| Sf. Gutt

Liverpool Deildarbikarmeistari í tíunda skipti!


Fyrirliði Liverpool Virgil van Dijk tryggði Liverpool Deildarbikarinn í tíunda skipti með skallamarki þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni. Úrslitaleikur Liverpool og Chelsea á Wembley var æsispennandi. Einn hetjulegasti bikarsigur Liverpool í sögu félagsins. 

Það vantaði 11 leikmenn í liðshóp Liverpool fyrir leikinn. Alisson Becker, Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Thiago Alcantara, Diogo Jota, Curtis Jones, Stefan Bajcetic og Ben Doak voru allir meiddir. Spurningamerki voru við þá Mohamed Salah, Darwin Núnez og Dominik Szoboszlai. Því miður var svarið við spurningunni um hvort einhver þeirra gæti leikið neikvætt. Liðið sem Jürgen Klopp valdi var því eiginlega sjálfvalið.

Fyrsta færi leiksins kom eftir rétt um stundarfjórðung. Chelsea mistókst að spila frá marki. Cody Gakpo kom boltanum á Luis Díaz í vítateignum. Hann náði skoti á markið en Djordje Petrovic varði. Um fimm mínútum seinna fékk Cole Palmer færi við mark Liverpool en Caoimhin Kelleher kom vel út á móti og varði skotið sem var af stuttu færi. 

Rétt eftir miðjan hálfleik lá Ryan Gravenberch eftir í kjölfarar harðar atlögu Moises Caicedo sem var ekki einu sinni bókaður og reyndar fékk Liverpool ekki aukaspyrnu. Sumir töldu að Moises hefði átt að vera rekinn af velli. Brotið var óviljandi en það á ekki að breyta neinu. Endirinn varð sá að Ryan var borinn af velli og kom Joe Gomez í hans stað. 

Fimm mínútum fyrir lok hálfleiksins fékk Liverpool frábært færi til að komast yfir. Andrew Robertson sendi fyrir frá vinstri. Cody skallaði að marki en því miður hafnaði boltinn í innanverðri stönginni. Djorde átti ekki möguleika í markinu. Á lokamínútu hálfleiksins fékk Liverpool aftur gott færi. Luis lagði upp skotfæri fyrir Conor Bradley í vítateignum en varnarmaður komst fyrir skot hans.  Það var því markalaust í hálfleik.

Síðari hálfleikur var fjörugur eins og sá fyrri. Á 60. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu vinstra megin. Andrew gaf fyrir og hitti beint á Virgil van Dijk sem skallaði í mark við mikinn fögnuð. Ekki var annað séð en markið væri gott og gilt en þá kom sjónvarpsdómgæslan til skjalanna. Eftir langa mæðu var dæmt rangstaða á Wataru Endu sem var talinn hindra leikmann Chelsea þegar aukaspyrnan kom fyrir. Stórmerkileg niðurstaða. Má segja að þarna væri verið að leita að ástæðu til að dæma markið af. Algjörlega farið í smáaletrið og rúmlega það!

Á 76. mínútu skall hurð nærri hælum við mark Liverpool. Cole kom boltanum inn í vítateiginn á Conor Gallagher sem náði að stýra boltanum að marki. Til allrar hamingju fór boltinn í stöngina og Liverpool náði í kjölfarið að hreinsa. Þegar fimm mínutur lifðu leiks fékk Chelsea aftur hættulegt færi. Cole stakk boltanum fram á Conor sem komst einn gegn Caoimhin en Írinn kom út á móti og varði meistaralega. 

Þegar þrjár mínútur voru eftir skipti Jürgen Klopp þremur leikmönnum inn á. Alexis Mac Allister, Andrew og Cody fóru af velli og inn komu James McConnell, Kostas Tsimikas og Jayden Danns. Áður hafði Bobby Clark leyst Conor af hólmi. Þar með voru þrír óreyndir menn komnir í eldlínunna.

Chelsea sótti af krafti síðustu mínúturnar og þegar komið var fram í viðbótartíma slapp mark Liverpool á ótrúlegan hátt eftir mikinn atgang. Caoimhin varði af stuttu færi, Joe bjargaði við markið og loks endaði boltinn í fanginu á Íranum. Leikmenn Liverpool voru trúlega fegnir að sleppa í framlengingu eftir þessa orrahríð. 

Liverpool byrjaði framlenginguna vel og eftir þrjár mínútur átti Jayden skalla, eftir að Virgil hafði skallað til hans, sem markmaður Chelsea sló yfir. Á 99. mínútu sendi Luis fyrir yfir til vinstri á Harvey Elliott sem var í góðu færi en hann náði ekki að hitta boltann vel og skotið fór í hliðarnetið. Ekkert mark þegar framlengingin var hálfnuð. 

Í hálfleik fór Ibrahima Konaté af velli og Jarell Quansah leysti hann af. Enn einn unglingurinn kominn til leiks. Liverpool gekk vel að halda aftur af Chelsea í þessum hálfleik. Á 115. mínútu slapp Chelsea ótrúlega. Kostas sendi fyrir frá vinstri á Harvey sem skallaði að marki af stuttu færi. Boltinn fór í stöng og í framhaldinu náði Djorde að bjarga við marklínuna. 

Bobby vann horn þegar tvær mínútur voru eftir. Kostas tók hornið frá hægri. Hann sparkaði fast fyrir markið. Inni í vítateignum kom Virgil á fullri ferð á móti boltanum og náði að skalla hann út í vinstra hornið. Boltinn hafnaði neðst í horninu og allt gekk af göflunum. Stuðningsmenn Liverpool voru fyrir aftan markið og til þeirra hlupu leikmenn Liverpool. Gersamlega stórkostlegt! 

Leikmenn Liverpool héldu fengnum hlut þær mínútur sem eftir voru leiksins. Fögnuðurinn sem fylgdi lokaflautinu var engu líkur. Liverpool hafði tekist að vinna Deildarbikarinn!

Virgil van Dijk og Jürgen Klopp tóku saman við bikarnum. Líkt og 1983 þegar Bob Paisley tók við Deildarbikarnum á sinni síðustu leiktíð gerði Jürgen slíkt hið sama. Tók við Deildarbikarnum á Wembley. Það eru enn þrír titlar í boði fyrir Liverpool. Hvernig sem gengur að ná í þá mun þessi sigur aldrei gleymast. Þetta er einfaldlega einn hetjulegasti bikarúrslitasigur Liverpool í sögu félagsins! Að vinna sigur í úrslitaleik með heilt lið frá vegna meiðsla er eitt mesta afrek sem Liverpool hefur unnið!


Liverpool: Kelleher, Bradley (Clark 72. mín.), Konaté (Quansah 105. mín.), van Dijk, Robertson (Tsimikas 87. mín.), Mac Allister (McConnell 87. mín.), Endo, Gravenberch (Gomez 28. mín.), Elliott, Gakpo (Danns (87. mín.) og Díaz. Ónotaðir varamenn: Adrián, Koumas og Nyoni.

Mark Liverpool: Virgil van Dijk (118. mín.).

Gul spjöld: Conor Bradley, Alexis Mac Allister, Ibrahima Konaté, James McConnell og Joe Gomez.

Chelsea: Petrovic, Gusto, Disasi, Colwill, Chilwell (Chalobah 113. mín.), Caicedo, Fernández, Palmer, Gallagher (Madueke 97. mín.), Sterling (Nkunku 67. mín.) og Jackson (Mudryk 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Sánchez, Bettinelli, Gilchrist, Tauriainen og Gee.

Gul spjöld: Ben Chilwell og Cole Palmer.   

Áhorfendur á Wembley: 88.888.


Maður leiksins: Virgil van Dijk. Fyrirliðinn var stórkostlegur. Hann var frábær í vörninni, leiddi liðið, hvatti menn sína allan leikinn og steig ekki feilspor. Svo skoraði hann sigurmarkið!  

Jürgen Klopp: ,,Á tuttugu ára ferli mínum slær þessi bikar allt út og það auðveldlega. Mér gæti ekki verið meira sama um arfleifð mína. Ég kom ekki hingað til að búa til eitthvað svoleiðis. Þetta var svo ótrúlega magnað. Það sem gerðist hérna var alveg bilað. Svona gerist bara ekki. Liðið, liðshópurinn og strákarnir úr Akademíunni sýndu ótrúlegan skapstyrk. Ég er svo stoltur að ég skuli getað hafa verið hluti af þessu í kvöld. Það bilaðasta af ölllu er að við áttum þetta skilið. Við höfðum heppnina með okkur á köflum en það gilti líka um þá. Strákarnir mættu harðskeyttir til leiks. Það var ótúlega flott."

Fróðleikur

- Liverpool vann Deildarbikarinn í tíunda sinn. Ekkert félag hefur unnið bikarinn jafn oft.

- Liverpool hefur unnið keppnina árin 1981, 1982, 1983, 1984, 1995, 2001, 2003, 2012, 2022 og nú 2024. 

- Virgil van Dijk skoraði í fjórða sinn á leiktíðinni. 

- Þetta var fyrsta Deildarbikarmark Virgil fyrir Liverpool. 

- Virgil tók við sínum fyrsta bikar eftir að hann varð fyrirliði Liverpool. 

- Joe Gomez, Wataru Endo, Alexis Mac Allister, Ryan Gravenberch, Cody Gakpo, Conor Bradley, Jarell Quansah, Bobby Clark, James McConnell, Jayden Danns, Trey Nyoni og Lewis Koumas urðu Deildarbikarmeistrar í fyrsta sinn.

- Jayden Danns spilaði sinn annan leik fyrir Liverpool. Hann var í annað sinn varamaður.

- Varamennirnir Trey Nyoni og Lewis Koumas hafa enn ekki spilað fyrir hönd Liverpool. Trey var í sjötta sinn á varamannabekk Liverpool og Lewis í þriðja skipti.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan