| Sf. Gutt

Góður sigur í Sofíu

Liverpool tók mikilvægt skref í áttina að riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Evrópumeistararnir sóttu þá 3:1 sigur til höfuðstaðar Búlgaríu þegar liðið lagði CSKA Sofia þar að velli 3:1.

Heimamenn sem voru vel studdir af aðdáendum sínum byrjuðu af miklum krafti og ógnuðu nokkuð með hröðum og kraftmiklum sóknum. En Evrópumiestararnir slógu leikmenn CSKA út af laginu með því að skora fyrsta markið. Djibril Cisse komst þá einn í gegn eftir sendingu frá Steven Gerrard og skoraði utarlega úr teignum. Boltinn lá í markinu og Frakkinn fagnaði marki fjórða leikinn í röð. Eftir þetta réði Liverpool gangi mála. Sex mínútum síðar opnaði Fernando Morientes markareikning sinn á leiktíðinni þegar hann skoraði með góðum skalla eftir glæsilega fyrirgjöf Steven Gerrard úr aukaspyrnu. Leikmenn Liverpool sofnuðu augnablik á verðinum í lok fyrri hálfleiks og Velizar Dimitrov minnkaði muninn með því að skalla óárettur í mark eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik, líkt og þann fyrri,  af krafti. Liðið náði þó ekki að skapa sér hættuleg færi. Liverpool fékk á hinn bóginn góð færi og Fernando Morientes átti  dauðafæri til að auka muninn en skaut í utanverða stöngina. Hann bætti þó úr skák litlu síðar þegar hann skoraði rétt utan markteigs eftir að hafa snúið varnarmann af sér. Aftur var Steven Gerrard hönnuðurinn að markinu. Sigurinn var aldrei í hættu eftir þetta. Antonio Barragan lék sinn fyrsta leik með Liverpool þegar hann spilaði síðustu ellefu mínútur leiksins eftir að hafa skipt við landa sinn Fernando Morientes. Jose Reina gulltryggði svo 3:1 sigur Liverpool þegar hann varði vel á lokamínútunni.  Sannfærandi sigur sem færir Evrópumeistarana skrefi nær riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Sæti þar er svo gott sem formsatriði eftir vel heppnaða ferð til Búlgaríu. 

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Luis Garcia, Gerrard (Sissoko 70. mín.), Alonso (Hamann 64. mín.), Warnock og Morientes (Barragan 79. mín.) og Cisse. Ónotaðir varamenn: Carson, Baros og Whitbread.

Mörkin:  Liverpool, Djibril Cisse (25. mín.) og Fernando Morientes (31. og 58. mín.). CSKA Sofia, Velizar Dimitrov (45. mín.).

Gul spjöld: Luis Garcia og Stephen Warnock.

Áhorfendur: 16.512.

Rafael Benítez var ánægður með góð úrslit. ,,Leikmennirnir voru einbeittir og þegar upp var staðið náðum við góðum úrslitum. Við spiluðum vel, vorum þéttir fyrir og notuðum kantana með góðum árangri. CSKA er með gott lið og þeir sóttu hratt. Þeir sköpuðu á stundum vandræði fyrir okkur en þegar allt er tekið með í reikninginn held ég að við höfum staðið okkur vel bæði í vörn og sókn."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan