| Sf. Gutt

Næsta víst!



Næsta víst er að Arne Slot verður næsti framkvæmdastjóri Liverpool. Allt sem hefur komið fram í fjölmiðlum upp á síðkastið vísar í þá átt.

Allir traustustu fjölmiðlar telja að Arne muni taka við starfi Jürgen Klopp. Í lok apríl sagði Hollendingurinn í viðtali við hollenska fjölmiðla að forráðamenn Feyenoord og Liverpool væru í viðræðum um vistaskipti hans. Um leið sagði hann að hann vissi ekki hvað kæmi út úr þeim viðræðum en hann vonaðist til að að viðræðurnar leiddu til þess að hann yrði næsti framkvæmdastjóri Liverpool. 

Á næsta blaðamannafundi Jürgen Klopp eftir þessi ummæli Arne sagði Jürgen þetta. ,,Ef hann verður arftaki minn er ég fullkomlega sáttur við það." Þetta var föstudaginn 26. apríl. 

Á næstu dögum á eftir birtust fréttir um að Liverpool og Feyenoord hefðu náð samkomulagi um fjárupphæð. Upphæðin 13 milljónir Evra sást en hún átti að vísa til samanlagðs kostnaðar vegna Arne og aðstoðarmanna hans sem koma til með að fylgja honum til Liverpool. 

Þann 8. maí var haft eftir Arne að tilkynnt yrði fljótlega um að hann myndi taka við sem framkvæmdastjóri Liverpool. ,,Stundum gefast tækifæri í lífinu. Þið eigið eftir að sjá tilkynningu á næstu dögum eða vikum."

Sem sagt næsta víst og kannski rúmlega það!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan