| Sf. Gutt

Endurtekið efni!




Það var endurtekið efni á Anfield Road í kvöld. Líkt og um síðustu helgi tapaði Liverpool fyrir liði sem er í fallbaráttu. Leeds United kom í heimsókn á Anfield og vann 1:2. 

Liverpool fékk færi á að komast yfir á fyrstu mínútunni. Alisson Becker sendi langt fram að marki Leeds. Markmaður Leeds kom æðandi út fyrir teig en missti af boltanum. Mohamed Salah náði boltanum og kom honum að markinu úr þröngri stöðu en leikmaður gestanna náði að bjarga við marklínuna. Upplagt færi en eins og svo oft áður á leiktíðinni lenti Liverpool undir. Á 4. mínútu átti Joe Gomez hroðalega sendingu aftur sem fór beinustu leið á Rodrigo Moreno sem skoraði í autt markið. Liverpool svaraði af krafti og jafnaði tíu mínútum seinna. Andrew Robertson sendi fyrir á Mohamed Salah sem tók boltann á lofti og skoraði laglega af stuttu færi. 

Liverpool fylgdi þessu ekki eftir sem margir töldu að myndi gerast. Á 20. mínútu átti Brenden Aaronson fast skot í tréverkið. Alisson átti ekki möguleika og Liverpool slapp með skrekkinn. Leeds hefur gengið illa síðustu vikurnar en það var mikil barátta í liðinu. Jafnt var í hálfleik.

Liverpool gekk ekkert betur eftir hlé. Liðið náði sér aldrei almennilega í gang. Samt gáfust færi sem hefðu átt að geta orðið að marki eða mörkum. Á 66. mínútu átti Darwin Nunez skot úr teignum eftir sendingu Mohamed en markmaður Leeds varði með úthlaupi. Tíu mínútum seinna ógnaði Darwin aftur með góðu skoti sem virtist ætla í markið en markmaður Leeds henti sér aftur á bak og sló boltann yfir. 

Þegar allt stefndi í jafntefli kom rothöggið. Mínútu fyrir leikslok fékk Crysencio Summerville sendingu inn í vítateiginn vinstra megin. Hann náði að skora með skoti út í hægra hornið. Gestirnir gengu berserksgang af fögnuði en leikmenn Liverpool voru sem steinrunnir! Nokkrum andartökum áður en Crysencio skoraði átti Roberto Firmino skalla eftir að Andrew Robertson hafði skallað til hans sem markmaður Leeds varði vel. Það var því stutt á milli þess að Liverpool myndi vinna þennan leik og tapa!

Um síðustu helgi var það Nottingham Forest og nú Leeds United. Tvö töp á móti liðum sem eru í fallbaráttu. Á milli var fínn útisigur á Ajax. Liverpool spilaði ekki vel og það er erfitt að finna ástæður fyrir stöðunni eins og hún er núna. 

Mark Liverpool: Mohamed Salah (14. mín.). 

Mörk Leeds United:
Rodrigo Moreno (4. mín.) og Crysencio Summerville (89. mín.).

Gult spjald: Crysencio Summerville.

Maður leiksins: Andrew Robertson. Skotinn stóð fyrir sínu og lagði upp markið. 

Jürgen Klopp: ,,Við erum ólíkir sjálfum okkur að svo mörgu um þessar mundir. Mér þykir leitt að segja þetta en svona er staðan." 

Fróðleikur

- Mohamed Salah skoraði 11. mark sitt á leiktíðinni. 

- Virgil van Dijk var í fyrsta skipti í tapliði í deildarleik á Anfield eftir að hann kom til Liverpool. 

- Þetta var fyrsta deildartap Liverpool á Anfield fyrir framan áhorfendur frá því 2017.

- Liverpool hafði leikið 29 leiki í röð án taps á Anfield áður en kom að þessum leik. 

- Þetta var fyrsti sigur Leeds United á Anfield frá því á leiktíðinni 2000/01. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan