| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Fyrsta heimsókn Liverpool til Belgíu í tuttugu ár endaði vel. Sigur vannst og allt fór vel fram. Þetta er leikur Liverpool og Anderlecht í hnotskurn.

- Þetta var fyrsta heimsókn Liverpool til Belgíu frá því liðið lék í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða við Juventus árið 1985 á Heysel leikvanginum.

- Fyrir leikinn létust 39 áhorfendur eftir uppþot á áhorfendastæðunum.

- Liverpool hefur tvívegis áður tekist á við Anderlecht í Evrópukeppni.

- Fyrra skiptið var á leiktíðinni 1965/65. Liverpool vann þá 3:0 á Anfield Road og 1:0 í Brussel.

- Árið 1978 léku liðin um Stórbikar Evrópu. Liverpool tapaði útileiknum 3:1 en vann heimaleikinn 2:1. Anderlecht vann því Stórbikarinn samanlagt 4:3.

- Anderlecht var stofnað árið 1908 og heitir eftir hverfi í Brussel. Gælunafn þess er þeir Purrpurarauðu.

- Leikvangur Anderlecht heitir Constant Vanden Stock. Hann er nefndur eftir fyrrum leikmanni félagsins sem stjórnaði líka belgíska landsliðinu. Á þessum leikvangi voru fyrstu einkastúkur í Evrópu byggðar .

- Anderlecht er sigursælasta félag í Belgíu. Liðið hefur 27 sinnum orðið Belgískur meistari. Átta sinnum hefur það unnið bikarkeppnina þar í landi. Anderlecht á líka fimm Evróputitla á afrekaskrá sinni. Liðið vann Evrópukeppni bikarhafa 1976 og 1978. Árið 1983 vann liðið Evrópukeppni félagsliðsliða. Félagið hefur svo tvívegis unnið Stórbikar Evrópu.

- Anderlecht varð í öðru sæti í belgísku deildinni á síðustu leiktíð. F.C. Bruges varð meistari.

- Sami Hyypia kom inn í liðið eftir hvíld um síðustu helgi og lék sinn 53 Evrópuleik í röð.

- Harry Kewell lék sinn fyrsta leik frá því í Istanbúl í vor. Hann fór þá meiddur af leikvelli í fyrri hálfleik og hefur ekki spilað aftur fyrr en í Brussel.

- Harry varð 24. leikmaður Liverpool til að spila í Evrópukeppninni á þessari leiktíð. Aðeins þeir Sami Hyypia og Djibril Cissé hafa spilað alla leikina. Liverpool notaði 27 leikmenn á Evrópuvegferðinni á síðustu leiktíð

- Steve Finnan var ekki leikfær vegna meiðsla.

- Djibril Cissé skoraði níunda mark sitt á leiktíðinni. Reyndar er hann búinn að skora tólf mörk ef landsleikjamörk eru talin með.

- Af mörkunum níu sem hann hefur skorað fyrir Liverpool eru sjö Evrópumörk.

- Mark Djibril Cissé sá svo um að Anderlecht tapaði tíunda Meistaradeildarleik sínum í röð.

- Liverpool hefur unnið alla fimm útileiki sína frá því Evrópuvegferð þessarar leiktíðar hófst í sumar.

Anderlecht: Proto, Deschacht (Akin 75. mín.), Tihinen (Traore 50. mín.), Deman, Vanden Borre, Goor, Vanderhaeghe (Baseggio 61. mín.), Wilhelmsson, Zetterberg, Mpenza og Jestrovic. Ónotaðir varamenn: Zitka, Zewlakow, Pujol og Hasi.

Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore, Sissoko (Zenden 82. mín.), Alonso, Hamann, Riise (Warnock 88. mín.), Garcia og Cissé (Kewell 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Finnan, Crouch og Morientes.

Gul spjöld: Xabi Alonso og Jose Reina.

Markið: Djibril Cissé (20. mín.).

Áhorfendur á Constant Vanden Stock leikvanginum: 21.824.

Maður leiksins: Xabi Alonso er búinn að leika vel í síðustu leikjum og það varð engin breyting á því í Brussel. Hann var mjög duglegur á miðjunni og bæði byggði upp sóknir Liverpool og braut sóknartilraunir Anderlecht á bak aftur.

Jákvætt :-) Liverpool vann sigur og liðið hefur nú unnið báða útileiki sína í riðlinum. Staða liðsins þegar keppnin í riðlinum er hálfnuð er mjög vænleg. Liverpool lék mjög vel í fyrri hálfleik og þá átti liðið að skora fleiri mörk. Djibril heldur áfram að skora. Vörnin var mjög góð og það sama má segja um Jose Reina í markinu. Það var gleðilegt að sjá Harry Kewell koma til leiks eftir meiðsli. Þessi fyrsta heimsókn Liverpool til Brussel, frá því harmleikurinn á Heysel yfirskyggði úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða 1985, heppnaðist vel. Allt gekk vel fyrir sig utan vallar sem ianna.  

Neikvætt :-(  Enn gengur illa að koma boltanum í mark andstæðingana. Liverpool átti að vera búið að gera út um leikinn strax í fyrri hálfleik. Eftir því sem leið á leikinn magnaðsit upp spenna því eins marks forysta er alltaf naum. Sigurinn var því tæpur. En allt fór þó vel.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool réði ferðinni í fyrri hálfleik en það voru heimamenn sem fengu fyrsta færið strax í byrjun. Jose Reina varði þá frábærlega, með fætinum, skot frá Bart Goor sem komst einn í gegn. Luis Garcia fékk næsta færi en hann skaut yfir úr dauðafæri eftir sendingu frá John Arne Riise. Það var svo vel varið í horn frá Norðmanninum á 20. mínútu. Hornspyrnan sem fylgdi gaf af sér mark sem reyndist sigurmark leiksins. Dietmar Hamann tók hornspyrnuna beint á Djibril Cissé sem hamraði boltann viðstöðulaust í markið frá vítapunktinum. Þetta var frábærlega að verki staðið hjá Frakkanum. Silvio Proto markvörður Anderlecht átti frábæran leik og hann þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hann varði af stuttu færi frá Djimi Traore fyrir hálfleik. Heimamenn komu sterkir til leiks eftir leikhlé. Reyndar átti Liverpool fyrsta færi hálfleiksins þegar John Arne Riise átti þrumuskot rétt framhjá. Litlu síðar varði Jose Reina mjög vel í horn frá Vanden Borre  og heimamenn sýndu að þeir ætluðu ekki að gefast upp. Þeir vildu fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Jamie Carragher eftir skot frá Svíanum Christian Wilhelmsson. Vissulega höfðu heimamenn réttmæta kröfu á vítaspyrnu en dómarinn dæmdi ekkert. Þrátt fyrir góða viðleiti Anderlecht þá fékk Liverpool góð færi. Djibril Cissé skaut rétt framhjá og það var vel varið frá Mohamed Sissoku sem kominn var í mjög gott færi. Það var spenna í leiknum til loka því eitt mark er ekki mikil forysta. En forystan dugði og Liverpool vann mikilvægan sigur.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan