| Grétar Magnússon

Stórsigur, markaveisla!

Fyrsti sigur tímabilsins hefði varla getað verið stærri þegar Bournemouth komu í heimsókn á Anfield. Lokatölur 9-0 hvorki meira né minna.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom ekki á óvart enda enginn leikmaður á meiðslalistanum tilbúinn í slaginn. Ein breyting var gerð frá síðasta leik, Fabinho kom inn og Milner settist á bekkinn. Það var vitað mál fyrir leik að okkar menn þurftu að sýna sitt rétta andlit í spilamennskunni og ná í sín fyrstu stig. En spurningin var fyrir leik hvort það myndi takast gegn nýliðum Bournemouth sem myndu ábyggilega leggja sig alla fram gegn liði sem hafði verið í ströggli í deildinni.

Við þurftum ekki að bíða lengi eftir svari við þessum vangaveltum því ekki voru komnar þrjár mínútur á klukkuna þegar Liverpool hafði skorað. Firmino fékk boltann úti hægra megin, skapaði sér smá pláss og sendi inná teiginn þar sem Luis Díaz skallaði boltann í markið. Frábær byrjun og ákkúrat það sem við stuðningsmenn vildum sjá. Myndbandsdómgæslan skoðaði reyndar markið í smá stund og það fékk að standa. Þrem mínútum síðar var boltinn aftur í marki gestanna þegar Harvey Elliott fékk boltann óvart frá Firmino og skaut föstu skoti sem markmaður gestanna réð ekki við. Mohamed Salah fékk næstu tvö færi og hefði svo sannarlega átt að gera betur í því fyrra. Frábær samleikur Elliott og Firmino í teignum endaði með því að sá fyrrnefndi sendi yfir á fjærstöngina þar sem Salah var fyrir opnu marki en skaut yfir. Seinna færið var svo góð markvarsla þegar Egyptinn skaut úr þröngu færi. Á 28. mínútu kom þriðja markið og var það stórglæsilegt. Trent Alexander-Arnold vann boltann á miðjum vallarhelming gestanna, lék nær markinu, lét vaða af löngu færi og boltinn söng í netinu. Stórglæsilegt mark.

Skömmu síðar bætti Firmino sér á markalistann þegar hann var vel vakandi í markteignum. Sending frá Salah fór í fót varnarmanns og boltinn barst í háum boga í átt að marki þar sem Brasilíumaðurinn setti boltann snyrtilega í markið. Fleiri færi litu dagsins ljós eftir þetta án þess að tækist að nýta þau en fimmta markið náðist fyrir hálfleik engu að síður. Robertson tók hornspyrnu þar sem Virgil van Dijk var mættur til að skalla boltann inn. Staðan 5-0 þegar flautað var til hálfleiks og var þetta í fyrsta sinn síðan árið 1958 sem Liverpool skorar fimm mörk í fyrri hálfleik í deildarleik.

Klopp gerði eina skiptingu í hálfleik þegar Elliott fór útaf fyrir Fabio Carvalho, eftir leik sagði hann að Elliott hefði fundið fyrir smávægilegum óþægindum og miðað við stöðuna hefði ekki verið tekin nein áhætta með hann. En eins og í fyrri hálfleik þurfti ekki að bíða lengi eftir marki þegar Mepham setti boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf frá Alexander-Arnold. 6-0 eftir aðeins 46 mínútur. Firmino skoraði sitt annað mark í leiknum á 62. mínútu eftir klafs í markteignum, Carvalho bætti sér á markalistann á 80. mínútu með góðu skoti eftir að Tsimikas hafði skallað boltann til hans í teignum og fimm mínútum fyrir leikslok skoraði Luis Díaz sitt annað mark með skalla.


Þar með er það upptalið og metið yfir stærsta sigur úrvalsdeildarinnar var jafnað! Það verður auðvitað að geta þess að þeir Stefan Bajcetic og Bobby Clark fengu sínar fyrstu mínútur með aðalliðinu en þeir komu inná sem varamenn í seinni hálfleik.



Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Clark, 83. mín.), Gomez, van Dijk, Robertson (Tsimikas, 69. mín.), Elliott (Carvalho, 45. mín.), Fabinho, Henderson (Bajcetic, 70. mín.), Salah, Firmino (Milner, 69. mín.), Díaz. Ónotaðir varamenn: Adrián, Davies, van den Berg, Phillips.

Mörk Liverpool: Luis Díaz (3. og 85. mín.), Elliott (6. mín.), Alexander-Arnold (28. mín.), Firmino (31. og 62. mín.), van Dijk (45. mín.), sjálfsmark (46. mín.), Carvalho (80. mín.).

Bournemouth: Travers, A. Smith (Solanke, 45. mín.), Mepham (Bevan, 82. mín.), Senesi, Zemura, L. Cook (Pearson, 77. mín. (Marcondes, 82. mín.)), Lerma, Anthony, Christie (Billing, 45. mín.), Tavernier, Moore. Ónotaðir varamenn: Murara Neto, Stacey, Hill, Saydee.

Gult spjald: A. Smith.


Maður leiksins: Roberto Firmino er maðurinn eftir að hafa loksins komið sér á markalistann en auk þess lagði hann upp þrjú önnur mörk. Frábær leikur hjá Bobby.

Jürgen Klopp: ,,Við þurftum að sýna okkur og sanna, aðallega fyrir okkur sjálfum. Eftir stutt undirbúningstímabil með allskonar úrslitum, góðum leikjum og svo ekki eins góðum leikjum, sem er eitthvað sem gerist á undirbúningstímabili. Svo mættum við City og spiluðum mjög vel en eftir það fór frammistaðan að dala einhverra hluta vegna. En þegar upp er staðið var þetta fullkominn dagur fyrir okkur, margir mismunandi markaskorarar og falleg mörk. Í dag vildi ég sjá byrjunina sem við áttum og svo kom frábært framhald af góðri byrjun. Við getum ekki ábyrgst góð úrslit en við búumst við góðri frammistöðu af sjálfum okkur og það tókst heldur betur í dag."

Fróðleikur:

- Roberto Firmino, Trent Alexander-Arnold, Harvey Elliott, Fabio Carvalho og Virgil van Dijk skoruðu sín fyrstu mörk á tímabilinu.

- Mörkin hjá Elliott og Carvalho voru þeirra fyrstu fyrir Liverpool í deildinni.

- Luis Díaz hefur nú skorað þrjú deildarmörk á tímabilinu.

- Seinna mark Firmino í leiknum var mark númer 100 hjá honum í öllum keppnum fyrir Liverpool.

- Firmino hafði ekki skorað á Anfield í síðustu 20 leikjum.

- Stefan Bajcetic og Bobby Clark, báðir 17 ára gamlir, spiluðu sínar fyrstu mínútur fyrir aðalliðið.

- 9-0 sigur er jöfnun á meti úrvalsdeildarinnar yfir stærstu sigurleikina.

- Liverpool jafnaði einnig sitt eigið met yfir stærsta sigur í deildinni en árið 1989 vannst 9-0 sigur á Crystal Palace, þá í "gömlu" fyrstu deildinni á Englandi.

- Liverpool eru í 8. sæti deildarinnar eftir fjóra leiki með fimm stig.

- Bournemouth eru í 16. sæti með þrjú stig.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan