| Sf. Gutt

Baráttusigur!


Liverpool vann í kvöld 0:2 baráttusigur á Sheffield United. Leikurinn, sem var í Sheffield, var mjög harður og Liverpool gerði vel í að ná öllum þremur stigunum.

Það var mikil stemmning fyrir leik hjá heimamönnum því Chris Wilder var kynntur sem nýr framkvæmdastjóri liðsins. Þetta er í annað sinn sem hann stýrir liðinu. Leikurinn byrjaði ekki vel því það þurfti að huga drjúga stund að Alexis Mac Allister sem varð fyrir hnjaski í hörðu samstuði.

Á 12. mínútu fengu heimamenn fyrsta færi leiksins. Joe Gomez missti Cameron Archer inn fyrir sig. Cameron kom boltanum á James McAtee sem komst í færi í vítateignum en Caoimhin Kelleher gerði vel í að verja. Reyndar var skotið laust.

Liverpool komst yfir á 37. mínútu. Trent Alexander-Arnold tók horn frá hægri. Virgil van Dijk reif sig lausan og smellti boltanum í markið með viðstöðulausu skoti nærri vítapunktinum. Leikmaður heimamanna lá eftir en ekki var talið að brot hefði átt sér stað. Vel heppnað skot hjá fyrirliðanum. 

Í viðbótartíma fyrri hálfleiks átti Alexis Mac Allister skot utan vítateigs en Wes Foderingham varði vel vel með því að slá boltann yfir. Liverpool yfir í leikhléi. 

Eftir 11 mínútur í síðari hálfleik fékk Liverpool horn frá hægri. Trent tók hornið og sending hans rataði beinustu leið á Mohamed Salah sem tók viðstöðualust skot. Wes var vel vakandi í markinu og varði frábærlega. 

Liverpool hafði tögl og hagldir en heimamenn gáfust aldrei upp. Á 77. mínútu kom loksins færi. Trent sendi fram á varamanninn Darwin Nunez sem slapp í gegn. Aftur var Wes til bjargar í markinu. Darwin hefði átt að skora. 

Spennan jókst þegar nær leið leikslokum og þó svo Liverpool hefði völdin mátti ekkert út af bera. Komið var vel fram í viðbótartímann þegar úrslit réðust endanlega. Darwin fékk sendingu fram. Varnarmaður náði að stöðva hann og boltinn barst út til hægri. Þar hugðist heimamaður snúa vörn í sókn en Darwin hafði ekki gefist upp og náði boltanum með hressilegri tæklingu. Hann gaf svo boltann inn í teig á Dominik Szoboszlai sem tók boltann niður óvaldaður og þrumaði honum upp í þaknetið af stuttu færi! Úrslitin ráðin!

Eftir framkvæmdastjóraskiptin hjá Sheffield United lá ljóst fyrir að botnliðið yrði erfitt viðureignar. Svo varð en Liverpool sýndi seiglu og hafði sigur í þessum mikla baráttuleik. 

Sheffield United:
 Foderingham, Ahmedhodzic, Robinson, Trusty (Lowe 88. mín.), Bogle, Hamer, de Souza Costa (Norwood 86. mín.), Brooks (Fleck 74. mín.), McAtee, Archer og Osula (Traoré 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Davies, Thomas, B. Slimane, Larouci og Seriki.

Gul spjöld: Oliver Norwood og Jayden Bogle.

Liverpool: Kelleher, Alexander-Arnold, Konaté, van Dijk, Gomez, Szoboszlai, Endo, Mac Allister (Jones 57. mín.), Salah (Elliott 67. mín.), Gakpo (Gravenberch 86. mín.) og Díaz (Núnez 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Pitaluga, Tsimikas, Quansah og Bradley.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (37. mín.) og Dominik Szoboszlai (90. mín.). 

Gul spjöld: Wataru Endo, Ibrahima Konaté og Darwin Núnez.

Áhorfendur á Bramall Lane: 31.406

Maður leiksins: Virgil van Dijk. Fyrirliðinn fór fyrir liðinu sínu. Hann var sterkur í vörninni og skoraði markið sem ruddi brautina fyrir sigur.  

Fróðleikur

- Virgil van Dikj skoraði fyrsta mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Þetta var 20. mark hans fyrir Liverpool í 236 leikjum.

- Dominik Szoboszlai  skoraði þriðja mark sitt fyrir Liverpool. 

- Trent Alexander-Arnold lagði upp 75. mark sitt fyrir Liverpool.

- Liverpool hefur unnið sex síðustu deildarleiki sína á móti Sheffield United.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan