarsins getur haldið áfram á nýju ári.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Potter 90. mín.), Hamann, Sissoko, Zenden, Crouch (Kewell 83. mín.) og Morientes (Cissé 66. mín.). Ónotaðir varamenn:Dudek, Josemi, Traore og Warnock.

Gult spjald: Dietmar Hamann.

Real Betis: Doblas, Melli, Juanito, Rivas, Lopez, Joaquin, Assuncao (Capi 69. mín.), Rivera, Arzu, Xisco og Fernando (Israel 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Contreras, Canas, Castellini, Edu og Juanlu.

Gult spjald: Oscar Lopez.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.077.

Maður leiksins: Dietmar Hamann var frábær á miðjunni. Enn einu sinni sýndi hann hversu góður hann er þegar mikið er í húfi. Á lokakaflanum stillti hann sér upp fyrir framan vörnina og varði hana áföllum. Þjóðverjinn er sannarlega ekki dasuður úr öllum æðum og það er dýrmætt að eiga hann að þegar á þarf að halda.

Jákvætt :-) Vörn Evrópubikarsins heldur áfram! Evrópumeistararnir sýndu mikið öryggi og yfirvegun í leiknum og léku eins og þeir sem valdið hafa. Liðið spilaði kraftmikinn sóknarleik og átti að vinna leikinn. Enn einu sinni hélt Jose Reina markinu hreinu. Leikmenn liðsins léku vel. Sérstaklega var vörnin og miðjan góð. 

Neikvætt :-(  Liverpool átti að vinna leikinn. Góð marktækifæri fóru í súginn. 

Umsögn Liverpool.is um leikinn:  Liverpool byrjaði leikinn vel og það varð snemma ljóst að gestirnir ætluðu að verjast og freista þess að ná skyndisóknum. Í fyrri hálfleik átti Peter Crouch tvær góðar marktilraunir. Fyrst átti hann skot utan teigs eftir að hafa lagt boltann vel fyrir sig. Skotið var þó of nærri markverðinum. Litlu síðar átti hann skalla rétt framhjá. Markvörðurinn varði svo bylmingsskot frá Steven Gerrard. Eina færi gestanna var skalli af góðu færi sem fór beint á Jose Reina. Evrópumeistararnir reyndu að gera út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks með kröftugum sóknum. Fernando Morientes komst í opið færi en einn varnarmanna Real Betis bjargaði á síðustu stundu. Ekki svo löngu síðar fékk Spánverjinn aftur gott færi, eftir frábæran undirbúning Peter Crouch, en hann skaut framhjá. Steven Gerrard átti svo tvö góð færi en Antonio Doblas varði í bæði skiptin. Seinna færið, sem kom seint í leiknum, var algert dauðafæri. Steven komst þá einn í gegn eftir frábæra stungusendingu frá Harry Kewell. Gestirnir ógnuðu ekki mikið en undir lokin mátti ekkert út af bera fyrst staðan var markalaus. En leikmenn Liverpool stóðust spennuna og náðu tilskildu stigi í hús. Vörn Evrópubikarsins heldur því áfram á nýju ári.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan