| Sf. Gutt

Matt Beard látinn

Enn berast sorgarfréttir frá Liverpool. Í gær var tilkynnt að Matt Beard, fyrrum framkvæmdastjóri kvennaliðs Liverpool, hefði látist skyndilega. Hann var 47 ára gamall. 

Matt Beard fæddist 9. janúar 1978 í Roehampton á England. Hann lætur eftir sig eiginkonu Debbie. Þau eiga tvö börn saman og auk þeirra ólst sonur Debbie frá fyrra hjónabandi upp hjá þeim. 

Matt hóf snemma að þjálfa. Fyrir utan þjálfun á yngri liðum stýrði Matt kvennaliðum Millwall, Chelsea, Liverpool, Boston Breakers, West Ham United, Bristol City og Burnley.

Matt kom fyrst til Liverpool 2012. Hann gerði kvennalið Liverpool að Englandsmeisturum 2013 og 2014. Hann var kjörinn Framkvæmdastjóri ársins bæði árin. Á myndinni að ofan er Matt lengst til hægri í efstu röð þegar Liverpool fagnaði Englandsmeistaratitlinum 2014. Haustið 2015 yfirgaf Matt Liverpool og tók við þjálfun Boston Breakers í Bandaríkjunum.

Vorið 2021 var Matt aftur ráðinn til Liverpool. Liðið var þá í næst efstu deild. Hann leiddi liðið með glæsibrag til sigurs í deildinni. Í febrúar var tilkynnt að Matt væri hættur störfum sem framkvæmdastjóri Liverpool. Nú síðast þjálfaði Matt hjá Burnley í tvo mánuði núna í sumar. 

Matt var mjög virtur knattspyrnuþjálfari og var hvarvetna sem hann starfaði bæði virtur og vinsæll. Auk þess að stýra Liverpool til tveggja meistaratitla kom hann Chelsea og West Ham United í úrslit í FA bikarnum. Báðir úrslitaleikirnir töpuðust. 

Liverpool Football Club sendi frá sér tilkynningu um fráfall Matt í gær. Í henni segir meðal annars þetta. ,,Á þessari hræðilega erfiðu stundu er hugur allra hjá félaginu hjá fjölskyldu og vinum Matt. Matt var ekki bara bara duglegur og sigursæll knattspyrnuþjálfari. Hann var líka heiðarlegur og hlýr maður. Hans verður ætíð minnst af öllum sem hann vann með hjá félaginu af mikilli væntumþykju."

Liverpool klúbburinn á Íslandi vottar öllum sem eiga um sárt að binda dýpstu samúð. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan