| HI

Stigi frá toppnum eftir öruggan sigur

Mohammed Salah skoraði tvö mörk, og náði þar með merkum áfanga, í 3-0 sigri á Brentford á Anfield í dag. Liverpool hefur ekki enn tapað stium á heimavelli í vetur og hélt hreinu þar í fjórða skiptið í röð.

Nokkuð var um smávægileg meiðsli og veikindi í Liverpoolliðinu og af þeim sökum voru Ibrahima Konate, Joe Gomez, Curtis Jones og Ryan Gravenberch ekki í leikmannahópnum. Cody Gakpo byrjaði leikinn á miðjunni ásamt Szobozslai og Endo, sem hefur ekki verið fastamaður í byrjunarliðinu hingað til.

Leikurinn byrjaði ekkert sérstaklea fjörlega. Liverpool var meira með boltann án þess að skapa mikið og Brentford skapaði öðru hverju hættu með skyndisóknum. En þetta átti eftir að breytast fljótlega. Darwin Nunez tókst tvisvar að koma boltanum í netið en í bæði skiptin var hann dæmdur rangstæður, réttilega, þó að í fyrra skiptið hafi aðeins stóra táin verið fyrir innan.

En Nunez var ekki af baki dottinn. Skömmu fyrir leikhlé fékk hann boltann inni í teignum og lagði hann á Mo Salah sem kláraði færið af stakri yfirvegun í fjærhornið. Salah fékk dauðafæri til að koma Liverpool í 2-0 í blálok fyrri hálfleiks en frábær sending Trents fór á hinn verri hægri fót og Salah skaut yfir af stuttu færi.

Brentford-menn komu ágætlega inn í seinni hálfleikinn og ógnuðu nokkrum sinnum en vonir þeirra voru slökktar á 62. mínútu þegar Tsimikas náði fyrirgjöf rétt áður en boltinn fór útaf. Brentford-menn virtust sannfærðir um að boltinn yrði dæmdur útaf og horfðu því bara á þegar Mo Salah skallaði boltann í netið frá fjærstöng. Myndbandsdómæslan sýndi hins vegar að boltinn hafði ekki farið allur útaf og þar með stór markið. Þetta var 200. mark Salah í enska boltanum en tvö þeirra gerði hann með Chelsea. Eftir það var aldrei spurning hvernig leikurinn færi og Diogo Jota innsiglaði sigurinn með frábæru skoti í bláhornið utan teigs. 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Quansah, 90), Matip, Van Dijk, Tsimikas, Endo, Szoboszlai (McConnell, 90+4), Gakpo (Elliott, 84), Salah, Nunez, Jota (Diaz, 84).

Mörk Liverpool: Salah (39. og 62. mín), Diogo Jota (74. mín)

Gult spjald: Matip

Áhorfendur á Anfield: 50,151

Maður leiksins: Mo Salah. Skoraði tvö mörk og var allt í öllu í sóknarleik liðsins. Kominn með níu mörk á tímabilinu og 200 alls í enska boltanum. Þvílík goðsögn.


Fróðleikur

- Mo Salah varð í leiknum sá fjórði í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora í fyrstu sex heimaleikjum síns liðs. Hinir sem hafa afrekað þetta eru Alan Shearer, Les Ferdinand og Thierry Henry.

- Brentford hafði fyrir þennan leik unnið þrjá leiki í röð í deildinni.

- Brentford hefur ekki unnið leik á Anfield frá árinu 1937.

- Liverpool hefur unnið fyrstu sex heimaleiki sína í deildinni með markatölunni 17-2.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan