| Sf. Gutt

Jólasigur!


Liverpool vann góðan 0:2 jólasigur í Burnley á öðrum degi jóla. Liverpool hafði yfirburði í leiknum en náði ekki að innsigla sigurinn fyrr en undir lok leiksins. 

Liverpool byrjaði leikinn af krafti og komst yfir eftir sex mínútur. Darwin Núnez braust þá fram völlinn en leikmaður heimamanna stöðvaði hann. Cody Gakpo náði boltanum og lék í átt að marki Burnley vinstra megin. Darwin rauk á fætur eftir að hafa dottið eftir atlöguna og fylgdi Cody. Hollendingurinn renndi boltanum fyrir fætur Úrúgvæjans sem fékk frítt skot við vítateiginn og boltinn steinlá neðst í horninu fjær. Loksins mark hjá Darwin eftir langa mæðu!

Tveimur mínútum seinna unnu Cody og Darwin aftur saman. Darwin lagði boltann fyrir fætur Mohamed Salah í vítateignum en James Trafford varði meistaralega með því að slá boltann yfir. Egyptinn var aftur á ferðinni á 34. mínútu þegar Cody sendi fram á hann. Mohamed smellti boltanum viðstöðulaust að marki úr vítateignum en boltinn small í þverslá og fór yfir. Liverpool með öll völd en aðeins eitt mark skildi í hálfleik. 

Yfirburðir Liverpool héldu áfram eftir hlé. Harvey Elliott skoraði eftir tíu mínútur en það var dæmd rangstaða á Mohamed sem var talinn vera í sjónlínu markmanns. Sjónvarpsdómgæslan tók markið af sem var rangur dómur því Mohamed var hrint þannig að hann lenti þar sem hann var. Í fyrri hálfleik var dæmt mark af Cody af því Darwin var talinn hafa brotið af sér í nánd við atvikið. Það var líka vitlaus dómur. Það var því ekki undarlegt að leikmenn Liverpool væru búnir að fá nóg af sjónvarpsdómgæslunni!

Á 68. mínútu fékk Burnley sitt fyrsta færi og það var af betri gerðinni. Varamaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson skallaði yfirúr dauðafæri eftir fyrirgjöf frá hægri. Þar slapp Liverpool vel. Á 86. mínútu komst varamaðurinn Jacub Braun Larsen inn í þversendingu á vallarhelmingi Liverpool. Hann skaut föstu skoti vel utan teigs en boltinn fór rétt framhjá. Heimamenn voru farnir að minna á sig. 

En nær komust þeir ekki og Liverpool innsiglaði jólasigurinn á 90. mínútu. Wataru Endo vann boltann rétt fyrir framan miðju. Diogo Jota fékk boltann og sendi inn í vítateiginn á Luis Díaz. En Portúgalinn lét ekki þar við sitja. Hann hélt hlaupinu áfram alla leið inn í vítateiginn vinstra megin. Luis kom boltanum á hann með hælnum í þröngri stöðu en Diogo lauk sókninni með skoti sem James réði ekki við. Diogo fagnaði innilega enda hafði hann komið inn á sem varamaður sex mínútum áður. Svo var þetta fyrsti leikur hans í mánuð. Leik lokið!

Liverpool komst á toppinn með sigrinum. Sigurinn var allt annað en auðveldur ef miðað er við yfirburði Liverpool og stöðu Burnley í deildinni. En öllu skipti að ná öllum stigunum.

Burnley: Trafford, da Silva, O'Shea, Beyer, Taylor, Odobert, Berge, Brownhill (A Ramsey 90. mín.), Trésor (Jóhann Berg Guðmundsson 61. mín.), Foster (Redmond 85. mín.) og Amdouni (Bruun Larsen 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Rodríguez, Roberts, Cullen, Delcroix og Muric.

Gul spjöld:
Sander Berge og Dara O'Shea.

Liverpoool: Alisson, Alexander-Arnold, Quansah, van Dijk, Gomez, Elliott (Díaz 67. mín.), Endo, Gravenberch (Jones 67. mín.), Salah, Gakpo (Szoboszlai 67. mín) og Núnez (Jota 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Chambers, McConnell og Bradley.

Mörk Liverpool: Darwin Núnez (6. mín.) og Diogo Jota (90. mín.).

Gult spjald: Trent Alexander-Arnold. 

Áhorfendur á Turf Moor: 21.624.

Maður leiksins: Darwin Núnez. Úrúgvæinn barðist eins og ljón. Hann náði loksins að skora eftir langt hlé. 

Jürgen Klopp: ,,Við hefðum getað gert okkur auðveldara fyrir. En frá því ég kom til Liverpool höfum við aldrei farið auðveldar leiðir. Hvers vegna hefðum við átt að breyta til með það núna?"

Fróðleikur

- Liverpool fór í efsta sæti deildarinnar með sigrinum. 

- Darwin Núnez skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Fyrir hafði hann spilað 12 leiki án þess að skora. 

- Diogo Jota skoraði í níunda sinn á sparktíðinni. 

- Þetta var 50. mark hans fyrir Liverpool.

- Liverpool hefur 13 sinnum hitt tréverkið á leiktíðinni í deildarleikjum. Ekkert lið hefur átt fleiri skot í slár og stangir!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan