| Sf. Gutt

Milos Kerkez kominn til Liverpool

Milos Kerkez er búinn að semja við Liverpool. Ungverski landsliðsmaðurinn kemur frá Bournemouth. Liverpool borgar 40 milljónir sterlingspunda fyrir Milos. Hann gerði fimm ára samning við Liverpool

Milos leikur jafnan sem vinstri bakvörður og getur líka spilað úti á kanti. Hann er eldfljótur og sókndjarfur. Milos hefur verið orðaður við Liverpool síðustu mánuði.

Milos er fæddur 7. nóvember 2003 í Vrbas í Serbíu. Hann æfði með austurríska liðinu Rapid Wien fram eftir unglingsárum en gekk til liðs við Gyor í Ungverjalandi 2020. Þegar hann var hjá liðinu ákvað hann að leika fyrir hönd Ungverjalands þar sem honum fannst vel tekið á móti sér í landinu. Reyndar er önnur amma hans ungversk.

Í febrúar 2021 fékk Milos tilboð frá AC Milan. Hann stóðst ekki mátið og fór til Ítalíu. Hann fékk þó ekki nein tækifæri þar og ári seinna færði hann sig um set til Hollands þar sem hann gerði samning við AZ Alkmar. Á leiktíðinni 2022/23 varð hann fastamaður hjá Alkmar og vakti þó nokkra athygli.

Sumarið 2023 gekk Milos til liðs við Bournemouth. Þar gerði hann mjög góða hluti á þeim tveimur leiktíðum sem hann lék með liðinu. Mikill áhugi var á honum á þessu ári en hann ákvað að semja við Liverpool. 

Milos Kerkez lék með yngri landsliðum Ungverjalands en hann hefði líka getað leikið fyrir hönd Serbíu. Hann lék sinn fyrsta aðallandsleik haustið 2022. Milos er nú þegar búinn að spila 23 landsleiki.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan