| Sf. Gutt

Meistarajafntefli

Margfaldir meistarar skildu án marka á Anfield Road í kvöld. Evrópumeistararnir áttu sigurinn skilinn. En þrátt fyrir harðar atlögur í síðari hálfleik náðu ekki að brjóta Chelsea á bak aftur. Englandsmeistarnir voru greinilega sáttir í leikslok. Liverpool leiðir því enn riðilinn eftir tvo leiki á markahlutfalli yfir Chelsea.

Leikmenn fóru varlega af stað og fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill. Það var samt ekkert gefið eftir  og leikmenn beggja liða börðust eins og ljón. Jose Reina varði tvívegis vel. Í fyrra skiptið frá Frank Lampard. Í seinna skiptið varði hann meistaralega þegar hann sló fast skot Arjen Robben yfir. Liverpool náði ekki að skapa sér opin færi en Evrópumeistararnir áttu að fá vítaspyrnu. Peter Crouch skallaði þá boltann til Sami Hyypia sem var við að komast í færi þegar Didier Drogba virtist sparka í hann. Finninn féll en dómarinn dæmdi ekkert.

Evrópumeistarnir voru miklu sterkari aðillinn eftir leikhlé. Leikmenn Liverpool voru vel studdir af áhorfendum þegar þeir sóttu að The Kop. En líkt og í fyrri hálfleik gekk liðsmönnum illa að skapa opin marktækifæri gegn gríðarlega sterkri vörn Chelsea. Þar var í raun sama hvað reynt var alltaf voru varnarmenn ensku meistaranna vel á verði og fyrir aftan þá var Tékkinn Petr Cech öryggið uppmálað. Tvívegis vildu leikmenn Liverpool fá vítaspyrnu. Í fyrra skiptið virtist Luis Garcia vera truflaður þegar hann var við það að sleppa í gegnum vörnina. Það hefði þó líklega verið harður dómur að dæma víti þá en það var ekki spurning í seinna tilvikinu. Þá átti Jamie Carragher fastan skalla að marki eftir hornspyrnu. William Gallas setti hendina fyrir og stöðvaði för boltans að markinu. Dómarinn var rétt hjá og það var ótrúlegt að hann skyldi ekki dæma vítaspyrnu. Leikmenn Liverpool sóttu grimmt til leiksloka en markið lét á sér standa. Xabi Alonso átti tvö góð langskot. Annað varði Petr örugglega en hitt fór rétt framhjá. Á lokakafla leiksins var augljóst að leikmenn Chelsea tóku öllu með ró og voru sáttir með að fara með stig frá Liverpool. Sú ætlan tókst. Það þykir greinilega gott að ná stigi á útivelli gegn Evrópumeisturunum!

Það er ekki annað hægt en að vera sáttur með leik Liverpool. Sérstaklega lék liðið vel í síðari hálfleik. Eitt, utan vítaspyrnudómanna sem ekki fengust, olli þó vonbrigðum. Liðið skoraði ekki mark. Auðvitað var við bestu vörn á Englandi að eiga en sóknarmenn eða sóknarmaður Liverpool sköpuðu sér ekkert færi. En Liverpool varð fyrsta liðið á þessari leiktíð til að koma í veg fyrir sigur Chelsea. Á sunnudaginn gefst annað tækifæri á að verða fyrsta liðið til að leggja Chelsea að velli á þessari leiktíð! 

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Traore, Hamann, Garcia, Gerrard, Alonso, Crouch og Cissé (Sinama Pongolle 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Riise, Josemi, Warnock, Zenden og Potter.

Gult spjald: Xabi Alonso.

Chelsea: Cech, Ferreira, Ricardo Carvalho, Terry, Gallas, Essien, Makelele, Lampard, Duff (Crespo 75. mín.), Drogba (Huth 90. mín.) og Robben (Wright-Phillips 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Cudicini, Cole, Geremi, Guðjohnsen.

Gul spjöld: Claude Makelele, Arjen Robben, Frank Lampard og John Terry.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.743.

Rafael Benítez var ósáttur með að Liverpool skyldi ekki fá vítaspyrnu dæmda. "Þetta var augljóst víti þegar maður sér þetta í sjónvarpinu. Þegar leikið er gegn stórum liðum skipta öll smáatriði máli. Þetta var stórt atriði og það var ótrúlegt að fá ekki vítaspyrnu. Kannski áttum við að fá annað víti í leiknum. En við fengum það ekki heldur. Við spiluðum vel og að mínu mati vorum við betri en Chelsea. Við vitum að munurinn á þeim og okkur er ekki það mikill. Við sýndum fólki að við erum færir um að sigra þá. Við unnum á síðasta tímabili og við getum unnið þá aftur."

Fyrir leikinn fékk Liverpool Evrópubikarinn formlega til eignar þegar Lennart Johansson afhenti Rafael Benítez hann. Um það eignarhald verður engu framar breytt!!!!!

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan