| Sf. Gutt

Hrun eftir óskabyrjun!


Liverpool steinlá 2:5 á Anfield Road fyrir Spánar-, heims- og Evrópumeisturum Real Madrid. Reyndar er Stórbikar Evrópu og Spánar líka í vistun hjá félaginu. Ótrúlegur leikur sem lofaði sannarlega góðu eftir óskabyrjun Liverpool. En niðurstaðan er gersamlega óásættanleg!

Andrúmsloftið var sannarlega rafmagnað í upphafi leiks. Meistaradeildarstefið var baulað í kaf og með því voru stuðningsmenn Liverpool að mótmæla handvöm Knattspyrnusambands Evrópu, sem hefði getað kostað mannslíf, fyrir leik þessara liða í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í París á liðnu vori. Einnig voru borðar í Kop stúkunni sem vísuðu í andúð og reiði gagnvart sambandinu. 

Liverpool fékk óskabyrjun. Boltinn gekk út til hægri þar sem Mohamed Salah gaf fyrir. Darwin Núnez var mættur inn í markteiginn eins og gammur tók boltann á lofti með hælnum og skoraði. Stórglæsilegt mark og aðeins fjórar mínútur liðnar. Tíu mínútum seinna fékk  Thibaut Courtois boltann aftur. Hann hugðist koma boltanum í burtu en missti vald á honum. Mohamed Salah var á næstu grösum og skaut boltanum í markið. Allt sprakk á Anfield í annað sinn! 

Liverpool spilaði mjög vel og allt virtist í góðu lagi. En Real komst inn í leikinn á 21. mínútu. Vinicius Junior fékk boltann vinstra megin í vítateignum. Hann náði á ótrúlegan hátt að skora með föstu skoti út í fjærhornið þegar allt virtist lokað. Tíu mínútum seinna ógnaði Vinicius aftur en Alisson Becker varði meistaralega neðst í vinstra horninu. En á 36. mínútu varð Alisson illa á. Joe Gomez sendi aftur á hann. Alisson hafði öll tök á að hreinsa en beið of lengi. Hann sparkaði boltanum í Vinicius og boltinn sveif í autt markið! Hroðaleg mistök hjá Alisson og Real sannarlega komið inn í leikinn á nýjan leik. Í hálfleik var staðan jöfn.

Í síðari hálfleik fór allt í vitleysu og Real komst yfir eftir aðeins tvær mínútur. A algjörum óþarfa braut Joe af sér til hliðar við vítateiginn vinstra megin. Kannski var þetta ekki einu sinni brot. Luca Modric tók aukaspyrnuna og hitti beint á höfuðið á Eder Militao sem skallaði í mark. Á meðan Eder tók hleupið stóðu leikmenn Liverpool grafkyrrir. Óskiljanlegt!

Það var eins og leikmenn Liverpool gæfust upp við þetta. Hver hefði trúað því á Evrópukvöldi á Anfield! Á 55. mínútu komst Karim Benzema inn í vítateiginn. Skot hans var ekki upp á marga fiska en boltinn fór í Joe, breytti mikið um stefnu og í markið! Joe var öllum lokið og reyndar fleirum! 

Á 67. mínútu versnaði staðan ennþá meir. Fabinho Tavarez lét hirða af sér boltann á miðjunni. Luca tók magnaðan sprett og sendi á Karim. Hann lék Alisson upp úr skónum og skoraði svo af miklu öryggi. Í fyrsta sinn í glæstri Evrópusögu Liverpool hafði gestalið skorað fimm mörk í Evrópuleik! Sem betur fer urðu mörkin ekki fleiri!

Óhætt er að segja að stuðningsmenn Liverpool hafi verið orðlausir eftir leikinn. Óskabyrjun varð að algjöru hruni. Í raun má segja að varla hafi annað eins sést á Anfield í sögunni. Vissulega átti Real Madrid í hlut en liðið er ekki einu sinni efst í spænsku deildinni. Versta tap Liverpool á heimavelli í Evrópuleik! Það eitt segir sína sögu! Í raun spilaði Liverpool mjög vel í fyrri hálfleik en síðari hálfleikurinn var ekki boðlegur á neinn hátt!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez (Matip 73. mín.), van Dijk, Robertson, Henderson (Milner 73. mín.), Fabinho, Bajcetic (Elliott 85. mín.), Salah, Gakpo (Firmino 64. mín.) og Núnez (Jota 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, Keïta, Oxlade-Chamberlain, Jones, Tsimikas og Carvalho.

Mörk Liverpool: Darwin Núnez (4. mín.) og Mohamed Salah (14. mín.). 

Gult spjald: Harvey Elliott. 

Real Madrid: Courtois, Carvajal, Militão, Rüdiger, Alaba (Nacho 27. mín.), Valverde, Camavinga, Modric (Kroos 87. mín.), Rodrygo (Ceballos 81. mín.), Benzema (Asensio 87. mín.) og Vinícius Júnior. Ónotaðir varamenn: Vallejo, Hazard, Lunin, Odriozola, Vázquez, Martín, Arribas og Rodríguez.

Mörk Real Madrid: Vinicius Junior (21. og 36. mín.), Eder Militao (47. mín.) og Karim Benzema (55. og 67. mín.).

Gult spjald: Vinicius Junior.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.337.

Maður leiksins: Mohamed Salah. Hann sást reyndar ekki í síðari hálfleik en Egyptinn skoraði og lagði upp mark. Markið gerði hann að markahæsta leikmanni Liverpool í Evrópukeppnum! 

Jürgen Klopp: ,,Síðari hálfleikurinn byrjaði á því að við fengum mark á okkur. Það var skelfilegt mark og breytti leiknum. Þetta var algjört kjaftshögg og við náðum okkur aldrei á strik eftir það. 

Fróðleikur

- Darwin Núnez skoraði 12. mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði 19 mark sitt á keppnisstímabilinu. 

- Þetta var Evrópumark númer 42 hjá Mohamed sem gerir hann að markahæsta leikmanni Liverpool í Evrópukeppnum frá upphafi. 

- Þetta telst stærsta tap Liverpool á Anfield Road í Evrópuleik. 

- Reyndar tapaði Liverpool eins og nú með þriggja marka mun á Anfield á leiktíðinni 2014/15. Liverpool tapaði þá 0:3 fyrir Real Madrid en tapið núna 2:5 telst stærra þar sem Real skoraði fleiri mörk en þá. 

- Liverpool hefur ekki unnið í síðustu sjö leikjum sínum gegn Real.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan