| Sf. Gutt

Jafnglími!Það var jafnglími í fjörugum og spennandi leik grannliðanna á Goodison Park í Liverpool í dag. Bæði lið fengu góð færi en leiknum lauk án marka. 

Nokkuð kom á óvart í uppstillingu Liverpool að ungliðinn Fabio Carvalho skyldi vera á miðjunni en reyndar skoraði hann frábært sigurmark á móti Newcastle United í síðasta leik. Svo vantaði líka mann á miðjuna því Jordan Henderson var ekki leikfær. Fabio og fóstbróðir hans Harvey Elliott fengu báðir stöður á miðjunni. Sannarlega eldskírn fyrir þessa ungu stráka. Kostas Tsimikas var vinstri bakvörður en Andrew Robertson sat á bekknum. Þar var líka lánsmaðurinn Arthur Melo sem var kominn með keppnisleyfi. Darwin Nunez var laus úr þriggja leikja banni og fékk sæti í byrjunarliðinu. 

Að sjálfsögðu var andrúmsloftið rafmagnað fyrir leik og áhorfendur drógu hvergi af sér í hvatningu við liðin sín. Þeir sameinuðust þó á 9. mínútu þegar þeir stóðu á fætur til að klappa fyrir minningu, Olivia Pratt-Korbel, níu ára litlu stúlkunnar sem var myrt í Liverpool borg á dögunum. Falleg stund en grátlegt að svona stundir þurfi að fara fram. Áhorfendur heiðruðu minningu hennar á sama hátt á Anfield um síðustu helgi á leik Liverpool og Bournemouth. 

Á 32. mínútu leiksins kom fyrsta hættulega færið. Eftir atgang í vítateig Liverpool náði Tom Davies að slæma fæti í knöttinn. Boltinn fór í stöngina og Liverpool slapp. Liverpool átti góðan endasprett í hálfleiknum. Á 43. mínútu fékk Darwin Nunez háa og langa sendingu inn í vítateiginn. Hann náði að leggja boltann fyrir sig og ná skoti. Jordan Pickford gerði vel í að verja skotið í þverslá. Sókn Liverpool hélt áfram og strax í framhaldinu fékk Luis Díaz boltann. Hann lék út í teiginn og náði góðu skoti en nú fór boltinn í stöng. Tréverkið var sannarlega með Everton í liði þessi andartök.

Fabio fékk spark í fyrri hálfleik og varð að fara af velli. Í hans stað kom Roberto Firmino. Liverpool hélt áfram þaðan sem frá var horfið fyrir hlé. Eftir fjórar mínútur slapp Everton vel. Eftir þunga sókn Liverpool fékk Kostas boltann en hann hitti ekki markið í þokkalegu færi sem var reyndar mjög þröngt. 

Á 59. mínútu var báðum bakvörðum Liverpool skipt af velli. James Milner og Andrew Robertson komu í stöðurnar. Liverpool tók nú góða rispu. Á 63. mínútu lék Roberto sig í skotfæri við vítateiginn. Hann náði góðu skoti sem Jordan varði naumlega í horn neðst í vinstra horninu. Andrew tók hornið og hitti á Roberto sem skallaði að marki en beint á Jordan. Aftur fékk Liverpool horn. Fabinho Tavarez náði skoti eftir hornið en í þriðja sinn varði Jordan. Everton náði svo skyndisókn sem endaði með því að Neal Maupay fékk upplagt færi í vítateignum. Alisson Becker hélt ró sinni, beið þess sem verða vildi og varði svo frá Neal. 

Á 69. mínútu komst Everton yfir þegar Conor Coady skoraði af stuttu færi. Markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu eftir langa sjónvarpsskoðun. Eitt af fáum skiptum sem sjónvarpsdómgæsla hefur verið í lagi að undanförnu. Athygli vakti hvað Conor fagnaði ógurlega þar sem hann er uppalinn hjá Liverpool. En sem betur fer fór sá fögnuður fyrir lítið. 

Þegar sex mínútur voru eftir átti Dwight McNeil skot sem virtist ætla að fara yfir Alisson en Brasilíumaðurinn var vandanum vaxinn, skutlaði sér aftur á bak og blakaði boltanum yfir. Frábær markvarsla sem var enn betri vegna þess að skotið breytti um stefnu af varnarmanni á leið sinni. Rétt á eftir lagði Mohamed Salah upp skotfæri fyrir Roberto en Jordan varði frá honum í þriðja sinn!

Spennan var mikil undir lokin enda myndi mark verða sigurmark. Á síðustu andartökum viðbótartíma fékk Mohamed boltann frá Luiz vinstra megin. Hann náði föstu skoti og það glumdi í stönginni! Í ljós kom að Jordan náði að setja fingurgóma í boltann. Sem sagt frábær markvarsla sem bjargaði Everton frá tapi. Jafnglími án marki á Goodison Park!

Livepool lék býsna vel en ekki alveg nógu vel. Everton mætti af miklum krafti og fékk sín færi en Jordan og tréverkið komu í veg fyrir að Liverpool næði sigri. En úrslitin voru samt nokkuð sanngjörn. 

Everton: Pickford, Patterson, Coady, Tarkowski, Mykolenko, Davies (Gueye 62.mín.), Onana, Iwobi, Gray, Maupay og Gordon (McNeil 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Begovic, Keane, Allan, Coleman, Vinagre, Rondón og Mills.

Gul spjöld:  Amadou Onana og Jordan Pickford.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Milner 59. mín.), Gomez, van Dijk, Tsimikas (Robertson 59. mín.), Elliott (Matip 80. mín.), Fabinho, Carvalho (Firmino 45. mín.), Salah, Núñez (Jota 80. mín.) og Díaz. Ónotaðir varamenn: Adrián, Melo, Bajcetic og Phillips.

Gul spjöld: Virgil van Dijk og Fabinho Tavarez. 

Áhorfendur á Goodison Park:
39.240.

Maður leiksins:
Joe Gomez. Hann var öryggið uppmálað í þessum erfiða leik. Hann er búinn að vera mjög góður í síðustu leikjum.  

Jürgen Klopp:
,,Fyrsta reglan er að ef þú getur ekki unnið grannaslag þá er að tapa honum ekki.Við hefðum getað unnið í dag en við hefðum svo sem líka getað tapað. En ef við skoðum fjölda færa okkar í leiknum þá hefðum við líklega verðskuldað sigur." 

Fróðleikur

- Þetta var 241. leikur Liverpool og Everton í öllum keppnum. Liverpool hefur unnið 97 leiki en Everton 67. 

- Engin grannlið hafa oftar leitt saman hesta sína í efstu deild.

- Liverpool hefur ekki tapað deildarleik á Goodison Park frá því haustið 2010.

- Þetta var í fyrsta skipti á árinu sem Liverpool náði ekki að skora að það minnsta kosti eitt mark í deildarleik. 

- Diogo Jota lék sinn fyrsta leik á leiktíðinni. 

- James Milner spilaði sinn 600. deildarleik á ferlinum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan